Skattskylda orkufyrirtækja

Föstudaginn 06. maí 2005, kl. 21:01:56 (8216)


131. löggjafarþing — 124. fundur,  6. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:01]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var tvennt sem fram kom í máli hv. þingmanns sem var mjög athyglisvert. Í fyrsta lagi virðist vera sem þetta frumvarp sé fyrst og fremst sett Orkuveitu Reykjavíkur til höfuðs og Orkuveitan hafi verið að stunda starfsemi sem hv. þingmanni hugnast lítt, þ.e. hafi tekið þátt í þróun á fjarskiptamarkaði og fleiri atriðum sem hv. þingmaður telur ekki eiga að heyra til friðar Orkuveitu Reykjavíkur. Það er afar athyglisvert að þetta skuli koma fram og þetta voru röksemdirnar fyrir því að fara þessa leið.

Vert er að hafa í huga að skattlagning þessara fyrirtækja þýðir í raun og veru ekkert annað en að verið er að færa fé frá sveitarfélögum til ríkisins. Það er ekkert annað sem hér á sér stað og endurspeglar enn og aftur viðhorf ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á Alþingi til þeirra sem fara með stjórnina í Reykjavík. Hv. þingmaður staðfestir þetta einfaldlega í því andsvari sem hann veitti.

Hv. þingmaður nefndi það einnig að fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík hefði viðrað þá hugmynd að selja hluti í orkufyrirtæki. Við höfum aldrei tekið fyrir það eða útilokað að það sé mögulegt eða æskilegt. Það höfum við aldrei sagt. Við höfum hins vegar sagt að það hefði verið miklu ærlegra og miklu heiðarlegra af ríkisstjórnarflokkunum og þeim sem að þeim standa hér á hinu háa Alþingi að koma fram og segja þetta berum orðum í stað þess að skýla sér á bak við hin fráleitu rök að skattleggja þurfi orkubúskap landsmanna vegna jafnræðis við nokkrar virkjanir sem ekki heyra undir sveitarfélög eða ríki í landinu. Það var verið að kalla eftir því, verið var að kalla eftir sómasamlegum rökum en ekki þessu skjóli sem þeir hafa reynt að búa sér til í umræðunni.