Jafnréttismál í landbúnaði

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 13:36:38 (6551)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:36]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr: „Telur ráðuneytið sig geta stutt jafnréttisbaráttu kvenna í landbúnaði? Ef svo er, með hvaða hætti?“

Ég vil í upphafi segja að konur eru máttarstólpar í íslenskum landbúnaði, félagslífi og félagsstarfi sveitanna og verða störf þeirra seint ofmetin. Hins vegar endurspeglast mikilvægi kvenna fyrir atvinnugreinina ekki í stöðu þeirra í félagsstarfi landbúnaðarins. Er það miður og eitthvað sem nauðsynlegt er að bæta úr.

Landbúnaðarráðuneytið hefur stutt dyggilega við bakið á jafnréttisbaráttu kvenna í landbúnaði. Á nýliðnu búnaðarþingi hvatti ég þingið til að vinna að aukinni þátttöku kvenna í félagsmálum bænda. Það þyrfti að breyta þeirri staðreynd að af fulltrúum bænda á búnaðarþingi væru einungis níu konur en 40 karlar. Til að sjónarmið beggja kynja öðlist brautargengi í félagsmálefnum bænda þarf að hvetja konur til virkrar þátttöku í félagsmálum og karlar þurfa auðvitað að hvetja konur og styðja þær til þeirra starfa.

Landbúnaðarráðuneytið hefur stutt Kvenfélagasamband Íslands í fjölþættu starfi þess að jafnréttismálum innan lands sem utan og m.a. styrkt alþjóðlegt starf sambandsins í þágu dreifbýliskvenna. Landbúnaðarráðuneytið hefur jafnframt stutt með mjög virkum hætti við starf Lifandi landbúnaðar sem er grasrótarhreyfing kvenna í íslenskum landbúnaði. Eitt af meginverkefnum grasrótarhreyfingarinnar er félagsleg efling kvenna í bændastétt, að fræða þær, styðja og hvetja til eflingar atvinnu í sveitum. Hef ég átt marga góða fundi með þessari mikilvægu hreyfingu kvenna í íslenskum sveitum.

„Hefur ráðherra hugsað sér að nýta sér þau ráð sem tiltæk eru til að jafna stöðu karla og kvenna í nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins?“

Þegar skipað er í nefndir, ráð og stjórnir er mikilvægt að tryggja að samsetning þeirra endurspegli sem best þá efnahagslegu hagsmuni sem þeim er ætlað að fjalla um. Ráðuneytið hefur ekki í hendi sér hvernig hinir ýmsu aðilar sem tilnefna í nefndir og ráð á þess vegum haga tilnefningum sínum. Tilnefningar frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum í landbúnaði bera því miður þess enn merki að landbúnaður er allnokkurt karlaveldi eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns. Hef ég ekki í hyggju að ráðskast með tilnefningar annarra aðila. Aðilar sem tilnefna í nefndir eru gjarnan minntir á ákvæði 20. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þess efnis að í „nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar“.

Hvað þriðju spurninguna varðar, „Til hvaða ráða hyggst ráðherra grípa til að bæta úr því ófremdarástandi sem nú ríkir í þeim málum innan ráðuneytis hans?“, vil ég segja, hæstv. forseti, að fjöldi kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum landbúnaðarráðuneytisins hefur aukist til muna í ráðherratíð minni. Ekkert ófremdarástand ríkir í jafnréttismálum landbúnaðarráðuneytisins. Samsetning nefnda, ráða og stjórna ræðst ekki af afstöðu minni eingöngu, heldur einnig vali þeirra aðila sem tilnefna einstaklinga til þeirra trúnaðarstarfa sem um er að ræða hverju sinni. Tilnefningar í nefndir, ráð og stjórnir bera þess vissulega merki að félagsleg staða kvenna innan landbúnaðarins er ekki sú sem hún ætti að vera í dag. Þar þarf að bæta úr.

„Hefur landbúnaðarráðherra hugsað sér að framfylgja þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum frá 28. maí 2004? Ef svo er, þá hvernig?“

Já, landbúnaðarráðuneytið hefur unnið að og mun áfram vinna að því að framfylgja þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára sem samþykkt var í maí 2004. Sérstakt verkefni landbúnaðarráðuneytisins sem þar er tilgreint er verkefnið Lifandi landbúnaður – Gullið heima, eins og fyrr hefur verið greint frá.

Ég vil segja að hvað varðar verkefni allra ráðuneyta má tiltaka að ráðuneytið hefur frá samþykkt þingsályktunartillögunnar leitast við að jafna kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum eftir því sem kostur hefur gefist. Jafnréttisfulltrúi starfar innan landbúnaðarráðuneytisins en hann fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði þess og stofnana- og stjórnsýslusviði ráðuneytisins. Landbúnaðarráðuneytið hefur ekki unnið eigin jafnréttisáætlun. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Klukkan hefur truflað mig. Hún hefur gefið rangar vísbendingar um hvað ræðu minni liði þannig að ég vil fá að klára.

Sérstaklega hefur verið leitast við að gæta jafnréttissjónarmiða við ákvörðun launa (Forseti hringir.) og við stöðuveitingar hjá ráðuneytinu. Af tíu háskólamenntuðum sérfræðingum sem ráðnir hafa verið til hinna ýmsu starfa …

(Forseti (SP): Forseti verður að benda hæstv. landbúnaðarráðherra á að hann hefur ákveðinn tíma til umfjöllunar um málið eins og aðrir hv. þingmenn.)

Ég þekki það, hæstv. forseti, en klukkan var að rokka til á milli tveggja, þriggja og fjögurra mínútna.

(Forseti (SP): Ég hygg ...)

Hæstv. forseti. Ég er að ljúka máli mínu.

Frá því að ég tók við störfum hafa átta starfsmenn af tíu háskólamenntuðum sérfræðingum verið konur. Heildarfjöldi starfsmanna ráðuneytisins er nú 22, þar af 14 konur, af 13 starfsmönnum með háskólamenntun eru sjö konur en sex karlar þannig að ég vil segja, hæstv. forseti …

(Forseti (SP): Forseti vekur athygli hæstv. landbúnaðarráðherra á því að hann hefur tækifæri til að koma þessum upplýsingum að seinna í umræðunni.)

Ég þakka fyrir, hæstv. forseti. Mér þótti samt mikilvægt umræðunnar vegna að koma þeim fram í fyrstu ræðu.

(Forseti (SP): Forseti vill af þessu tilefni brýna hv. þingmenn í því að það er ákveðinn tími sem menn hafa til umræðu og biðja þá að virða þau mörk.)

Klukkan verður þá að vera í lagi.