Ríkisútvarpið sf.

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 20:35:35 (6949)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:35]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég er í hópi þeirra sem fagna því frumvarpi til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið sem hér er til umfjöllunar. Hafi einhver verið í vafa um mikilvægi þessa frumvarps þá held ég að sá hinn sami hljóti að hafa skipt um skoðun eftir upphlaup síðustu vikna á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Sú uppákoma er reyndar kapítuli út af fyrir sig, sem ég tel verðugt rannsóknarefni fyrir áhugasaman fræðimann. Slík uppákoma yrði óhugsandi í einkafyrirtæki í dag og ólíklegt væri að hún eigi sér stað eftir að það frumvarp sem um Ríkisútvarpið sem við ræðum nú verður að lögum.

Þótt fréttastjóramálið sé ótengt því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar þá get ég ekki á mér setið að gera alvarlegar athugasemdir við framkomu starfsmanna Ríkisútvarpsins gagnvart þeim fréttastjóra sem ráðinn var til starfa með lögmætum hætti. Hún einkenndist af eindæma dónaskap og virðingarleysi sem viðkomandi hafði engin tök á að verjast. Það var setið um manninn þegar hann mætti til starfa. Hann var miskunnarlaust leiddur til slátrunar. Það var óhikað reitt til höggs við aðstæður sem engri manneskju er hægt að bjóða upp á. Hver og einn getur sett sig í spor hins nýja fréttastjóra, að hafa bognað undan því ógnaráreiti sem hann varð fyrir.

Hversu ósáttur sem starfsmaður er með lögmætar ákvarðanir yfirmanna og hversu ósáttur sem maður er með þá stöðu sem viðkomandi er í er með engum hætti hægt að réttlæta framferði starfsmanna gagnvart þessum manni. Nú þegar hægst hefur um tel ég að starfsmenn, jafnt sem yfirmenn stofnunarinnar, yrðu menn að meiri að biðja Auðun Georg Ólafsson afsökunar á framkomu sinni. Hann hafði ekkert til saka unnið. Hann þáði starf sem hann sótti um og hafði löngun og vilja til að sýna að hann stæði undir ábyrgðinni.

Virðulegi forseti. Með samþykkt þess frumvarps, sem hér er til umfjöllunar, breytist starfsumhverfi Ríkisútvarpsins verulega. Mig langar í nokkrum orðum að fjalla um þau atriði sem mér finnst mestu skipta máli.

Margt þarf að færa til betri vegar í rekstri og starfsumhverfi RÚV. Það er t.d. með öllu óviðunandi að rekstur stofnunar eins og RÚV haldist ekki innan þess fjárhagsramma sem starfseminni er settur. Starfsemin er algerlega fyrirsjáanleg og það er ekki svo að hún sé háð einhverjum utanaðkomandi eða ófyrirsjáanlegum aðstæðum sem réttlæta hallarekstur stofnunarinnar. Til samanburðar vil ég nefna sjúkrastofnanir sem hafa ekki sömu stjórn og hafa enga möguleika á að hafa sömu stjórn á starfsemi og t.d. Ríkisútvarpið.

Með nýjum lögum er útvarpsráð lagt niður og við tekur stjórn fyrirtækisins sem ber fyrst og fremst ábyrgð á rekstrarlegum þáttum. Henni ber að tryggja að rekstur RÚV verði í samræmi við tekjur sem fyrirtækið fær gegnum nefskattinn, svo og að ákvarða hvernig sértekna verði aflað. Hér eftir verður óhugsandi annað en að starfsemin taki mið af tekjum fyrirtækisins og hún sníði sér stakk eftir vexti. Eftir samþykkt frumvarpsins verður ekki leitað í ríkissjóð til að fjármagna taprekstur RÚV.

Það er mikil framför að með nýjum lögum opnist tækifæri til að breyta stjórnskipulagi RÚV en í dag er það ákvarðað með lögum. Núverandi stjórnskipulag er óskiljanlegt og valdsvið yfirmanna ekki í samræmi við hugmyndir um nútímastjórnunarhætti. Þannig hafa t.d. framkvæmdastjórar sjónvarpsins og útvarpsins í dag ekki fjármálavald, sem er mjög sérkennilegt. Með breyttum lögum hefur útvarpsstjóri hins vegar fullt vald til að breyta stjórnskipulagi stofnunarinnar svo það þjóni hagsmunum starfseminnar á hverjum tíma. Um leið ber hann fulla ábyrgð á ráðningum í lykilstöður og ákvarðar hvernig ráðningum skuli hagað í aðrar stöður innan fyrirtækisins.

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég vil gera athugasemdir við við 1. umr. um málið.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins og lögð áhersla á að það sé útvarp í almannaþjónustu. Ég get tekið undir það sjónarmið, að réttlætanlegt sé að stjórnvöld standi fyrir útvarps- og sjónvarpsrekstri og ég tel að fólk sé almennt þeirrar skoðunar. Útvarp í almannaþágu er skilgreint með ákveðnum hætti í frumvarpinu og á það sérstaklega að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, eins og segir í 1. tölulið 3. gr. frumvarpsins.

Á hinn bóginn tel ég allt of langt gengið með þeim ákvæðum frumvarpsins sem heimila RÚV að stofna fyrirtæki eða gerast eignaraðili að öðrum fyrirtækjum eins og ákvæði II. og III. kafla frumvarpsins mæla fyrir um. Með því er fyrirtækið komið langt út fyrir almannahlutverk sitt og skekkir verulega stöðu sjálfstæðra fyrirtækja á sambærilegum eða tengdum markaði. Þessu er ég alfarið á móti. Slíkt er til þess fallið að veita Ríkisútvarpinu blessun til að útvíkka starfsemi sína og þrengja um leið að starfsemi sjálfstæðra aðila. Við megum ekki gleyma því að þótt rekstrarfyrirkomulagi sé breytt verður RÚV eftir sem áður fyrirtæki í eigu ríkisins.

Í mínum huga er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda að stuðla að heilbrigðu atvinnulífi. Stjórnvöld gegna þessu hlutverki best með því að setja sanngjarnar reglur sem hvetja fólk, en letja ekki, til að stofna og reka fyrirtæki þar sem þekking þeirra, reynsla og sköpunargleði fær notið sín. Stjórnvöld eiga að forðast að setja reglur sem virka hamlandi á slíkt frumkvöðlastarf og eiga að sjá til þess að starfsemi á vegum ríkisins þrengi ekki að starfsemi sjálfstæðra fyrirtækja.

Í stað þess að stofna fyrirtæki eða fjárfesta í þeim á RÚV, eins og önnur ríkisfyrirtæki, þvert á móti að útvista eins mörg af verkefnum sínum hjá sjálfstæðum aðilum og nokkur er kostur í þeim tilgangi að auka fjölbreytni, t.d. í dagskrárgerð, til að fá samanburð milli aðila og til að auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins. Jafnframt er slík nálgun til þess fallin að gera sterkari grundvöll fyrir starfsemi og samkeppni fyrirtækja í rekstri sem tengist starfsemi RÚV. Slík nálgun er þjóðhagslega hagkvæm og mun heilbrigðari en að RÚV fjárfesti í sumum fyrirtækjum á markaði en ekki öðrum, eða að stofna fyrirtæki í beinni samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði. Ríkisútvarpið gæti komist í þá stöðu til að ráða hvaða fyrirtæki lifi og hvaða ekki og minnka þar með fjölbreytni á markaðnum. Ég hvet hv. menntamálanefnd til að skoða þessi ákvæði í frumvarpinu og þrengja verulega eða taka út heimildir Ríkisútvarpsins til að stofna fyrirtæki í tengdum rekstri eða kaupa sig inn í slík fyrirtæki.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna nokkur atriði til viðbótar varðandi frumvarpið.

Ég tel að mun fastar eigi að kveða á um textun efnis í sjónvarpi. Í 9. tölulið 3. gr. segir, með leyfi forseta, að Ríkisútvarpinu beri:

„Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa.“

Hér er m.a. átt við heyrnarskerta eða heyrnarlausa einstaklinga, svo og þá sem ekki eiga íslensku að móðurmáli en búa hér á landi. Textun efnis í sjónvarpi er ein besta leiðin til að mæta þörfum þessara einstaklinga og gera þá að virkari þátttakendum í íslensku þjóðfélagi. Það á ekki síst við um útlendinga sem vilja læra íslensku og laga sig að samfélagi okkar. Ég legg því til að fastar verði kveðið að um textun sjónvarpsefnis í frumvarpstextanum, ekki síst með hliðsjón af almannahlutverki þess og eflingu íslenskrar tungu.

Í 2. tölulið 11. gr. frumvarpsins er opnað á að RÚV geti notað netmiðla sína til að afla auglýsingatekna. Það er reyndar með hálfum huga að ég samþykki að RÚV sé á auglýsingamarkaði, þegar fyrirtækið hefur úr 2,5 milljörðum kr. úr að spila á hverju ári til að rækja hlutverk sitt, þótt ég skilji reyndar rökin þar á bak við. Mér finnst hins vegar of langt gengið, að RÚV fari einnig inn á auglýsingamarkaðinn á netmiðlum og lýsi mig andvíga slíku ákvæði. Ég tel nóg að gert og tel að auglýsingatekjur RÚV eigi að bindast við auglýsingar í sjónvarpi og útvarpi.

Að lokum, herra forseti, vil ég óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með frumvarpið sem hún hefur nú lagt fram. Ég vænti þess að það verði afgreitt áður en þingi verður slitið í vor.