131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[17:14]

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir innlegg hans í umræðuna. Við erum hérna að afgreiða þessa breytingu af því að sjávarútvegsráðherra skal annast gerð skipulagsskrár. Það er verið að breyta skipulagi. Það er ósk um breytingar á starfsemi sjóðsins og þeir vilja fá heimild til að styrkja nýsköpun, rannsóknir og fræðslu- og kynningarstarf í sjávarútvegi.

Það er vilji stjórnar sjóðsins sem er kosin af síldarútvegsmönnum. Við erum bara tengd þessu máli út af skipulagsskránni, það er ekkert flóknara. Þess vegna verða þessar breytingar. Mér finnst mjög skrýtið að fulltrúi Frjálslynda flokksins skuli ekki vera ánægður með það að menn skuli ætla að setja peninga í nýsköpun og fræðslustarf.

Varðandi umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins urðu þar mannleg mistök. Það fór í bókun að þetta væru 150 milljónir í eigið fé en eru 88 milljónir. Ársreikningar liggja fyrir hjá sjávarútvegsnefnd þann 31. des. 2004 þannig að þetta eru bara mistök sem hafa verið leiðrétt og kynnt nefndinni. Þetta er ekki aðalmálið.

Svo má ekki gleyma því að þetta er sjálfstæður sjóður. Við getum ekki verið að bera saman AVS-sjóðinn hjá sjávarútvegsráðuneytinu og þennan sjóð sem er í sjálfstæðri eign. Við erum að klára þetta mál af því að verið er að breyta skipulagi hjá sjóðnum.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að ræða um kvótakerfið í andsvari. Það verður seinni tíma mál.