Ráðning fréttastjóra Ríkisútvarpsins

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 10:52:38 (6388)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Athugasemd.

[10:52]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki flokksskrána hér hjá mér þannig að ég get ekki staðfest það sem hv. þingmaður sagði hér um hvar nýráðinn fréttastjóri er í pólitík. Málið snýst ekki um þann mann. Það er orðið greinilegt núna um hvað málið snýst og það snýst ekki bara um það að Framsóknarflokkurinn eigi fréttastjórann. Það snýst um það að breyta á fréttastofunni í eitthvað annað en hún hefur verið. Það snýst um það að þrátt fyrir að þessi fréttastofa hafi verið talin af landsmönnum sú besta í landinu þá hefur fréttaflutningurinn ekki geðjast stjórnvöldum í landinu og það er komið í ljós hvernig menn ætla sér að breyta því.

Það hefur ekki dugað Sjálfstæðisflokknum að hafa yfirráð yfir þessari stofnun í 15 ár og raða þar inn fólki af því að fram á þennan dag hafa menn beygt sig fyrir því að hafa þyrfti hæfi til hliðsjónar þegar verið væri að velja í stöður. Núna er það líka látið lönd og leið. Ekki er nóg sú krafa sem menn gerðu að menn væru í flokknum en þeir væru líka hæfir. Henni hefur verið breytt í það að menn séu tilbúnir að fara bara fyrir flokkinn í starfið sem um er að ræða og að ekki þurfi að bera hæfi þeirra saman við aðra.

Nú liggur fyrir að þessi nýráðni fréttastjóri eigi að fá til liðs við sig fólk inn á fréttastofuna til þess að hægt sé að hreinsa út óæskilegar fréttir, hreinsa út óæskilega fréttamenn, að þeir hætti, að við taki einhvers konar fréttaflutningur sem þjóðin hefur a.m.k. fram að þessu ekki óskað eftir.