Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 10:45:22 (6384)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:45]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða ef verið er að yfirtaka Ríkisútvarpið, fréttastofu þess, með þeim hætti sem hér er verið að gera grein fyrir.

Það miður er það svo þegar valdasjúk stjórnvöld sitja of lengi þá hætta þau að gera greinarmun á hvað er þeirra og hvað er samfélagsins. Ef satt er sem hér er sagt að væntanlegur, hugsanlegur ný fréttastjóri við útvarpið megi ráða með sér fólk, taka með sér hóp inn, þá dettur manni í hug samlíking. Það standa yfir kosningar í Zimbabwe, þar er hæstráðandi Mugabe. Til þess að tryggja örugglega stöðu sína hefur hann heimild til að taka með sér 30 manns inn á þing. Það skiptir engu máli hvernig kosningin fer, hann hefur alltaf heimild til að taka með sér 30 manns og ráða þinginu.

Er það slíkt stjórnkerfi sem við erum að innleiða hér inn í íslenskar stofnanir, inn í íslenskan veruleika, inn í íslenskt samfélag, að hæstv. ráðherra, hvort sem hann er forsætisráðherra úr Framsóknarflokknum eða formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, megi taka með sér eins og handfylli til þess að allt sé undir kontról, taka upp stjórnunarhætti Mugabes í Zimbabwe? Er verið að leiða það inn í Ríkisútvarpið?

Þetta er grafalvarlegt mál og þingið verður að taka í taumana og stöðva þennan yfirgang á lýðræðinu, að breyta okkur í Mugabe í Zimbabwe.