Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 14. apríl 2005, kl. 12:14:53 (7377)


131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Álbræðsla á Grundartanga.

707. mál
[12:14]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að ég líti á mig sem þingmann Akraness og næsta svæðis. Þau tólf ár sem ég var á þingi sem þingmaður Vesturlands tel ég að ég hafi litið á mig sem þingmann alls kjördæmisins og reyndar alls landsins, þannig að mér finnst þetta ekki alveg sanngjörn gagnrýni.

Ég skammast mín hins vegar ekkert fyrir að gæta hagsmuna Akraness og nágrennis, bara alls ekki, og mér finnst ekki vanþörf á á hinu háa Alþingi. Ekki gerir hv. þm. Jón Bjarnason það, þingmaður Norðvesturkjördæmis. Hann talar beint gegn hagsmunum svæðisins þannig að ég held að hann ætti að fara varlega í að ræða um hagsmunagæslu. Það er engin vanþörf á að gæta hagsmuna svæðisins.

Allt tal um að verið sé að skera niður vegaframkvæmdir á Vestfjörðum út af stækkun álversins í Hvalfirði er ekki svaravert. Og að segja að það sé ekki þjóðhagslegur ábati af stóriðju er náttúrlega út í hött. Ég bið hv. þingmann, af því að hann hefur verið að ásaka hæstv. iðnaðarráðherra og formann iðnaðarnefndar um þekkingarleysi, að kynna sér hverjar gjaldeyris- og útflutningstekjur eru af stóriðjunni á Íslandi áður en hann heldur fram svona rugli.