131. löggjafarþing — 107. fundur,  12. apr. 2005.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

644. mál
[00:00]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarp þetta. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að mikilvægt er að málið fái ítarlega skoðun í menntamálanefnd. Ég vísa í ágæta grein eftir Jón Þórarinsson, fyrrverandi dagskrárstjóra sjónvarpsins, í Morgunblaðinu nýlega (Gripið fram í: Tónlistarráðunaut.) tónlistarráðunaut Ríkisútvarpsins og jafnframt dagskrárstjóra í sjónvarpinu um langt árabil. Þar rifjar hann upp sögu þessara tengsla og segir m.a., með leyfi forseta:

„Það var tónlistardeild Ríkisútvarpsins sem hafði forgöngu um að hrinda Sinfóníuhljómsveitinni af stokkunum 1950 að sjálfsögðu með samþykki yfirstjórnar stofnunarinnar. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að efla og bæta íslenskan tónlistarflutning útvarpsins. Því markmiði var náð, m.a. með tilstyrk ríkis og Reykjavíkurborgar sem veittur var þegar á fyrstu árunum, og í kaupbæti kom svo opinbert tónleikahald sem brátt varð veigamikill þáttur í tónlistarlífinu.“

Áfram segir Jón Þórarinsson í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein, með leyfi forseta:

„Hér verður ekki rakin uppvaxtarsaga hljómsveitarinnar, en aðeins minnt á það, að þegar sjálfstæð starfsemi hennar komst í þrot 1961 sá Ríkisútvarpið sér hag í að taka við rekstrinum með þeim styrkjum frá ríki og borg sem þá voru.“

Síðan vitnar Jón Þórarinsson í samning um þjónustu við Ríkisútvarpið þar sem m.a. er kveðið á um:

„1. Heimild til að útvarpa beint, eða síðar af upptökum, öllum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar og öðrum tónleikum á hennar vegum. Innifalin er þátttaka stjórnenda og einleikara/söngvara.

2. Heimild til að sjónvarpa tónleikum eða taka þá upp fyrir sjónvarpið til flutnings án endurgjalds.“

Hann tilgreinir fleiri liði og harmar undir lok greinarinnar að Ríkisútvarpið skuli ekki hafa nýtt sér ákvæði samningsins sem skyldi.

Ég hefði nú haldið að við ættum að beina sjónum okkar fremur að þessu. Ég vil taka undir gagnrýni sem fram hefur komið á Ríkisútvarpið, sérstaklega sjónvarpið, um að það hafi ekki sinnt nægilega vel íslensku menningarefni. Ég vil gjarnan setja þessa ádrepu Jóns Þórarinssonar inn í þá púllíu. Ég tel að við eigum fremur að beina sjónum okkar að þessu.

Ég er ekki viss um að þetta sé til góðs. Það væri fróðlegt að menntamálanefnd kynnti sér hvað væri að gerast í þessum efnum, t.d. á Norðurlöndum. Ég hef trú á því að menn séu að styrkja tengsl við listamenn en ekki skera á tengslin eins og hér er lagt til.

Það er síðan augljóst mál að Ríkisútvarpið, ef það heldur vel á sínum málum og sinnir menningarlegum skyldum sínum, mun væntanlega þurfa að kaupa þetta efni. Þar með eru 118 milljónirnar sem sparast fyrir Ríkisútvarpið orðnar eitthvað færri. En mín skoðun er sú að það eigi að skoða þetta heildstætt. Í stað þess að draga úr skyldum Ríkisútvarpsins á að auka og efla skyldurnar og sjá til þess að stofnunin rísi undir þeim kvöðum sem á hana eru lagðar hvað þetta snertir.