Ríkisútvarpið sf.

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 20:45:17 (6950)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:45]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir innlegg hennar. Mér fannst athyglisvert það sem hún hafði að segja um fjármálastjórn Ríkisútvarpsins árum saman verandi í fjárlaganefnd og hafandi fylgst nokkuð með því og vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að grípa hefði átt til sérstakra aðgerða gagnvart Ríkisútvarpinu fyrr eða hvort þvílíkur hallarekstur eigi almennt að haldast uppi og hvort forstöðumenn ríkisstofnana, í þessu tilfelli útvarpsstjóri, eigi ekki að bera nokkra ábyrgð þarna.

Sömuleiðis vil ég spyrja hv. þingmann hvernig hún dragi þá ályktun að taprekstur Ríkisútvarpsins á komandi árum í sameignarfélaginu verði ríkissjóði óviðkomandi.

Ég vek athygli á því að sameignarfélag er félag með ótakmarkaðri ábyrgð eigenda. Ríkissjóður verður þess vegna eftir sem áður fullkomlega ábyrgur fyrir öllum taprekstri sem verður á hinu nýja félagi. Ég sé ekki, og bið hv. þingmann að benda mér á ef mér hefur yfirsést eitthvað, að Ríkisútvarpið muni hafa úr neinu meiru að spila ef frumvarpið verður samþykkt. Þvert á móti, ef það sleppur við að borga í Sinfóníuna þarf það að borga í lífeyrisskuldbindinguna. Þarna er verið að leggja af stað með sameignarfélag með nánast ekkert eigið fé. Það er því vandséð með hvaða hætti tekið hefur verið á hinum viðvarandi rekstrarvanda.

Hv. þingmaður getur kannski upplýst hvort tveggja, hvort hún telji fjármálaumsýsluna hafa verið óviðunandi og hvort einhver ætti að sæta ábyrgð fyrir það á síðustu árum og sömuleiðis hvernig ríkissjóður á að geta skotið sér undan þeirri ábyrgð sem eigendur bera á sameignarfélaginu.