Ferðamál

Föstudaginn 01. apríl 2005, kl. 16:00:32 (6457)


131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[16:00]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vil bæta við í máli mínu. Ég tel að gera þurfi því frekari skil í þingsályktunartillögunni eða stefnumörkuninni hver þáttur ríkisins í að byggja upp grunnforsendur og grunnstuðning fyrir ferðaþjónustuna eigi að vera. Minnst er á menntun og rannsóknir en ferðaþjónustan er þannig grein að mjög mikilvægt er að henni sé skapaður mjög öflugur og góður sameiginlegur grunnur. Verið er að stofna upplýsingamiðstöð um ferðaþjónustu sem mér finnst vera einn þáttur sem hið opinbera getur vel staðið að, þ.e. fjölþættri upplýsingaþjónustu sem öllum nýtist. Byggður hefur verið upp stór og sterkur samfélagslegur grunnur í menntun, rannsóknum og markaðsmálum í sambandi við aðra atvinnuvegi í gegnum áratugina, eins og landbúnað og sjávarútveg, en ferðaþjónustan er ung og hana vantar þennan grunnstuðning. Ég tel að ríkið ætti að koma á mjög styrkan og myndarlegan þátt þar inn í.

Þegar maður hugsar til þess sem gerst hefur í stóriðjunni undanfarið þar sem verið er að setja milljarða af opinberu fé til að byggja upp þá grein sem gengur þvert á hagsmuni ferðaþjónustunnar fer maður að hugsa um hve hlutur ferðaþjónustunnar er lítill í því sambandi. Ég tel því að við þurfum að marka ákveðnar þátt og stuðning ríkisins í hinum almennu grunnþáttum sem allir njóta í sambandi við uppbyggingu ferðaþjónustunnar.

Það er ekki hægt annað en að ítreka þær andstæður sem eru á ferðinni. Hæstv. iðnaðarráðherra er t.d. að boða fund á Norðurlandi um stóriðju á grundvelli mikilla fjármuna sem hún hefur til að laða að fólk til að reyna að fá það til að trúa á þetta hugðarefni sitt. Ímyndið þið ykkur að í Skagafirði, sem hefur verið að byggja upp mjög sterka ímynd fyrir hreina og öfluga náttúru og náttúrufegurð, væri búið að stífla Héraðsvötnin, byggja verksmiðju í sjónlínu við Drangey og þegar maður kæmi á Vatnsskarðið horfði maður á blámóðuna sem stendur oft upp af þeirri verksmiðju. Hvernig færu Skagfirðingar að því, ég tek sem dæmi að syngja „Skín við sólu Skagafjörður“ með stífluð Héraðsvötnin, uppfyllt lónin og blámóðu álverksmiðjunnar í sjónlínu við Drangey og Málmey? Sjáið þið þetta fyrir ykkur? Ég held að enginn Skagfirðingur vildi að þetta væri sú sýn sem við blasti þegar þeir kæmu á Vatnsskarðið. Ég skora því á hæstv. ráðherra ferðamála að berjast fyrir þeim sjónarmiðum sem ferðaþjónustan byggir á.

Ég minni á að þetta fer saman við þær áherslur sem fram komu á aðalfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvest. nú nýverið. En þeir leggja til, með leyfi forseta:

„að hafin verði stórsókn í uppbyggingu í kjördæminu sem sérstöku ferðaþjónustusvæði. Gerð verði sérstök áætlun til næstu fimm ára sem hafi það að markmiði að treysta grunnstoðir ferðaþjónustunnar á svæðinu. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem vex hvað hraðast og skilar mestri árlegri aukningu í nettógjaldeyristekjum til þjóðarbúsins. Ferðaþjónustan er orðin ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar og skilar 40–50 millj. kr. í gjaldeyristekjur á ári og gert er ráð fyrir þreföldun ferðamanna til landsins á næstu árum. Styrking ferðaþjónustunnar er eitt nærtækasta verkefnið til að auka fjölbreytta atvinnu á svæðinu sem heild og til þess að svo megi vera þarf að styrkja grunnstoðir og markaðsstarfið en þar vantar fjármagn.“

Í ályktun Vinstri grænna í Norðvest. eru jafnframt raktir hinir miklu möguleikar í náttúruarfi, menningu og sögu. Nefna má jökulvötnin í Skagafirði með heimsfrægum fljótasiglingum, jöklaferðir, gjöfular veiðiár, eyjar og lífríki Eyjafjarðar, Vestfjarða og þjóðgarða á Snæfellsnesi svo nokkuð sé nefnt. Þetta eru þær áherslur sem ég held að íbúar vítt og breitt um landið vilji sjá í ferðaþjónustu sinni og fyrir atvinnulíf sitt til framtíðar en ekki stóriðju og álglýju sem hæstv. iðnaðarráðherra gengur nú um og predikar.