Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 10:42:18 (7344)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:42]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. „Après nous, le déluge“ sagði frægur kóngur í Frakklandi. Eftir okkar dag kemur syndaflóðið, og sá virtist líka vera boðskapur hæstv. ráðherra í ræðu sinni áðan. Það er hins vegar þannig að Guðmundur Sigvaldason jarðfræðingur, Ásta Þorleifsdóttir jarðverkfræðingur og Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur bentu öll á sínum tíma á þá hættu sem gæti falist í stæði stíflu og lóns við Kárahnjúka. En þá var búið að taka ákvörðunina. Ákvörðun var tekin fyrst, síðan var spurt. Fyrst ákvörðun, svo rannsóknir. Ég held að Kárahnjúkavirkjunar verði í framtíðinni minnst fyrir margt, vonandi fyrir það að hún hafi fært Austfirðingum og Íslendingum auð og aukinn kraft í byggðarlagið eystra, einnig fyrir það að þar eru mikil umhverfisspjöll á ferðinni.

Nú bætist það við og hefur raunar lengi verið sýnt að Kárahnjúkavirkjunar verður minnst sem dæmis um það hvernig ekki eigi að taka ákvörðun í mikilsverðum og merkilegum málum.

Forseti. Fyrir þessu þingi, eins og hinu síðasta, liggur frumvarp þar sem endurskoðuð eru lög um umhverfismat. Ég hygg að við það mikla verk sem felst í því að færa þessi lög til betri vegar verði að fara sérstaklega í gegnum þennan feril sem nú liggur fyrir, gegnum það hvaða mark var tekið á ábendingum þessara þriggja jarðvísindamanna, hver þáttur Orkustofnunar í því var, hvernig Landsvirkjun brást við og hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll hegðaði sér í þessu máli. Við verðum að búa svo um hnútana að í framtíðinni verði miklar ákvarðanir teknar þannig að menn spyrji áður en þeir skjóta.