Fjarskipti

Þriðjudaginn 19. apríl 2005, kl. 17:43:22 (7592)


131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:43]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins gera röksemdafærslu hæstv. ráðherra fyrir nauðsyn þess að beita hlerunum og gagnasöfnun að umtalsefni.

Það er fjarri því að ætla mér eða öðrum að við viljum fara að skapa gróðrarstíu fyrir óleyfilega starfsemi í gegnum netið eða gegnum fjarskiptin, fjarri því, og að ekki sé full ástæða til að beita tiltækum ráðum eftir því sem hægt er til þess að komast að sakhæfu athæfi. Ég hefði þó í þessu sambandi viljað leggja enn meiri áherslu á hina samfélagslegu ábyrgð, uppeldi, samfélagslegt velferðarkerfi sem styrki innviði samfélagsins og geri þeim þannig siðferðislega kleift að standa gegn því mikla áreiti sem öll nútímasamfélög verða fyrir. Það held ég að sé meginmálið, að styrkja innviði samfélagsins til þess að takast á við þetta áreiti og lögregluhundar, lögregluvaktir og hleranir leysa það ekki.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Eru margar aðrar þjóðir með hliðstæðar reglur, svo strangar reglur í að taka upp, geyma fjarskiptasamskipti, hvort sem er í gegnum tölvur eða síma og þar sem krafist er persónuupplýsinga til þess að mega kaupa símkort o.s.frv.? (Forseti hringir.) Hvar eru þær hliðstæður?