Ríkisútvarpið sf.

Mánudaginn 11. apríl 2005, kl. 22:50:46 (6993)


131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:50]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, ég get í sjálfu sér alveg tekið undir það með hv. þingmanni, eins og ég sagði áður, að það megi skoða forgangsröðun verkefna innan þessarar stóru stofnunar. Auðvitað fara verulega miklir fjármunir á ári hverju til reksturs Ríkisútvarpsins og ég er alveg sannfærð um að draga megi saman í yfirstjórninni, fækka millistjórnendum og stýra þessu fjármagni með einhverjum öðrum hætti.

En ég verð bara að benda á það að stofnunin hefur verið í verulega mikilli kreppu, m.a. hefur verið ákveðin kreppa á milli yfirstjórnar og þeirra sem vinna á gólfinu, ef svo má að orði komast. Það er auðvitað spenna sem kristallaðist í fréttastjóramálinu margumtalaða. Eitt af því sem þarf að gera er að skoða þessa yfirstjórn en hún helst í hendur við það hvernig útvarpsráð hefur verið skipað og hvernig pólitískum völdum hefur verið beitt í gegnum það. Æðstu yfirmenn stofnunarinnar sitja í skjóli menntamálaráðherra og þannig með bein tengsl inn í meirihlutavaldið hér á Alþingi. Það er eitt af því sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum viljað endurskoða.

Varðandi síðan samkeppnisstöðu annarra fjölmiðla á markaði vil ég bara segja það, herra forseti, að ég er ekki jafntrúuð á samkeppnisvæðingu og margir aðrir þingmenn hér inni. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum ákveðnum skyldum að gegna gagnvart menningararfi okkar með þennan sérstaka menningarheim hér í þessu stóra landi, þessi litla þjóð. Við getum aldrei verið viss um að einkaaðilar komi til með að framleiða þann menningararf sem við getum verið nokkuð viss um að Ríkisútvarpið framleiðir, a.m.k. að því marki sem það hefur burði til. (Gripið fram í: … leikarar?)