Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

Þriðjudaginn 05. apríl 2005, kl. 17:03:33 (6613)


131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:03]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Herra forseti. Í frumvarpinu er eingöngu lagt til að heimilt verði að styrkja fráveituframkvæmdir sveitarfélaga sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort heldur er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, enda falli þær undir markmið laganna og skilyrði þeirra fyrir styrkveitingu. Síðan er gert ráð fyrir að nánari ákvæði um framkvæmd verði sett í reglugerð. Lög um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum gilda um framkvæmdir sem unnar verða á tímabilinu 1. maí 1995 til 31. desember 2005. Í nýlegu samkomulagi sem gert hefur verið milli ríkis og sveitarfélaga er gert ráð fyrir að stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum verði framlengdur um þrjú ár. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni mun ég leggja fram lagabreytingu um framlengingu laganna á haustþingi. Þetta eru hinar einföldu staðreyndir málsins.

Í umræðunum á Alþingi í dag hafa þingmenn komið mjög víða við. Það hafa verið mjög áhugaverðar umræður, en þær hafa kannski að minnstu leyti snúist um efni þessa einfalda frumvarps sem er til umræðu, vegna þess að hér hafa menn verið að setja málið í miklu víðara samhengi. Þetta frumvarp snýst eingöngu um jafnræði sveitarfélaganna til að njóta styrks, hvort sem um er að ræða einkaframkvæmd eða framkvæmd sem sveitarfélagið annast að öllu leyti sjálft.

Menn hafa að sjálfsögðu eins og ég nefndi verið að setja á grundvallarumræður um fjárhag sveitarfélaga, um ábyrgð þeirra í fjármálum. Þetta eru auðvitað allt saman mjög brennandi og mikilvæg mál. Ég tek undir mikilvægi þess að þar sé farið með fyllstu gát og vandað til verka. Ég veit að við erum öll sammála um það. Mér finnst hins vegar að hér hafi þingmenn farið mjög mikið út fyrir efni frumvarpsins þó að ég skilji ósköp vel að kannski hafi það gefið tilefni til umræðna af þessu tagi sem eru mjög mikilvægar og áhugaverðar í sjálfu sér.

Mér finnst líka og ég verð að segja það að þessi mál snúast ekki síst um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna og að þau hafi svigrúm til að skipa málum sínum með þeim hætti sem þau telja að þjóni best hagsmunum sveitarfélagsins og þar með íbúanna. Þetta er líka grundvallaratriði, að sveitarfélögin hafi það svigrúm sem þau þurfa.

Ég býst við því að við verðum seint sammála um það, a.m.k. sú sem hér stendur og t.d. þingmenn Vinstri grænna, hvort einkarekstur eigi að vera í hinni félagslegu þjónustu eða ekki. Þar er grundvallarágreiningur á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Ég tel það hins vegar algjörlega fráleitt að þetta tiltekna frumvarp hvetji sveitarfélögin til að selja eignir sínar. Ég vara við slíkri túlkun. Ég tel að hún sé alröng. Málið snýst eingöngu um jafnræði sveitarfélaganna til að njóta styrkja frá ríkinu til fráveituframkvæmda.

Hv. umhverfisnefnd fær málið til umfjöllunar. Ég treysti henni afar vel til að skoða alla þætti þess og að það fái farsæla afgreiðslu í þingnefndinni.