Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008

Þriðjudaginn 12. apríl 2005, kl. 14:27:10 (7048)


131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:27]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki verið að taka Vatnsmýrina úr notkun sem byggingarsvæði. Eins og þingmenn þekkja þá er flugvöllurinn þar og það var tekin ákvörðun á Alþingi á sínum tíma um endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Það var gert með atkvæðum allra þingmanna sem voru viðstaddir þegar samgönguáætlunin var afgreidd. Framkvæmdir hófust með sérstöku samkomulagi við borgarstjórann í Reykjavík og borgaryfirvöldin í Reykjavík veittu byggingarleyfi og fullt samþykki fyrir því að endurbyggja flugvöllinn.

Það er síðan í samræmi við það og aðra vinnu sem við borgarstjóri komumst að samkomulagi um að láta gera úttekt á gerð samgöngumiðstöðvar við flugvöllinn og til þess er verið að vitna og það er í fullu samkomulagi við borgaryfirvöld að verið er að undirbúa það að reisa samgöngumiðstöð (Forseti hringir.) sem þjóni flugvellinum og öllum almenningssamgöngum í landinu.