Reiðþjálfun fyrir fötluð börn

Miðvikudaginn 20. apríl 2005, kl. 14:47:54 (7677)


131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Reiðþjálfun fyrir fötluð börn.

757. mál
[14:47]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að bera þetta mál inn á þing. Ég þekki það úr starfi mínu á Hólum að þar vorum við einmitt með námskeið bæði fyrir reiðkennara og einnig starfsmenn sem störfuðu með fötluðu fólki í tengslum við að nýta hross til þess að þjálfa þetta fólk auk þess sem þetta gefur því andlega ánægju. Ég veit ekki annað en þetta starf hafi haldið áfram. En auðvitað er þetta kostnaðarsamt, t.d. þessi sérþjálfun. Fólk er sérþjálfað. Það þarf að hafa góða almenna reiðmennskukunnáttu og kennsluþekkingu á hesti auk þess að vera sérþjálfað og hafa sérþekkingu varðandi fatlað fólk. (Forseti hringir.) Ég tek heils hugar undir þá hvatningu sem hv. þm. Ásta Möller bar hér fram um (Forseti hringir.) þetta mál um að þetta verði opinbert (Forseti hringir.) þjálfunarverkfæri.