Gæðamat á æðardúni

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 17:42:47 (8187)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[17:42]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Málið sem við ræðum má kalla allsérstakt. Við erum að tala um náttúruafurð þar sem Íslendingar eiga um 80% hlutdeild í heimsmarkaði. Við erum að tala um náttúruafurð sem krefst mjög mikillar vinnu af bóndanum. Ég get lýst því aðeins hvernig sú vinna fer fram, því ég hygg að það séu ekki allt of margir sem gera sér raunverulega grein fyrir hvað það er mikil vinna sem liggur að baki einu kílói af æðardúni, sem er það magn sem notað er í venjulega sæng.

Bóndinn sem hirðir um æðarvarp býr í haginn fyrir æðarkollurnar á hverju vori með því að snyrta í kringum hreiðrin, hirða úr þeim rusl frá árinu áður, sumir búa til húsahreiður, ýmist úr spýtum eða grjóti. Bóndinn flaggar fyrir fuglana sína, því æðarfuglinn er hrifinn af litskrúðugum flöggum og er hrifinn af því að það sjáist ummerki um að maðurinn hirði um hann á þeim svæðum sem hann velur sér til varps. Bóndinn þarf að fylgjast með því hvenær æðarfuglinn kemur inn og sest upp. Það er ekki alltaf á sama tíma, það fer eftir því hvernig átan er í sjónum hvenær fuglinn sest upp.

Fuglinn þarf að vera búinn að fita sig vel áður en hann sest upp, vegna þess að hann fer ekkert af hreiðrinu í þrjár vikur meðan hann liggur á eggjum til að unga út. Þess vegna er það svo að jafnvel t.d. eins og síðasta vor þegar var hlýtt og gott vor og ýmsir höfðu reiknað með að fuglinn settist snemma upp þá kom hann alls ekki snemma, ekki t.d. innst í ýmsum fjörðum, vegna þess að það vantaði átu. Það getum við væntanlega rakið til ofveiði á loðnu og þar kemur enn einn þátturinn til athugunar fyrir þá sem vilja halda því fram að við högum okkur óskynsamlega, þeir sem halda um stjórnartaumana á fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi, því að það er ekki einungis þorskurinn sem nærist á loðnu, það eru líka fuglar. Loðna og ungsíld eða kræða eru aðaluppistaðan í fæðu æðarfugls og þegar hana skortir á vorin kemur fuglinn seinna.

Þegar fuglinn er sestur upp kemur bóndinn reglulega í varpið til að gá hvort ekki sé allt í lagi. Fylgjast þarf með því hvort vargur kemur í varpið, bæði minkur og sums staðar getur refur átt greiðan aðgang að því en einnig vargfugl. Þessu þarf öllu að halda í skefjum og um það sér æðarbóndinn.

Hirða þarf dún úr hreiðrunum jafnóðum og fuglinn fer, því að bæði getur dúninn rignt niður og hann getur fokið. Sumir hirða dúninn smám saman, taka lítið eitt í einu frá fuglinum, og þessu safnar bóndinn saman í geymslu og geymir þangað til varpi er lokið. Þá hefst annar verkþáttur sem felst í því að þurrka dúninn, breiða úr honum og þurrka hann og undirbúa hann fyrir hreinsun. Þetta er oft margra daga verk og getur reyndar verið mjög erfitt á þeim svæðum þar sem dúnninn er þurrkaður undir beru lofti og veður og vindar geta verið misjöfn eins og við vitum, en bóndinn þarf að sitja um að fá aðstæður sem henta til þessa verknaðar.

Þegar þessu er lokið hefst grófhreinsun á dúninum sem felst í því að úr dúninum eru hreinsaðar leifar af eggjaskurn, strá og fjaðrir sem hafa fest í honum. Þetta er gert í sérstökum vélum og við hita og er reyndar óþrifaverk, en þetta gerir bóndinn yfirleitt sjálfur og stundum eru ráðnir sérstakir aðilar til að vinna með honum að þessu verki. Þegar þessu verki er lokið er dúnninn síðan fullhreinsaður. Reyndar má skipta fullhreinsun í tvennt. Fyrir suma markaði nægir að fara alveg í gegnum dúninn þannig að ekki sé neitt aukadrasl í honum, engar fjaðrir, ekkert sem ekki er hreinn dúnn, en fyrir aðra markaði þarf að þvo dúninn og þar má nefna Japansmarkað. Á Íslandi hefur ekki verið fundið upp tæki til að þvo dúninn, það er a.m.k. ekki almennt í eigu æðarbænda. Það er eitt af þeim verkefnum sem þyrfti að aðstoða æðarbændur við að þróa þannig að þeir gætu fullunnið þessa vöru sína á þann alfullkomnasta hátt sem til er.

Ég er að rekja þetta ferli til að reyna að gefa örlitla mynd af því hversu mikil vinna liggur að baki hjá bóndanum við hvert kíló af dún. Í einu kílói af æðardúni eru talin 80 hreiður. Þessi mikla vinna skilar bóndanum líklega í dag um 50 þús. kr. fyrir kílóið. Sumum kann að finnast það mikið en mín skoðun er sú að það sé ekki há upphæð miðað við þessa miklu vinnu og miðað við það verð sem fæst fyrir afurðina þegar hún er komin á markað, hvort heldur er í skjólfatnaði eða svefnpokum að ég tali nú ekki um sængunum á Japansmarkaði sem eru, eins og komið hefur fram áður í sölum Alþingis, saumaðar úr fínasta silki og seldar á mörg hundruð þúsund krónur og í sum tilfellum langt yfir milljón.

Það er skoðun mín að það sé afskaplega mikilvægt að bóndinn fái meira fyrir sinn snúð og að æðarbændur á Íslandi séu aðstoðaðir við að byggja frekar upp vörpin sín en er núna. Það er reyndar ekkert gert í þeim efnum og það hefur verið bent á það líka að hvergi er neina sérstaka tilsögn að fá í umgengni við æðarvörp. Þeir sem hyggjast koma sér upp æðarvarpi verða að leita til þeirra sem þekkja til, þeirra sem eiga æðarvörp fyrir, til að fá hjá þeim leiðsögn. Það er í sjálfu sér allt í lagi en það væri líka mjög vel til fundið hjá einhverjum landbúnaðarskólanna að taka upp fræðslu í þessu efni því að þetta er búgrein sem er einstaklega heillandi á margan hátt. Þarna er verið að hirða afurð af fuglinum sem hann fellir í hreiðrið, kollan plokkar sjálf dún sem losnar af bringunni á henni þegar hún hefur verpt. Ekki er á neinn hátt verið að ganga nærri fuglinum og þarna er um að ræða ákaflega skemmtilegt nábýli manns og fugls. Æðarfuglinn þolir manninum umgengni við varpið á meðan það stendur yfir ef maðurinn gengur hægt og varlega um og sýnir fuglinum þá tillitssemi að vera ekki með bægslagang eða læti og það er eins og fuglinn skynji að verið er að gera honum til góða og vernda hann.

Ég tel að ef ekki verður séð til þess að dúnn og dúnhreinsun haldist alfarið á Íslandi, eins og verið hefur til þessa, sé sá möguleiki fyrir bí að bóndinn geti fengið meira fyrir afurð sína en nú er. Ég er alveg sannfærð um að verði dúnn fluttur hálfhreinsaður frá Íslandi til fullhreinsunar erlendis þýðir það að sami dúnn kemur ekki til frekari vinnslu á Íslandi. Ég held að það segi sig alveg sjálft. Mín skoðun er sú að það sé kórrétt ákvörðun sem hér er verið að taka, að gera þær kröfur til útflytjenda æðardúns að dúnninn fari út fullhreinsaður á sama hátt og við gerum þær kröfur að dúnn fari fullhreinsaður á markað innan lands.

Það var einmitt sú ákvörðun æðarbænda á sínum tíma að senda aðeins út fullhreinsaðan dún sem gerir það að verkum að íslenskur æðardúnn hefur ákaflega gott orðspor erlendis. Það var einmitt sú staðreynd að á markað erlendis hafði farið lélegur dúnn sem varð til þess að þar varð verðfall. Íslenskir æðarbændur fóru þess á leit við Alþingi að sett yrðu lög sem kvæðu á um að dúnn færi aðeins úr landi fullhreinsaður og enn þann dag í dag er það eindreginn vilji mikils meiri hluta æðarbænda að svo skuli vera. Það styð ég svo sannarlega.