Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings

Miðvikudaginn 20. apríl 2005, kl. 14:15:01 (7662)


131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Sala á hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. til almennings.

771. mál
[14:15]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu sem annast undirbúning og framkvæmd sölu á hlutabréfum í Landssíma Íslands hefur í samráði við ráðgjafa nefndarinnar, Morgan Stanley í London, lagt til að fyrirtækið verði selt í heilu lagi. Ákveðin skilyrði eru sett sölunni, m.a. þau að um hóp kjölfestufjárfesta verði að ræða og ekki minna en 30% heildarhlutafjár verði boðið almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007 og félagið samhliða skráð í Kauphöll Íslands. Þannig er aðkoma almennings við kaup á Símanum tryggð. Þá má ekki gleyma að haustið 2001 var 24% hlutafjár boðið almenningi og minni fjárfestum til kaups. Eins og við munum gekk salan ekki sem skyldi og aðeins 2.588 aðilar skráðu sig fyrir um 5% hlutafjár, enn þá færri eða 2,26% greiddu hlut sinn. Hlutur almennings í Símanum nú er um 1,2% og bak við þann hlut standa rúmlega 1.100 einstaklingar.

Almenningur mun því hafa og hefur haft tækifæri á að eignast hlut í Símanum. Þá gerir fyrirkomulag nú ráð fyrir að hópur einstaklinga geti sameinast um kaup á hlut í fyrirtækinu eins og þróun mála síðustu tveggja vikna sýnir. Ég hef einmitt rætt við forsvarsmenn slíks hóps og fagnað framtaki þeirra sérstaklega. Þá geta fjöldasamtök eins og lífeyrissjóðir auðveldlega tekið þátt í sölunni.

Markmið ríkisins með sölu á hlutabréfum sínum í Símanum er ekki síst af tvennum toga: að sem hæst verð fáist fyrir eignarhlut ríkisins og staða ríkissjóðs verði þannig enn frekar styrkt almenningi til hagsbóta og félagið verði skráð hérlendis og almenningi þannig gefinn á ný kostur á að eignast hlut í fyrirtækinu. Það er mat færustu sérfræðinga að sú sölutilhögun sem ákveðin hefur verið sé best til þess fallin að ná þessum markmiðum. Með sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í heilu lagi er talið að hæst verð náist á hvern hlut. Talið er að það geti numið 20%–25%. Skilyrði um skráningu í kauphöll tryggir svo aðkomu almennings. Viðmiðun tímamarka við ekki síðar en árslok 2007 er talinn hæfilegur tími í því sambandi.

Framkvæmd sölunnar er á forræði framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Söluferlið er hafið. Það verður að vera gegnsætt og trúverðugt og jafnt yfir alla að ganga. Um það hljótum við að vera sammála. Formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu hefur tjáð mér að fyrirkomulag sölunnar hafi verið kynnt og auglýst hérlendis sem og á Evrópska efnahagssvæðinu og að mikill fjöldi aðila, innlendir sem erlendir, hafi þegar óskað eftir útboðsgögnum. Þeir aðilar yfirfara útboðsgögnin vitanlega í samræmi við þær leikreglur sem settar hafa verið.

Að minni beiðni fjallaði framkvæmdanefnd um einkavæðingu um erindi áðurnefnds hóps einstaklinga um framlengingu á fresti til að skila inn óbindandi tilboðum. Þó ekki hafi verið unnt að verða beint við þeirri beiðni ákvað nefndin engu að síður að framlengja frestinn til 17. maí með tilliti til almennra aðstæðna. Gefst því öllum mögulegum bjóðendum rýmri tími til að gaumgæfa gögnin.

Út af skýrslu Morgans Stanleys hef ég óskað eftir því við framkvæmdanefnd um einkavæðingu að fjallað verði um möguleika þess að birta tillögur Morgans Stanleys að sölufyrirkomulagi. Ég legg reyndar áherslu á að tillaga Morgans Stanleys verði birt sem og önnur meginatriði í skýrslu þeirra. Við höfum að sjálfsögðu ekkert að fela í þessu sambandi. Hins vegar inniheldur skýrsla Morgans Stanleys trúnaðarupplýsingar m.a. gagnvart þriðju aðilum, t.d. nöfn áhugasamra aðila og fleira sem vitanlega er ekki hægt að opinbera. Ég hef fullan skilning á þessu og það hljóta hv. alþingismenn sömuleiðis að hafa. Ríkisendurskoðun mun hins vegar nú þegar hafa ótakmarkaðan aðgang að skýrslunni sem og öðrum gögnum málsins eins og fram hefur komið og mun hafa eftirlit með framkvæmd sölunnar á Símanum.