Sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 20. apríl 2005, kl. 14:07:47 (7659)


131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sveigjanleg starfslok.

691. mál
[14:07]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að svar hæstv. forsætisráðherra olli mér ákveðnum vonbrigðum því ég tel að þetta mál hafi verið nokkuð vel unnið og ígrundað að höfðu samráði við marga hópa í atvinnulífinu, bæði atvinnurekendur og fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Ég tel að full þörf sé á þessu. Eins og hefur komið hér fram hjá hv. þingmönnum þá er það ákveðinn valkostur að geta átt lengri starfsævidag ef fólk vill. Í sumum kjarasamningum og lögum um opinbera starfsmenn er svo kveðið á um að menn skuli hætta við ákveðinn aldur án tillits til heilsufars eða óska þeirra sjálfra.

Ég tel því í ljósi atvinnumarkaðarins á Íslandi líka og þarfarinnar fyrir mannafl oft og tíðum, t.d. um þessar mundir, að full ástæða sé til þess að fleiri aldraðir fái að taka þátt í atvinnulífinu ef heilsa og geta leyfir og auðvitað þá að þeirra eigin ósk.

Engu að síður þakka ég hæstv. forsætisráðherra þetta svar. Ég veit þá hvernig staða málsins er en vænti þess að innan ekki langs tíma verði þessi afstaða forsætisráðherra og ráðuneytisins endurskoðuð miðað við þær staðreyndir sem blasa við varðandi stöðu aldraðra í ljósi betri heilsu og óska þeirra sjálfra um lengri starfsdag.