Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 10:31:44 (7342)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:31]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mönnum á að vera það í sæmilega fersku minni að faglegt yfirvald umhverfismála í landinu, Skipulagsstofnun, hafnaði Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma vegna mikilla neikvæðra og óafturkræfra umhverfisáhrifa. Ríkisstjórnin beitti pólitísku valdi gegnum þáverandi umhverfisráðherra og sneri niðurstöðunni við. Kárahnjúkavirkjun er ekki bara stærsta einstaka framkvæmd Íslandssögunnar, hún er líka einhver mesta pólitíska handaflsaðgerð og mestu ríkisafskipti sem um getur í atvinnusögu landsins. Undirbúningur verksins var knúinn áfram og fjármagnaður af ríkisstjórn, beitt var pólitísku handafli til að leyfa framkvæmd sem fagleg umhverfisyfirvöld höfnuðu. Virkjunin er byggð af opinberu fyrirtæki, og sérstök ríkisábyrgð og eigendaábyrgð opinberra aðila er á fjárfestingunni. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er því algjör á umhverfisspjöllunum, á hinum neikvæðu efnahagsáhrifum sem nú leika hagkerfið grátt og á því sem er að koma í ljós um óvönduð vinnubrögð við undirbúning framkvæmdarinnar.

Í matsskýrslunni um umhverfisáhrif frá því í maí 2001 stendur m.a. eftirfarandi um jarðfræðirannsóknir og aðstæður fyrir undirstöðu stíflunnar eða stíflnanna, með leyfi forseta:

„Jarðfræðirannsóknir skipa jafnan veglegan sess við undirbúning vatnsaflsvirkjana. Mikið er í húfi því grundvöllur framkvæmdarinnar byggist í mörgu tilliti á jarðfræðilegum aðstæðum. Slíkar rannsóknir á virkjanasvæðinu norðan Vatnajökuls hófust fyrir um 30 árum og telja verður að svæðið sé vel rannsakað og kortlagt.“

Síðan segir um fyrirhugaðar stíflur við Kárahnjúka og undirstöðu þeirra:

„Að mati tæknimanna hentar bergið á stíflustæðunum vel sem grunnur fyrir þær.“

Annað hefur heldur betur komið á daginn. Þessi orð eru hrein öfugmæli. Gögn sem lágu til grundvallar umhverfismati hafa í veigamiklum atriðum reynst röng eða rangtúlkuð. Iðnaðarráðherra lagði frumvarpið um Kárahnjúkavirkjun fyrir þingið og því var troðið í gegn á röngum forsendum. Menn hafa þegar ratað í mikla erfiðleika í upphafi framkvæmdanna, einkum við gerð undirstöðunnar undir stífluna miklu efst í gljúfrunum. Um 8–10 m dýpra reyndist á fast í gljúfurbotninum. Undirstaðan er mun sprungnari, og virkni þar meiri en gert var ráð fyrir. Þetta hefur tafið verkið um mánuði og valdið milljarða viðbótarkostnaði.

Langalvarlegast er þó að áhættan sem tekin er, eða verður ef haldið verður áfram, er til mikilla muna meiri en látið var í veðri vaka þegar verkinu var þröngvað af stað. Höfðu menn þó fyrir sér varnaðarorð manna eins og Guðmundar heitins Sigvaldasonar, Gríms Björnssonar og fleiri jarðvísindamanna. Er kapítuli út af fyrir sig hvernig reynt var að þagga slíkt niður og gera ekkert með, eins og lesa má um í Morgunblaðinu í dag. Það hefur gætt ískyggilegrar tilhneigingar til skoðanakúgunar og til að tortryggja alla þá, þar með talið jafnvel virtustu, vísindamenn sem ekki makka rétt með stóriðjurétttrúnaðarstefnunni. Ef því er svo fylgt eftir með einhvers konar „Berufsverbot“ er ekki von á góðu í okkar litla landi. (Iðnrrh.: Nýyrði?) Um þessar nýju aðstæður og aukna vá sem … Nei, hæstv. iðnaðarráðherra er greinilega ekki vel að sér í sögu aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku úr því að hún kannast ekki við orðið Berufsverbot. Þessar nýju aðstæður og aukna vá sem fylgir byggingu Kárahnjúkastíflu hafa nú loksins komist til skoðunar og hefur sérfræðingahópur undir forustu Freysteins Sigmundssonar m.a. nýlega skilað frá sér niðurstöðum í skýrslu um það efni. Þar kemur fram að a.m.k. af þrem mismunandi ástæðum geta jarðfræðilega varhugaverðar aðstæður skapast við Kárahnjúkastíflu og hreyfing orðið á svæðinu sem skapi hættu á leka og jafnvel stíflurofi. Þetta er einfaldlega vegna þrýstings þegar lónið sjálft verður fyllt, þetta getur gerst vegna jarðskjálfta bæði nær og fjær og þetta getur gerst ef eldvirkni tekur sig upp á nálægum svæðum. Af þessum ástæðum hef ég leyft mér að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra eftirtalinna spurninga en auðvitað verður þetta mál hvorki tæmt né fullrætt hér:

1. Telur ráðherra að fyrirtækinu Landsvirkjun sé treystandi til að halda þessu verki áfram í ljósi þess sem komið hefur fram um óvandaðan undirbúning framkvæmdarinnar?

2. Kemur til álita að mati ráðherra að hætta við gerð Kárahnjúkastíflu og myndun Hálslóns eða a.m.k. endurskoða umfang og hönnun framkvæmdanna?

3. Mun ríkisstjórnin sjá til þess að gert verði vandað og trúverðugt áhættumat?

4. Hefur lánveitendum verið gerð grein fyrir breyttri stöðu og aukinni áhættu? (Forseti hringir.)

5. Telur ráðherra ekki ástæðu til að fram fari opinber rannsókn á máli þessu öllu?