Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 10:49:42 (6386)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:49]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hornsteinn lýðræðislegrar umræðu hér á landi, fréttastofa Ríkisútvarpsins, hefur orðið fyrir árás. Þessari árás er stýrt af öflum sem ættu frekar að gera sér grein fyrir þýðingu öflugra og sjálfstæðra fjölmiðla, þ.e. henni er stýrt af stjórnmálamönnum sem með gjörðum sínum hafa komið óorði á stjórnmál. Menntamálaráðherra, sem æðsti yfirmaður stofnunarinnar, verður að setjast yfir málið strax og leiða það til lykta. Menntamálaráðherra verður að gera það upp við sig á hvern hátt hag þessarar stofnunar verður best borgið og hvernig því hlutverki sem Alþingi Íslendinga, fulltrúar íslensku þjóðarinnar, hefur falið starfsfólki hennar að annast verði best sinnt.

Hæstv. forseti. Fréttastofa Ríkisútvarpsins verður ekki hornsteinn lýðræðislegrar umræðu í landinu meðan fyrir stofnuninni fer útvarpsstjóri sem gerist handbendi valdasjúkra stjórnvalda. Það er alveg á hreinu. Útvarpsstjóri verður að víkja. Menntamálaráðherra verður að ógilda ráðningu hins nýja fréttastjóra. Það er þetta tvennt sem verður að gerast. Þjóðin á heimtingu á því og lýðræðið krefst þess.