131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[14:51]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Á þingi má aldrei ganga svo mikið á að við getum ekki sent frá okkur skjöl sem eru með réttustu staðreyndunum sem við þekkjum. Ég hélt satt að segja að þegar fyrir lægi að það væri villa í þingskjali mundu þeir sem hefðu með þingskjalið að gera, í þessu tilviki hv. formaður sjávarútvegsnefndar, ganga í að leiðrétta það.

Flumbrugangur í störfum sjávarútvegsnefndar. Hv. þm. Guðjón Hjörleifsson sagði að sjávarútvegsnefnd hefði lokið störfum á þessu þingi. Ég verð að vera honum algjörlega ósammála. Það er rétt sem fram kom hjá honum að það er búið að afgreiða þau mál sem frá ríkisstjórninni komu. Þau hafa gengið fyrir og búið er að afgreiða þau öll út. (Gripið fram í.) En hvað með þingmannamálin sem vísað hefur verið til sjávarútvegsnefndar? Þau hafa ekki einu sinni verið rædd í sjávarútvegsnefnd. Ef svona góður tími er, af hverju förum við þá ekki yfir þingmannamálin og umsagnir ef þær eru komnar og reynum að afgreiða þau út úr nefndinni, ekkert síður en mál ríkisstjórnarinnar?

Það eru fjórir einstaklingar í stjórn sjóðsins, það er rétt hjá hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni. Stjórn sjóðsins getur lagt til að breyta hlutverki hans og hefur auðsjáanlega gert það en eftir að hafa farið í gegnum lögin um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd, farið í gegnum skipulagsskrána fyrir sjóðinn og farið í gegnum þær hugmyndir sem lágu að baki því að taka part af verðmætum síldarútvegsnefndar og stofna þessa tvo sjóði finnst mér að þeir sem hafa með þetta að gera og taka ákvörðunina, sem erum við á Alþingi úr því sem komið er, reyni að virða þann vilja sem kemur fram í þessum stofnskjölum.