Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 10:47:21 (6385)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:47]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þá er runninn upp 1. apríl. Ég vonaði satt best að segja í lengstu lög að ekki kæmi til þess að við þyrftum að fara upp í ræðustól á hinu háa Alþingi til að tala enn eina ferðina um hina makalausu ráðningu á nýjum fréttastjóra Ríkisútvarpsins. Það er náttúrlega svo vitlaus aðgerð að engu tali tekur og ég hélt satt best að segja að ríkisstjórnarliðar mundu sjá að sér og draga sig út úr þessari vitleysu og hætta við þetta. Ég sé alls ekki, og er mikið búinn að brjóta heilann um þetta mál, tilganginn með þessu og geri mér enga grein fyrir því í raun og veru hvað vakir fyrir mönnum með því að gera þetta.

Á að reyna að hreinsa til á virtustu fréttastofu landsins, ef svo má segja, er það ætlunarverkið? Halda menn virkilega að þeir komist upp með svona vinnubrögð? Haldi þeir það hafa þeir vanmetið stöðuna allhrikalega og ekki í fyrsta sinn. Þeir gerðu það líka í fyrra þegar þeir reyndu að setja lög á fjölmiðla hér á landi.

Ég er búinn að vera á fundi fjölmiðlanefndar í allan morgun og heyrði ekki af því fyrr en hér og nú að fréttastjórinn hefði mætt í vinnuna klukkan níu og ég harma það. Þessum manni, sem eflaust er ágætismaður, er engan veginn sætt í sinni stöðu. Hann verður að fara frá. Útvarpsstjóri verður líka að fara frá. Honum er heldur ekki sætt í sinni stöðu eftir það sem á undan er gengið.

Ég lýsi hér eftir því að stjórnarliðar komi upp í pontu og taki til máls. Hér er hæstv. dómsmálaráðherra, einn ráðherra ríkisstjórnarinnar sem hefur hlustað á okkur. Hann ber að hluta til ábyrgð á þessu ástandi sem fyrrverandi menntamálaráðherra. Hann skipaði á sínum tíma, að því er ég man best, núverandi formann útvarpsráðs, Gunnlaug Sævar Gunnlaugsson, sem hlýtur að hafa verið arkitektinn á bak við þessa makalausu uppákomu. Ég hlýt enn og aftur að lýsa eftir því að stjórnarliðar komi hér upp og útskýri … (Gripið fram í.) Nei, standi fyrir máli sínu fyrir þjóðinni (Forseti hringir.) því að þjóðin er að fylgjast með.