Fjarskipti

Þriðjudaginn 19. apríl 2005, kl. 15:08:12 (7565)


131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:08]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að gefnu tilefni vil ég undirstrika alveg sérstaklega að allt sem snýr að hlerun eða upplýsingagjöf um fjarskiptanotkun verður að sjálfsögðu að vera í miklu lágmarki og ekki framkvæmt nema mjög brýn ástæða þyki fyrir hlerun. Út á það gengur þetta allt saman.

Ég endurtek það sem ég kom að fyrr, það er ekki gengið til þess að hlera símtöl nema að undangengnum dómsúrskurði. Það er vegna gruns um refsiverða háttsemi með hjálp fjarskiptanna. Ég tel afar mikilvægt að gæta hófs í þessu öllu saman og ég treysti að sjálfsögðu dómstólum til að meðhöndla þau mál þannig að alls hófs sé gætt. Fjarskiptalöggjöfin þarf hins vegar að tryggja eðlilegan aðgang að þessu. Það er það sem verið er að gera með þeim breytingum á fjarskiptalögunum sem ég hef mælt fyrir.