Atvinnumál í Mývatnssveit

Miðvikudaginn 20. apríl 2005, kl. 15:00:30 (7682)


131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Atvinnumál í Mývatnssveit.

315. mál
[15:00]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er vissulega erfið staða í sérhverju byggðarlagi þegar svo ber við að fyrirtæki hætta starfsemi af einhverjum ástæðum, hvort sem það er af þeim ástæðum sem reyndin varð í Mývatnssveit eða af öðrum, eins og við þekkjum úr öðrum byggðarlögum. Í sjávarútvegi taka fyrirtæki ákvarðanir um breytingar á starfsemi sinni, flytja atvinnu á milli byggðarlaga í kjölfar eigendabreytinga o.s.frv. Ég tel að mörgu leyti eðlilegt að iðnaðarráðuneytið hlutist til um þessi mál og aðstoði heimamenn við að byggja upp önnur atvinnutækifæri og finna leiðirnar eftir því sem kostur er.

Ég legg hins vegar áherslu á að ráðuneytið geri ekki greinarmun á því af hvaða ástæðum þessi staða kann upp að koma, geri ekki greinarmun eftir atvinnugreinum eða stöðum.