Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 10:46:41 (7346)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat.

[10:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Samkvæmt nýlegum fréttum eru verkfræðiráðgjafar að endurmeta hönnunarforsendur stíflumannvirkja að Kárahnjúkum og það er gert í ljósi glænýrra rannsókna. Sem betur fer hefur verið boðað að þetta muni ekki hafa afdrifaríkar afleiðingar hvað varðar kostnað við mannvirkjagerðina, enda má kostnaðurinn ekki fara úr böndunum. Öllum má vera ljóst að þessi virkjun er á mörkum þess að bera sig, virkjun sem kostar um 100 milljarða og tekjurnar árlega verða um 5 milljarðar kr. Þetta er algjörlega á mörkunum að beri sig og þess vegna er mjög nauðsynlegt að umræddur kostnaður fari ekki úr böndunum vegna endurhönnunar.

Þessi kostnaður er mjög sérstæður samanborið við kostnað annarrar virkjunar sem er verið að reisa. Í ágætri heimsókn hjá Orkuveitu Reykjavíkur var okkur kynnt að verið væri að reisa virkjun sem kostaði 12 milljarða að reisa og tekjurnar af henni verða 3 milljarðar árlega. Þetta er mjög sérstakt.

Í þessu máli gefur augaleið að hæstv. iðnaðarráðherra verður að bæta alla upplýsingagjöf um kostnað og um gang mála þarna fyrir austan. Ég spurði hæstv. ráðherra á dögunum, í lok janúar, nokkurra spurninga, m.a.: Hafa verið gerðar aukalega rannsóknir á jarðfræði Kárahnjúkasvæðisins og hafa þær leitt eitthvað nýtt í ljós? Hafa stíflumannvirki verið endurhönnuð og ef svo er, hver var kostnaðurinn við það?

Hæstv. ráðherra sá enga ástæðu til að svara þessu, og það er með ólíkindum.

Ég vil beina þeim orðum til hæstv. forseta þingsins, sem hefur verið duglegur að vanda um við hv. þingmenn, að þeir gæti orða sinna og eitt og annað, að hann fari yfir svör hæstv. iðnaðarráðherra, hversu rýr þau eru, og vandi um við hæstv. ráðherra, að hún geri betur næst, veiti þjóðinni og okkur sem störfum hér sem fulltrúar hennar upplýsingar um gang stærstu framkvæmda Íslandssögunnar.

(Forseti (HBl): Mér er ljúft að lesa ræður iðnaðarráðherra.)