Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Föstudaginn 29. apríl 2005, kl. 15:11:43 (7877)


131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:11]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra skýrsluna sem hann gaf þinginu í dag og tækifærið sem við, hv. þingmenn, höfum til að ræða heilan dag um utanríkismál. Þau samskipti og þau viðskipti sem við eigum í dag eru ekki lengur aðeins innan lands heldur erum við á flestum sviðum tengd þeim málaflokki sem segja má að séu utanríkismál, þ.e. öll samskipti okkar Íslendinga við aðrar þjóðir, það er bæði hvað varðar samningsbundna aðild, t.d. að Norðurlandasamvinnunni, EFTA, EES, Sameinuðu þjóðunum og svo NATO, svo ég nefni hina stærri samninga, svo og aðild okkar að mikilvægum alþjóðasamtökum sem eru hluti af umhverfi okkar eins og kemur fram að hluta til í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra.

Hvað varðar NATO vil ég lýsa því yfir að ég fagna því að mín kynslóð nái hugsanlega að upplifa að herinn á Keflavíkurflugvelli fari alfarið og þótt fyrr hefði verið. Ég hefði viljað sjá það gerast í opnum samningum og tímasettum þannig að allir viti að hverju er gengið, hvenær flugvélar færu o.s.frv. Menn vissu hvenær búast mætti við því að síðasti hermaðurinn yfirgæfi völlinn. Það er mjög mikilvægt. Ég tel það ámælisvert að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa unnið að kröftugri og markvissri uppbyggingu á svæðinu með tilliti til þess að allur þessi fjöldi hermanna, starfsmanna og maka þeirra á hersvæðinu er að hverfa. Það verður að koma eitthvað í þeirra stað eigi ekki að verða atvinnuhrun og erfiðleikar á Suðurnesjum. Það er því fagnaðarefni að svo vel skuli ganga hjá flugfélögum okkar. Ferðalöngum til landsins hefur fjölgað mikið sem hefur sjálfkrafa fjölgað atvinnutækifærum á þessu svæði, en það hefur ekki verið með atbeina ríkisstjórnarinnar eða í tengslum við brottför hersins. Ég tel að þarna þurfi fleira að koma til. Við verðum að læra af reynslunni, að byggja ekki framtíðaruppbyggingu í atvinnumálum á Suðurlandi eingöngu við flugafgreiðsluna, þótt hún sé mun fjölbreyttari en þjónustan við herinn, heldur verði fleiri stoðir settar undir atvinnu á Suðurlandi.

En það er fleira en þessir mikilvægu samningar og samtök sem við erum bundin. Í utanríkismálum verðum við einnig að fylgjast með þróun heimsviðskiptanna, hvernig þau breytast nú mjög hratt og hvernig við þá sem þjóð stillum okkur inn á þá alþjóðavæðingu sem siglir fyrir fullum byr um heiminn og hvort við tökum þessu sem sjálfsögðum hlut, eða allt að því eins og náttúruhamförum, að ekki sé hægt að komast undan alþjóðavæðingunni. Eða sláum við varnagla og vökum fyrir því að undir merkjum alþjóðavæðingarinnar hafa alþjóðleg stórfyrirtæki í dag mjög mikil völd, bæði viðskiptalega og ekki síður að þau hafa getað sett sig niður eftir vild til að nýta ódýran vinnukraft? Þau leita inn á svæði þar sem ríkisstjórnir eru veikar og löggjafinn er veikur, þar sem þau hafa í skjóli stærðarinnar og styrkleika síns getað stundað, mörg hver, mannréttindabrot eins og fyrirtækið Nike, sem framleiðir fótboltaskó, hefur orðið að viðurkenna að hafa gert. Það eru fleiri slík stórfyrirtæki sem framleiða góða og ódýra vöru sem við kaupum inn til landsins en þessu lága verði hafa því miður fylgt ýmsir svartir blettir sem ég tel að við þurfum að vera miklu meira vakandi fyrir en við höfum verið fram til þessa. Þessi fyrirtæki nýta sér veik kjara- og félagsleg réttindi verkafólks á þessum svæðum.

Ég tel að í þessu ljósi verðum við að gæta þess að standa vörð um íslenska framleiðslu og samkeppni íslensks iðnaðar og þá í samkeppni við innflutning á vörum frá láglaunasvæðum. Nú ber á óróleika innan Evrópusambandsins vegna þessa þar sem það er ljóst að iðnaður í mörgum Evrópulöndum er hreinlega að hrynja og brotna niður vegna lágvöruframleiðslu frá þróunarríkjum eða Asíuríkjum og síðasta dæmið er vefnaðarvara sem er hreinlega að hverfa úr framleiðslu í Evrópu. Þetta er nokkuð sem að öllum líkindum er erfitt að varast en við þurfum að vera vakandi yfir og standa þannig að íslensku framleiðslunni að hún geti sem lengst og best staðið í samkeppni í alþjóðavæðingunni sem nýtir sér að hægt er að fá fólk til að vinna fyrir minna en dollar á dag.

Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, sem ég hef hér undir höndum, er víða komið við og erfitt að gera því öllu skil. Með tilliti til þess sem ég var að rekja hér varðandi hin alþjóðlegu stórfyrirtæki vil ég ítreka að við þurfum að standa vörð um sjálfbæra þróun og af því tilefni þarf að líta á sjávarútveginn hér á landi. Ég get ekki tekið undir orð hæstv. utanríkisráðherra þegar hann segir að reistar hafi verið traustar stoðir undir sjávarútveginn. Eins og ástandið er í efnahagsmálum þjóðarinnar í dag eiga mörg fyrirtæki hreinlega í miklum rekstrarerfiðleikum og sum hver eru allt að því á barmi gjaldþrots vegna sterkrar stöðu krónunnar. Þetta er vonandi tímabil sem stendur stutt yfir en við getum greinilega ekki talað um sjálfbæra þróun í sjávarútvegi okkar eins og hann er stundaður í dag.

Það eru tvö atriði sérstaklega sem ég vil nefna, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins og stuðningur okkar við innrásina í Írak. Eins og hér hefur komið fram var ég í því þingmannaliði sem heimsótti Palestínu um páskaleytið. Það var vikuferð og kynnisferð sem hafði djúpstæð áhrif, a.m.k. á mig og ég held á okkur öll. Þegar ég lít til baka tel ég að hvað mest áhrif hafi haft á mig að vera búin að fylgjast með ástandinu inni á þessu svæði í fréttum og af greinaskrifum. Þrátt fyrir að hafa heyrt af ástandinu á þessu svæði hafði ég ekki gert mér grein fyrir því hversu alvarlegt það er. Þá vil ég líta til palestínsku þjóðarinnar, og ég er ekki að gera lítið úr aðstæðum þeirra sem búa í Ísrael því að þar er líka mikil spenna og óróleiki og vanlíðan, en aðstæður palestínsku þjóðarinnar eru algjörlega óviðunandi eins og þær eru í dag.

Að sitja í herteknu landi þar sem fólki er gert ómögulegt að stunda búskap, eiga viðskipti, ferðast á milli, fá nauðsynlega þjónustu öðruvísi en að vera innan afmarkaðra lokaðra svæða eða þurfa að fara yfir vegi sem eru vaktaðir eða komast ekki yfir vegi af því að það er búið að girða þá af til að tryggja öryggi þeirra sem búa á landtökusvæðunum er skelfilegt. Allt þetta gerir fólki, sem óskar þess heitast að lifa eðlilegu lífi, ómögulegt að framfleyta sér, enda er 60–70% atvinnuleysi og hver kynslóðin á fætur annarri vex upp við mikið andlegt og oft og tíðum líkamlegt ofbeldi. Það getur ekki annað en leitt af sér enn meira ofbeldi og þá er ég að hugsa um svæðið í heild því að þetta er púðurtunna sem springur ef friðarferli er ekki sett í gang.

Ég tel að þetta svæði sé í raun og veru lykillinn að heimsfriði. Ef þarna brjótast út meiri átök en verið hafa og friðnum verður ógnað mun það hafa áhrif á öll nærliggjandi ríki.

Í þessu sambandi er vert að geta þess að inni í Jerúsalem er gamla borgin, gamla Jerúsalem, innlimuð borgarmúrunum og innan þessa litla svæðis, borgarmúranna, eiga fulltrúar hinna kristnu kirkjudeilda, múslimar og gyðingar sín svæði. Þetta jafnvægi hefur ríkt í gegnum aldirnar en nú er það að riðlast og ef það gerir það, sem allt bendir til að sé farið af stað, mun ófriðarástand breiðast út um allan heim. Þarna er vagga íslamstrúarinnar og hinnar kristnu trúar og ef hún ruggar mun öll heimsbyggðin rugga.

Sömuleiðis tel ég mikilvægt að við séum mjög gagnrýnin á alla íhlutun í innanríkismál sjálfstæðra ríkja þegar í hlut eiga hvort heldur er alþjóðleg stórfyrirtæki eða afskipti stórveldanna. Þá vil ég nefna sérstaklega Bandaríkin. Helsta hvataþjóð þess að fara með árás inn í Írak var sú bandaríska. Það er ljóst að vinnslan við olíubirgðir heimsins hefur þegar náð hámarki að dómi margra sérfræðinga og það er talið að ekki séu til neinar nýjar verulegar lindir sem hægt er að ganga í. Þetta mun hafa víðtæk áhrif á alla heimsbyggðina, og heimsbyggð án olíuvinnslu mun hafa áhrif á öll samskipti. Olía og drykkjarvatn munu verða rótin að innrásum og stríðsátökum komandi ára. Því er enn mikilvægara að vera vakandi fyrir þeirri ástæðu sem gefin er upp varðandi afskipti af innanríkismálum þjóða sem búa (Forseti hringir.) yfir auðlindum og því nauðsynlegt að stuðla að sjálfbærri þróun um allan heim.