Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 11:18:20 (8237)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[11:18]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hver hefði trúað því að óreyndu að í kjölfar þess að Samkeppnisstofnun upplýsti um einhvern mesta skandal síðari tíma, þ.e. olíusamráðið, fengjum við fljótlega í kjölfarið fram frumvarp sem gerir ráð fyrir því að stofnunin verði lögð niður? Það kemur í kjölfar þess að upplýst er um mesta samráð sem sögur fara af. Ekki aðeins það, heldur hafa stjórnvöld staðfest sektir upp á 1,5 milljarða vegna þessa samráðs. Viðbrögðin sem við fáum frá hæstv. ríkisstjórn eru að leggja stofnunina niður án þess að nokkur stjórnsýsluúttekt fari fram, án þess að nokkur rannsókn fari fram á því sem í raun og veru ætti að vera undirstaðan þegar við erum að breyta frá gildandi skipulagi. Það vantar alla röksemdafærslu. Reyndar hafa allir helstu sérfræðingar landsins lagst gegn þessum stjórnsýslubreytingum á stofnuninni og gegn því að veikja lögin frá því sem nú er. Hver einn og einasti sérfræðingur sem hefur komið fyrir nefndina hefur lagst gegn þessu. Þeir einustu sem hafa mælt breytingunum bót, þrátt fyrir að gagnrýna þær mjög harðlega, eru Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins, aðrir ekki, enda hafa þessir aðilar um langt skeið talað fyrir því að veikja samkeppnislögin. Nú virðist þeim hafa orðið að ósk sinni.

Við hljótum að spyrja: Hvar brennur hinn mikli eldur? Hvar liggja hin stóru vandamál sem gera það að verkum að ráðast þarf í þessar breytingar? Hvað er það sem knýr á, er þetta forgangsverkefnið í íslensku samfélagi, í íslenskri stjórnsýslu? Er það þarna sem skórinn kreppir? Er þetta virkilega stærsta viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir, að breyta stjórnsýslu samkeppnisyfirvalda, eftirlitsins, og ekki síður að veikja samkeppnislögin í kjölfar þess að stærsti skandall og mesta verðsamráð sem upp hefur komið á Íslandi var upplýst?

Hvaða skilaboð eru þetta til annarra stjórnvalda og annarra stofnana sem starfa í íslensku samfélagi? Hvaða skilaboð eru það þegar sífellt er vegið að stofnunum sem þramma ekki alveg í takt með stjórnvöldum? Hvaða skilaboð eru þetta?

Við sáum Þjóðhagsstofnun, við sáum Mannréttindaskrifstofuna, við höfðum fregnir af klerki og nú er það Samkeppnisstofnun sem á að leggja niður.

Í þessari umræðu, virðulegi forseti, er mjög mikilvægt að fram komi að í störfum efnahags- og viðskiptanefndar lögðum við ríka áherslu á að reyna að átta okkur á því hvernig hæstv. ríkisstjórnin sér framhald þessara mála. Við lögðum ríka áherslu á það að átta okkur á því hvaða hugmyndir ríkisstjórnin hefur til að mynda um þann forstjóra sem nú situr, þann forstjóra sem leiddi stofnunina í gegnum það að upplýsa um mesta verðsamráð sem hefur komið upp í sögu íslenskrar þjóðar. Hvaða hugmyndir hafa menn um framtíð hans? Hver eru verðlaunin fyrir að leiða stofnunina í gengum þetta mál og upplýsa um það verðsamráð sem öll þjóðin þekkir nú?

Við gengum hart fram í efnahags- og viðskiptanefnd við að kalla eftir upplýsingum um hvaða hugmyndir menn hefðu. Svörin sem við fengum voru þau að setja yrði sérstakt bráðabirgðaákvæði inn í lögin sem heimilaði stjórn að ráða og reka starfsmenn svo skjótt sem auðið yrði áður en lögin tækju gildi. Áður en lögin tækju gildi yrði að skipa stjórnina til að ráða og reka starfsmenn. Við héldum áfram og reyndum að fá upplýst hvað yrði um núverandi forstjóra. Svarið sem við fengum var þetta: Það verður að ráða forstjóra svo fljótt sem auðið er til þess að hann geti kynnst starfseminni og starfsfólkinu. Þetta kom fram í umræðum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Við fengum aldrei skýr svör um það hvað yrði um þann forstjóra sem leiddi stofnunina í gegnum stærsta mál sem komið hefur upp, og mörg önnur mál. Það kom aldrei fram hvað yrði um þann forstjóra sem hefur byggt upp þessa stofnun í 11 ár.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir er byggt upp á annan hátt en þegar samkeppnislögin upphaflega voru samþykkt. Þar kom skýrt fram að verðlagsstjóri yrði áfram forstjóri Samkeppnisstofnunar. Það kemur ekki fram hér. Það er líka ljóst að ef nýr forstjóri þarf að kynnast málaflokknum og því starfsfólki sem þarna starfar getur hugmyndin ekki verið sú að sami forstjórinn haldi áfram störfum. Ég kalla á það að hæstv. viðskiptaráðherra gefi um það yfirlýsingu hér á eftir, til þess að hreinsa þetta tiltekna mál, hvort hugmyndin sé sú að núverandi forstjóri haldi áfram störfum eða ekki. Þær ályktanir sem við gátum dregið af þeirri umræðu sem fram fór í hv. efnahags- og viðskiptanefnd voru þær að hugmyndin væri ekki sú að sá forstjóri héldi áfram. Það hljóta að vera kaldar kveðjur til forstjóra ríkisstofnunar sem hefur lagt á sig vinnu og leitt þá vinnu sem alþjóð er nú orðin löngu kunn. Aðrir forstjórar ríkisstofnana hljóta að þurfa að hugsa sig vandlega um ef kveðjan yrði sú að í kjölfar þessa stóra máls, olíumálsins, yrði stofnunin lögð niður og forstjórinn látinn fara. (Gripið fram í.) Það hljóta að vera mjög kaldar kveðjur ef sú verður niðurstaðan af þessu stóra máli.

Í allri umræðunni sem fram fór í efnahags- og viðskiptanefnd komu aldrei fram með neinum hætti nokkur haldbær rök sem hægt er að setja fram fyrir þessum breytingum. Þau komu aldrei fram og í raun og veru studdi enginn, ef undan eru skildir þeir tveir aðilar sem ég nefndi áðan, þessar stjórnsýslubreytingar. Það kom einnig fram að engin rannsókn fór fram á því hvers vegna þetta þyrfti að gera og það kom aldrei fram hvar hinn mikli olíueldur brynni. Það kom aldrei fram hvað knýr á um þessar breytingar.

Það var ekki aðeins að Samkeppnisstofnun legðist gegn þessu, Neytendasamtökin, ASÍ og BSRB líka, heldur taldi einnig fulltrúi óháðrar kærunefndar áfrýjunarmála að þessar breytingar væru til þess fallnar að veikja samkeppniseftirlitið og samkeppnislögin. Það sem vissulega vekur furðu í allri þessari umræðu er að okkur var sagt og okkur var kynnt, þegar á laggirnar var sett nefnd til þess að móta stefnu fyrir íslenskt viðskiptalíf, að markmiðið væri að vinna gegn samþjöppun í íslensku viðskiptalífi, gegn fákeppni.

Það var markmiðið, það var það sem lagt var upp með.

Niðurstaðan er sú að allir helstu sérfræðingar landsins á þessu sviði segja að verið sé að veikja eftirlitið og veikja lögin. Við hljótum að kalla eftir því í þessari umræðu, af því að það kom ekki fram í efnahags- og viðskiptanefnd, hvar þessi rök liggja. Hvar liggja þessi sjónarmið, hvar yfirsáust okkur þau merku rök sem standa að baki því og gera það að verkum að þetta er réttlætanlegt?

Virðulegi forseti. Þegar helstu rök sem fram koma í frumvarpinu eru skoðuð og þau sjónarmið sem koma fram í greinargerðinni, sem eru sögð forsenda eða grunnurinn að því að í þessar breytingar er ráðist, kemur í ljós að þar er farið rangt með, þar er snúið út úr þeim orðum forstjóra Samkeppnisstofnunar sem hann lætur frá sér fara í ársskýrslu sinni fyrir árið 2003. Þar eru orð tekin úr samhengi, þau síðan notuð sem grunnur í greinargerð með þessu frumvarpi, virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa röksemdafærsluna sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu og síðan að lesa það sem forstjóri Samkeppnisstofnunar skrifar þannig að hver fyrir sig geti borið saman hvað hér er á ferðinni. Menn þurfa þá ekki að vísa til þess hvað þeir hafa heyrt aðra menn segja, heldur geta bara hlýtt á það sem hér verður lesið.

Ég byrja á því að vitna í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Kemur fram í ársskýrslu Samkeppnisstofnunar fyrir árið 2003 að 80–90 samkeppnismál biðu úrlausnar hjá Samkeppnisstofnun í byrjun árs 2003, en á því ári var tekin upp formleg forgangsröðun mála hjá samkeppnissviði Samkeppnisstofnunar í samræmi við heimild samkeppnislaga. Var það gert þar sem fyrirséð var að dráttur yrði á að ljúka vinnslu fyrirliggjandi mála innan æskilegs tíma vegna umfangsmikillar vinnu við rannsókn stórra mála. Leiddi þetta til þess að aðilar gátu þurft að bíða í allt að eitt ár áður en málsmeðferð vegna kvartana þeirra gat hafist. Þá segir í skýrslunni að ljóst sé að samkeppnisyfirvöld komist að óbreyttu illa yfir að sinna nauðsynlegum verkefnum og að reynslan sýni að sökum mannfæðar fari reglubundin starfsemi Samkeppnisstofnunar úr skorðum þegar tekist sé á við fleiri en eitt umfangsmikið verkefni í einu.

Í ljósi þessa er nauðsynlegt að gera breytingar á fyrirkomulagi samkeppniseftirlits.“ — Með öðrum orðum virðast þessi skrif forstjóra Samkeppnisstofnunar í ársskýrslu Samkeppnisstofnunar fyrir árið 2003 að óathuguðu máli vera forsenda þeirra breytinga sem hér er ætlunin að ráðast í. Þá er ekki úr vegi, virðulegi forseti, að lesa upp og fara yfir það sem forstjóri Samkeppnisstofnunar skrifaði í ársskýslunni þannig að öllu sé nú til haga haldið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Starfsmannahald hjá Samkeppnisstofnun hefur ekki þróast í samræmi við hin auknu umsvif stofnunarinnar. Það hefur valdið því að aðilar, sem reka mál fyrir Samkeppnisstofnun, hafa oft á tíðum þurft að bíða óheppilega lengi eftir niðurstöðu mála. Í upphafi ársins 2003 biðu 80–90 samkeppnismál úrlausnar hjá Samkeppnisstofnun. Vegna umfangsmikillar vinnu við rannsókn á meintu ólögmætu samráði olíufélaganna og vinnu við önnur stór mál var fyrirséð að dráttur yrði á því að unnt yrði að ljúka vinnslu fyrirliggjandi mála innan æskilegs tíma. Til að takast á við þennan vanda neyddust samkeppnisyfirvöld því til að taka upp formlega forgangsröðun mála hjá samkeppnissviði Samkeppnisstofnunar á árinu 2003. Það var gert í samræmi við heimild í samkeppnislögum. Þetta hafði í för með sér að allnokkrir aðilar, sem með rökum töldu á sér brotið með vísan til samkeppnislaga, þurftu að bíða í allt að eitt ár áður en málsmeðferð gæti hafist.

Að mati Samkeppnisstofnunar þurfa stjórnvöld að horfast í augu við þá staðreynd að íslenskt viðskiptalíf hefur þróast þannig síðastliðin 10 ár að nauðsynlegt er að hér starfi öflug og virk samkeppnisyfirvöld sem hafi yfir að ráða bestu mögulegu meðulum til að uppræta og koma í veg fyrir samkeppnishömlur.

Löggjöfin sem við búum við er að flestu leyti í samræmi við það sem er nýjast og best í evrópskri samkeppnislöggjöf. Hins vegar er ljóst að samkeppnisyfirvöld komast að óbreyttu illa yfir að sinna nauðsynlegum verkefnum. Reynslan sýnir að sökum mannfæðar fer reglubundin starfsemi Samkeppnisstofnunar úr skorðum þegar tekist er á við fleiri en eitt umfangsmikið verkefni í einu.“

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, það sem hér er sagt er að skipulag stofnunarinnar, samkeppnislöggjöf, sé með því besta sem gerist í Evrópu. Vegna fjárhagsskorts og mannfæðar og vegna þess að stjórnvöld hafa ekki sinnt stofnuninni er þessi staða hins vegar komin upp hjá samkeppnisyfirvöldum. Þetta segir forstjóri Samkeppnisstofnunar í ársskýrslu sinni fyrir árið 2003.

Hluti þessara orða er tekinn úr samhengi og notaður sem röksemdafærsla fyrir því að leggja stofnunina niður, að veikja samkeppnislögin. Ég held að á mannamáli fari þetta langt með að kallast fölsun. Orð eru tekin úr samhengi í greinargerð með frumvarpinu. Ef maður ber saman það sem stendur í ársskýrslunni og það sem raunverulega kemur fram er með ólíkindum að þessi orð, þar sem lýst er að samkeppnislöggjöfin og skipulagið hér á landi sé með því besta sem gerist í Evrópu, skuli notuð til að leggja stofnunina niður, notuð til að veikja lögin.

Það er með ólíkindum, virðulegi forseti, hvað menn virðast hafa leyft sér í því að færa rök fyrir þessum breytingum. Allir helstu sérfræðingar landsins sem komu fyrir nefndina mæltu þessu í mót, hver einn og einasti. Meira að segja Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins fundu ýmislegt að því máli sem við hér ræðum þó að þau hafi verið einna jákvæðust í umfjöllun sinni.

Að loknum þessum inngangi ætla ég að gera hér grein fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en auk mín standa að því áliti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Helgi Hjörvar.

Samkvæmt athugasemdum sem fylgja frumvarpi viðskiptaráðherra til samkeppnislaga byggist frumvarpið á vinnu nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði til þess að móta stefnu um íslenskt viðskiptaumhverfi. Var nefndinni ætlað að meta hvernig bregðast ætti við aukinni samþjöppun og fákeppni í íslensku viðskiptalífi og með hvaða hætti þróa ætti reglur þannig að viðskiptalífið væri skilvirkt og nyti trausts, eins og segir í athugasemdunum.

Áður en nefndin hóf störf hafði mikið verið rætt hvort völd í efnahagslífinu væru smám saman að færast á fáar hendur. Nefndinni var ætlað að fjalla um þessa þróun og hvernig bregðast mætti við henni með setningu almennra reglna. Í ljósi þeirra markmiða sem nefndin lagði upp með lýsir 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar yfir mikilli furðu á frumvarpi því til samkeppnislaga sem liggur fyrir Alþingi, en öllum sem hafa sett sig inn í þetta mál er ljóst að verði frumvarpið að lögum er um mikla afturför að ræða frá gildandi lögum. Á það jafnt við um stjórnsýsluna og skipulag hennar og tæki sem lögin veita til að hafa eftirlit með virkri samkeppni.

Vegna þess að sagt er að frumvarpið byggi á tillögum nefndar um mótun stefnu fyrir íslenskt viðskiptalíf verður að hafa í huga að við vinnslu þess í viðskiptaráðuneytinu hefur mörgu því verið kastað fyrir róða sem nefndin setti frá sér. Í því sambandi skiptir mestu að í frumvarpinu felst veiking á samkeppnislögum, þvert á markmið og tillögur nefndar viðskiptaráðherra. Að engu er höfð tillaga nefndarinnar um aukin rannsóknarúrræði samkeppnisyfirvalda. Þá eru í frumvarpinu gerðar mun minni hæfiskröfur til þeirra sem skipa skulu fyrirhugaða stjórn Samkeppniseftirlitsins en gert var ráð fyrir í drögum sem kynnt voru 1. október sl. Einnig er bagalegt að úr frumvarpinu hefur verið felld brott mikilvæg tillaga um að samkeppnisyfirvöld geti skotið málum til dómstóla.

Í umsögnum aðila sem komið hafa fyrir nefndina hefur á sannfærandi hátt verið sýnt fram á að allar forsendur sem gefnar hafa verið fyrir stjórnsýslubreytingunum standast ekki nánari skoðun, eins og vandlega er rakið í umsögn Samkeppnisstofnunar og farið verður ítarlega yfir hér á eftir. Þessi staðreynd dregur athyglina að þeirri spurningu hvers vegna ekki var leitað til helstu sérfræðinga þjóðarinnar í samkeppnismálum þegar málið var unnið og nýtt frumvarp til samkeppnislaga mótað. Það vekur mikla furðu þegar málsmeðferðin og vinnubrögðin eru skoðuð að ekki hafi verið leitað eftir áliti og ráðgjöf þess fólks sem best þekkir til.

Eftir stendur því spurningin: Hvers vegna var lagt af stað með það markmið að styrkja ákvæði samkeppnislaga til að halda uppi eftirliti með virkri samkeppni? Niðurstaða þeirrar vinnu birtist okkur í því að sjálfstæði eftirlitsstofnunarinnar er skert, lögin verða mun veikari en áður og hvergi er að finna ákvæði sem gera eftirlitsaðilum kleift að takast á við hringamyndun og fákeppni í íslensku viðskiptalífi, þveröfugt við það sem lagt var upp með í upphafi. Því stendur upp á viðskiptaráðherra að koma með viðunandi skýringar á því hvers vegna hugmyndir af þessum toga eru lagðar fyrir þingið til samþykktar. Hvergi er að finna nein haldbær rök fyrir þeim hugmyndum sem hér er ætlað að lögfesta.

Helstu niðurstöður 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru í samræmi við álit margra sem veitt hafa nefndinni umsögn. Þær eru eftirfarandi:

Forsendur fyrir tillögum frumvarpa sem lögð hafa verið fram um breytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum fá ekki staðist. Engin rök hafa komið fram sem sýna að núverandi stjórnsýsla samkeppnismála sé óeðlileg og þunglamaleg enda hefur engin úttekt verið gerð á stjórnsýslunni. Þá kemur ekkert fram í frumvarpinu sem styður það að tillögur um breytta stjórnsýslu efli skilvirkni eða geri samkeppnisyfirvöldum betur kleift að sinna verkefnum sínum. Þvert á móti geta þessar tillögur veikt samkeppnisyfirvöld.

Vissulega vekur það mikla athygli að eftir hina miklu gagnrýni sem stjórnvöld hafa sett fram sem rök fyrir þessari stjórnsýslubreytingu, þ.e. að þetta sé þunglamalegt, að aðilar geti ekki flutt mál fyrir samkeppnsiráði, að Samkeppnisstofnun vinni mál og ráðið úrskurði síðan o.s.frv., er engin eðlisbreyting á þeim hugmyndum sem hér er ætlað að lögfesta og þeim reglum sem nú eru í gildi. Þær hugmyndir sem nú eru uppi eru einfaldlega þær að Samkeppnisstofnun vinni mál og stjórnin úrskurði, stjórnin komi í staðinn fyrir samkeppnisráð en Samkeppniseftirlitið í staðinn fyrir Samkeppnisstofnun.

Að vísu hefur verið fækkað verulega starfsmönnum stofnunarinnar en niðurstaðan er sú að þetta er sama skipulag að undanskildu einu, og það er athyglisvert: Stjórnin hefur afskipti af daglegum rekstri Samkeppniseftirlitsins. Hinni pólitískt skipuðu stjórn er ætlað að hafa eftirlit með daglegum störfum Samkeppniseftirlitsins sem er ekki til staðar í dag, sem gerir það að verkum að Samkeppniseftirlitið verður veikara og ósjálfstæðara frá því sem það er í dag. Þetta er veruleg breyting. (Gripið fram í: Er það ekki ætlunin?) Vissulega er það ætlunin. Þetta er veruleg breyting frá því sem nú er, og sú athugasemd sem fram kemur í frumvarpinu er mjög athyglisverð, að stjórninni er ætlað að tryggja að Samkeppniseftirlitið gæti meðalhófs í störfum sínum. Það vekur að sjálfsögðu upp spurninguna: Hefur Samkeppnisstofnun ekki gætt meðalhófs í störfum sínum?

Samkeppnisstofnun heyrir undir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga eins og allar aðrar stofnanir. En hvað er það sem kallar á meðalhóf nákvæmlega núna? Hvað er það sem kallar á að bera þurfi meiri háttar ákvarðanir sem stofnunin eða eftirlitið ætlar að ráðast í undir pólitískt skipaða stjórn? Hvað er það sem kallar á þessar breytingar? Hvar brennur hinn mikli eldur? Hvar hefur núverandi Samkeppnisstofnun ekki staðið sig? Hvað er svona stórvægilegt að það sé ástæða til að skera þetta eftirlit upp á þann hátt sem ætlunin er að gera?

Við eigum eftir að ræða síðar á þessu þingi þær breytingar sem ætlað er að ráðast í, þ.e. að færa hluta af Samkeppnisstofnun yfir í Löggildingarstofu og breyta síðan nafninu á því samkrulli öllu saman, sem gerir það að verkum að stærðarhagkvæmni Samkeppniseftirlitsins mun ekki verða söm og fyrr, þ.e. að hægt sé að nýta alla þá starfsemi sem hægt er að nýta í dag þegar ráðist er í stórar aðgerðir. Af hverju erum við ekki upplýst um það hvar hinn mikli eldur brennur? Af hverju erum við ekki upplýst um það hvers vegna þurfi að ráðast í þennan uppskurð? Af hverju er okkur ekki greint frá þessu?

Efnahags- og viðskiptanefnd fór vandlega yfir þetta mál og það er ekki ástæða til að gera lítið úr því en það dregur líka fram með skýrari hætti að í þeirri yfirferð komu engin rök fram sem skýrðu hvers vegna þetta væri nauðsynlegt. Við hljótum að spyrja okkur í þessu samhengi: Hefur stofnunin sem nú er að störfum ekki staðið sig? (JBjarn: Hefur staðið sig of vel.) Hvað er það sem er að? Og hvers vegna er snúið svona svakalega út úr orðum forstjóra Samkeppnisstofnunar í ársskýrslunni 2003 og þau orð notuð sem grunnur að þeim breytingum sem hér á að ráðast í? Hvers vegna er þessi leið farin? Þau orð þar sem forstjórinn lýsir því yfir að á Íslandi sé einhver besta löggjöf á samkeppnissviði sem þekkist í Evrópu eru tekin úr samhengi og notuð sem rök fyrir því að veikja lögin og breyta eftirlitinu. Það þarf ótrúlega hugkvæmni til að láta sér þetta til hugar koma.

Forstjórinn var aðeins að benda á eitt í skýrslu sinni, það vantaði fjármagn og mannskap, að öðru leyti gengi starfið mjög vel. Nýverið gjaldféllu sektir upp á 1,5 milljarða sem er afrakstur vinnu þessarar stofnunar sem ætlunin er nú að leggja niður. (Gripið fram í: Setja meiri pening í málaflokkinn.) (BÁ: Stofna … stofnun.) Hér kallar fram í fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Verslunarráðsins sem lengi hefur talað fyrir því að veikja samkeppnislögin (Gripið fram í: Leggja niður.) og ég veit að hv. þingmaður er kátur núna. Hann er kátur með að þeir sjá nú loksins árangur erfiðis síns til margra ára, umræðu um nauðsyn þess að veikja lögin. Ég veit að hv. þm. Birgir Ármannsson er ánægður með þann árangur sem hann telur sig hafa náð fyrir sig og umbjóðendur sína. (Gripið fram í: Öllu …) Enda hefur enginn, að undanskildu Verslunarráðinu og Samtökum atvinnulífsins, tekið undir þessar breytingar, enginn. (Gripið fram í: Lögmannafélagið.) Lögmannafélagið fjallaði fyrst og fremst um annað sem ég á eftir að fara yfir síðar í ræðu minni, jafnvel síðar í kvöld eins og gert er ráð fyrir.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, spyrjum við í áliti 1. minni hluta: Hvers vegna er verið að gera minni hæfiskröfur til stjórnarmanna í nýju frumvarpi en þær sem nú gilda um samkeppnisráð? (Gripið fram í.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal sem er formaður nefndarinnar kallar hér fram í: Það er margbúið að gera það. Og vitið þið hver rökin eru? Það er fróðlegt að upplýsa hv. þingmenn um það. Það er svo erfitt að finna menn sem uppfylla hæfiskröfurnar. (Gripið fram í.) Við höfum rekið hér samkeppnisráð í 11 ár og það hefur enginn vandi verið, ekki nokkur einasti vandi, en núna í þessum breytingum er svo erfitt að finna fólk. (Gripið fram í.) Sagan einfaldlega geymir það að það hefur ekki verið nokkurt vandamál að manna þetta á þann hátt að yfir allan vafa hefur verið hafið. Það hefur aldrei komið upp að menn hafi talið einhver óeðlileg hagsmunatengsl uppi á borðinu við afgreiðslu samkeppnisráðs á málum, aldrei. (PHB: … komnir í samkeppni.) Það hefur aldrei komið fram. Nú, þegar leggja á stofnunina niður (Gripið fram í.) og veikja samkeppnislögin, er afar mikilvægt að draga úr hæfiskröfum stjórnarmanna. Þá er það eitt mikilvægasta málið sem upp hefur komið að draga úr hæfiskröfum stjórnarmanna. (JBjarn: Þarf ekki bara rétt flokksskírteini?) Það er kallað hérna fram í: Þarf ekki rétt flokksskírteini? Ég geri fastlega ráð fyrir því að þegar hæstv. viðskiptaráðherra, ef til þess kemur að hún þurfi að skipa þessa stjórn, muni sjálfsagt m.a. líta til þess. (Viðskrh.: Er það reynslan? Hjá samkeppnisráði?) Athyglisvert frammíkall hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni. (Viðskrh.: Geturðu nefnt dæmi um það?) (Gripið fram í: … hæfiskröfur.) Ég var að vísa hér til framtíðar og til þess að þær forsendur sem við höfum til að meta framtíðina eru þær að draga á úr hæfiskröfum þeirra sem sitja í stjórn. Það er það einasta sem við höfum um þetta mál.

Hvers vegna skyldum við treysta yfirvöldum í þessu máli í ljósi þess að það á að draga úr hæfiskröfum þeirra sem eiga að hafa daglegt eftirlit? Það er ekki bara að þeir eigi að úrskurða, heldur hafa daglegt eftirlit og veita samþykki fyrir meiri háttar ákvörðunum. Sjálfstæði eftirlitsstofnunarinnar verður miklu minna eftir en fyrir. Við höfum kallað eftir svörum, eins og ég sagði hérna áðan, um það hvers vegna þurfi að gera þetta. Skýringin sem við höfum fengið er sú að það verður svo erfitt að manna þessa þriggja manna stjórn ef hæfiskröfur eru ríkar. Trúi því hver sem vill, og kaupi þá niðurstöðu hver sem vill, en það er ekki nema von að við, sum hver, séum mjög skeptísk á að þetta sé raunverulega það sem markmiðið er að gera.

Í þriðja lagi höfum við í 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar bent á að í 16. gr. frumvarps til samkeppnislaga, sem er sambærileg 17. gr. gildandi laga, hefur verið felldur brott c-liður 1. mgr. 17. gr. þar sem segir að samkeppnisráð geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Þetta er í hróplegri mótsögn við yfirlýstan tilgang endurskoðunar samkeppnislaganna. Ef þetta nær fram að ganga felur það í sér ótvíræða veikingu á samkeppnislögum og takmörkun á möguleikum samkeppnisyfirvalda til að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem m.a. stafa af aukinni samþjöppun í viðskiptalífinu. Samkeppnisstofnun leggur til að þetta ákvæði gildandi 17. gr. verði styrkt enn frekar og samkeppnislög þar með gerð að öflugra tæki en þau eru nú til að berjast gegn óæskilegri samþjöppun, hringamyndun og skaðlegri fákeppni í íslensku viðskiptalífi.

Þessi niðurfelling verður kannski ekki rædd nema ég fari einnig yfir næsta punkt sem við erum hér með en í 8. gr. frumvarps til nýrra samkeppnislaga er lögð til breyting þess efnis að Samkeppniseftirlitið skuli birta skýrslur um athuganir sínar á hringamyndun og samþjöppun og grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni. Viðbúið er að samkeppnishömlur sem stafað geta af hringamyndun og samþjöppun eigi ekki rót sína að rekja til brota á bannreglum samkeppnislaga, heldur til skaðlegra aðstæðna í skilningi c-liðar 17. gr. gildandi samkeppnislaga. Með því að fella á brott það ákvæði samkeppnislaga er unnið gegn markmiði þeirra breytinga sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins en samkvæmt henni væri samkeppnislögum breytt þannig að samkeppnisyfirvöldum bæri að fylgjast með hringamyndun og samþjöppun og grípa til aðgerða gegn þessu. Í 16. gr. frumvarpsins hefur hins vegar eitt helsta tækið til að vinna gegn þessum hömlum á samkeppni verið fellt brott úr lögunum.

Það er einmitt hérna sem kemur fram sú veiking sem við teljum að verið sé að gera á lögunum með því að fella brott þetta ákvæði. (Viðskrh.: Hefur það oft verið notað?) Þetta ákvæði hefur ekki verið notað en það breytir ekki því að lögin verða veikt ef heimildir verða teknar út. Ég þakka fyrir frammíkall hæstv. viðskiptaráðherra. Að sjálfsögðu verða lögin veikt ef heimildir og tæki eru felld brott. Þess vegna höfum við hvatt eindregið til þess að þetta verði áfram inni. Þó að ekki reyni á tiltekin lög segir ekkert um það að lögin kunni ekki að hafa þau áhrif sem ætlast er til. Það að ekki sé sífellt verið að fella dóma eða úrskurði á grundvelli tiltekinna ákvæða þýðir kannski að menn virða þá lögin og þau hafi þau áhrif sem ætlast er til. Það er ekki endilega mælikvarði á nytsemi laga hvort það reyni á þau frá degi til dags, heldur kannski miklu frekar að ef ekki reynir á þau séu menn að virða þessar reglur. Skilaboðin sem við erum að senda núna út í samfélagið eru þau að við ætlum að veikja þessi ákvæði. Það er það sem við erum að velta upp í þessari umræðu, og við spyrjum: Úr því að lagt var af stað með það að koma í veg fyrir fákeppni og samþjöppun í íslensku viðskiptalífi, af hverju er þá verið að veikja lögin? Það eru þessi sjónarmið og þessar röksemdir sem við einfaldlega höfum ekki fengið skýr svör við.

Reyndar kom fram í yfirferð efnahags- og viðskiptanefndar yfirlýsing þess efnis að svona ákvæði væri ekki að finna í EES-rétti. Það segir ekkert um það hvernig við viljum sjá okkar reglur. Vegna fákeppni hér og smæðar samfélagsins er það a.m.k. sjónarmið þess sem hér stendur að hér þurfi að vera heldur harðari reglur en veikari. Skilaboðin sem við sendum út í samfélagið eru að verið sé að veikja reglurnar. Það er það sem við gerum verulegar athugasemdir við.

Það er ekki aðeins þetta, heldur gætir hér einnig rökræns ósamræmis. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því í d-lið 8. gr. að hlutverk Samkeppniseftirlitsins verði „að fylgjast með þróun á samkeppnis- og viðskiptaháttum á einstökum mörkuðum í íslensku viðskiptalífi og kanna stjórnunar- og eignatengsl á milli fyrirtækja; skal þetta gert m.a. í því skyni að meta hvort í íslensku viðskiptalífi sé að finna einkenni hringamyndunar, óæskilegra tengsla eða valdasamþjöppunar sem takmarkað geta samkeppni; stofnunin skal birta skýrslur um athuganir sínar og grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni þar sem það er nauðsynlegt“.

Með því að fella brott þetta ákvæði, einkum í niðurlaginu þar sem segir „grípa til aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni“, er nánast öllum tækjum eftirlitsins kippt í burtu. Eftirlitið mun ekki hafa þau tæki sem þarf til að grípa til aðgerða. Í reynd er aðeins sýndarmennskan ein uppi og augljóst að ætlunin er ekki sú að grípa til nokkurra einustu aðgerða því að tækið sem hefði mátt nota er tekið út. Einasta tækið sem er þá eftir er ef menn gerast brotlegir. Ef menn gerast brotlegir við þessi ákvæði er það í eina skiptið sem hægt er að grípa til einhverra tiltekinna aðgerða (Gripið fram í.) en ekki ef óæskileg samþjöppun leiðir til ástands sem skaðar samkeppni.

Eins og ég vék að áðan voru röksemdirnar helstar þær að þessar reglur væru ekki í EES-réttinum. Það er rétt. Á hinn bóginn hafa lönd, mörg hver, verið að taka upp þessar reglur sem hér er ætlunin að fella brott. Má þar nefna Bretland, Noreg og nú liggur frumvarp fyrir sænska þinginu þar sem hugmyndin er að taka þetta upp. Þróunin í evrópskum rétti er miklu frekar að taka upp ákvæði af þessum toga en að fella þau brott.

Í upphafi var lagt af stað með þá hugmynd að styrkja og efla samkeppnisreglurnar, efla eftirlitið, koma í veg fyrir fákeppni, samþjöppun o.s.frv. Í framhaldi af hinni miklu umræðu sem fram hefur farið er hið einasta sem gert hefur verið það að veikja lögin. Af þessum sökum hafa menn verið fullir tortryggni um hvað raunverulega búi að baki. Auðvitað vekur það ekki síður upp tortryggni að gripið skuli til þessara aðgerða í kjölfar þess mikla árangurs sem Samkeppnisstofnun hefur náð í störfum sínum. Við vorum a.m.k. ekki upplýst um það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hvar hinn mikli eldur brennur sem knýr á um svo róttækar aðgerðir sem raun ber vitni.

Þá vekur það mikla athygli hjá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar að margar þær hugmyndir sem sú nefnd sem sett var á laggirnar um mótun stefnu fyrir íslenskt viðskiptalíf setti fram hlutu ekki náð fyrir augum hæstv. viðskiptaráðherra þegar frumvarpið var unnið. Það má vekja athygli á því að sú nefnd sem ég vitnaði í lagði til að lögfest yrði ákvæði þar sem samkeppnisyfirvöldum á Íslandi yrði veitt heimild til vettvangsrannsókna á heimilum, landsvæðum og í flutningatækjum í eigu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis. Við töldum afar mikilvægt að samkeppnisyfirvöld á Íslandi hefðu sams konar heimildir og eftirlitsstofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu vegna þess að þróun, hugmyndir og umræður í samkeppnismálum hafa gengið út á það að færa völdin og eftirlitið meira heim í hérað, ef svo má að orði komast. Þess vegna er það í hrópandi ósamræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað að íslenskum samkeppnisyfirvöldum skuli ekki veittar sömu heimildir hvað þetta varðar og samkeppnis- og eftirlitsstofnunum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé alveg ljóst að ef menn stunda verðsamráð í nokkru samræmi við það sem átti sér stað hjá olíufélögunum munu menn geyma gögn annars staðar en á starfsstöðinni. Það er fullreynt, virðulegi forseti, að það er ekki mjög skynsamlegt. Ég mun síðar í máli mínu taka dæmi um það frá Evrópu hversu frumlegir menn hafa verið í því að geyma gögn sem lúta að verðsamráði.

Við megum aldrei gleyma því í allri þessari umræðu að í umræðu um samkeppnislög erum við fyrst og fremst að hugsa um í fyrsta lagi að fyrirtæki á markaði starfi í öguðu umhverfi. Að minni hyggju er það besta umhverfið fyrir fyrirtæki að starfa í og þau fyrirtæki sem starfa í hvað öguðustu umhverfi eiga mesta möguleika til útrásar og að vinna sér nýja markaði í öðrum löndum. Þau þekkja ögunina sem markaðurinn veitir þeim, það er það sem gerir það að verkum að þau eru líklegri til þess að ná árangri á öðrum mörkuðum, erlendum mörkuðum.

Í öðru lagi felst í samkeppnislögum neytendavernd. Samkeppnislögum er ætlað að tryggja eðlilega verðmyndun á vöru, framboð og eftirspurn, að ekki sé lagður steinn í götu, hvorki þeirra sem vilja selja vöru né hinna sem vilja kaupa. Þetta er grunnurinn að samkeppnisreglunum og þeim markmiðum sem þau stefna að. Að minni hyggju og í ljósi hinnar miklu markaðsvæðingar er forsenda þess að hún gangi upp sú að fyrir hendi séu öflugar samkeppnisreglur og virkt samkeppniseftirlit.

Ég get alveg unnt öðrum þess að hafa þá skoðun að öflugt samkeppniseftirlit sé ekki forsenda þess að markaðurinn virki sem skyldi. Þau sjónarmið eru uppi, til að mynda hafa ungir sjálfstæðismenn talað mjög fyrir því að leggja samkeppnislögin helst niður, svo að ekki sé talað um Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins. Þessir aðilar hafa haft aðra skoðun. Það sem kemur mér í opna skjöldu er að eftir þá þróun sem átt hefur sér stað frá setningu samkeppnislaganna, eftir þær breytingar sem áttu sér stað árið 2000, sem allar, bæði setning samkeppnislaganna, breytingarnar árið 2000 og aðrar breytingar sem hafa átt sér stað, hafa allar gengið út á það að styrkja samkeppnislögin, herða eftirlitið og bæta reglurnar, á núna hins vegar að veikja eftirlitið, veikja stjórnsýsluna og veikja lögin. Það eru svör við þessum spurningum sem við höfum ítrekað kallað eftir en ekki fengið. Eins og ég hef áður nefnt höfum við spurt: Hvar liggja hin miklu bágindi? Hvers vegna þarf að skera eftirlitið upp á þann hátt sem raun ber vitni með tilheyrandi afleiðingum? Vissulega mun svo taka marga mánuði að ná aftur flugi í þeirri starfsemi sem samkeppniseftirlitinu er ætlað að hafa. Það þarf að endurskipuleggja starfsemina og endurmanna hana. Það þarf að endurskilgreina. Og þetta gerist ekkert í einu vetfangi.

Hæstv. ráðherra hefur helst beitt þeim rökum — öllu heldur rökleysu því að hún hefur komið fram í fjölmiðlum og sagt að helstu sérfræðingar þjóðarinnar skildu bara ekki málið. Þeir hefðu bara ekki hugmynd um hvernig málið er vaxið. Það eru einustu rökin sem hæstv. ráðherra hefur sett fram, jafnvel þó að helstu sérfræðingar þjóðarinnar hafi gagnrýnt þetta mjög harðlega. Þá virðist hæstv. ráðherra luma á einhverjum upplýsingum sem aðrir hafa ekki. Einasta röksemdafærsla hennar eða gagnrýnenda þessarar hugmyndar er að þeir skilji ekki málið, þeir séu að snúa öllu á haus. (Gripið fram í: Snúa öllu á haus.) Það er það einasta sem hefur komið fram.

Ég mun fylgjast mjög vandlega með því … (Gripið fram í.) Ég mun fylgjast mjög vandlega með því hér í umræðunni á eftir hvernig hæstv. ráðherra mun rökstyðja mál sitt. Nú munum við kalla eftir rökum, ekki bara upphrópunum í fjölmiðlum eins og verið hefur. Nú verður kallað eftir rökum og við munum hlýða vandlega á málflutning hæstv. ráðherra þegar hún mun hér flytja þingheimi þær röksemdir sem ekki tókst að kalla fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. (Gripið fram í: Er ekki verið að ræða álit nefndarinnar?) Vissulega erum við að ræða álit nefndarinnar. Hins vegar tókst ekki í efnahags- og viðskiptanefnd að draga fram þau rök sem skipta máli. Þess vegna hef ég verið að kalla eftir því að hæstv. viðskiptaráðherra muni koma fram með sjónarmið og rök og upplýsa okkur um það hvar okkur öllum hefur yfirsést, öllum helstu sérfræðingum landsins yfirsést og okkur öllum. (Viðskrh.: Hverjir eru þessir sérfræðingar?) Allir helstu sérfræðingar sem komu fyrir nefndina. (Viðskrh.: Viltu lesa þá upp?) Hv. þm. Pétur Blöndal las alla upp sem komu fyrir nefndina. Það ætti að vera hægðarleikur fyrir hæstv. ráðherra að rýna í álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Sú nefnd sem hér hefur nokkrum sinnum verið vísað til og talin er hafa lagt grunn að þeim hugmyndum sem hér búa að baki, nefnd um stefnumótun fyrir íslenskt viðskiptalíf, lagði til að samkeppnisyfirvöld fengju heimild til að áfrýja úrskurðum áfrýjunarnefndar í því skyni að reyna að tryggja betur almannahagsmuni í samkeppnismálum. Þannig gætu samkeppnisyfirvöld áfrýjað úrskurðum áfrýjunarnefndar teldu þau nauðsyn bera til vegna almannahagsmuna. Þessi hugmynd var kannski ekki útfærð í þaula í umræddri nefnd, hún var ekki útfærð í smáatriðum, en ég held að mjög mikilvægt sé að samkeppnisyfirvöld hverju sinni geti spurt dómstóla grundvallarspurninga ef þau eru ósátt við niðurstöður áfrýjunarnefndar. Samkeppniseftirlitinu er fyrst og fremst ætlað að gæta almannahagsmuna.

Ef niðurstaða stofnunar er slík að menn telji nauðsynlegt að fá svör við frekari spurningum er mikilvægt að samkeppnisyfirvöld hafi þessa heimild. Það er mikilvægt að ekki aðeins þeir sem eru undir skoðun eða eftirliti, þ.e. hinir kærðu, geti áfrýjað þessum málum, það getur líka verið mikilvægt að samkeppnisyfirvöld geti áfrýjað þessum málum. Er vísað til þess að víða erlendis er þetta í lögunum og fordæmin hér eru einnig til staðar, t.d. í skattamálum. Þar er hægt að fara áfram með mál ef menn telja almannahagsmuni krefjast þess að mál fái frekari skoðun.

Sú hugmynd kom fram í umræddri nefnd en þrátt fyrir að þessar hugmyndir hafi ratað inn í fyrstu drög sem birt voru á heimasíðu viðskiptaráðuneytisins hafa þau ekki ratað inn í það frumvarp sem við ræðum á hinu háa Alþingi.

Eitt af því sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur talað mikið um í þessari umræðu er að staða nýs forstjóra Samkeppniseftirlitsins verði sterkari en staða núverandi forstjóra. Þessu hefur verið mótmælt og mjög efnismikil rök færð að því að staða núverandi forstjóra sé mjög sterk. Hann gegnir starfinu sem embættismaður og sem slíkur er hann varinn af þeim lögum sem um embættismenn gilda. Mjög skýrar reglur gilda um hvernig standa eigi að brottvikningu ef þarf o.s.frv. Þannig er núverandi forstjóri varinn af gildandi lögum.

Í þessu nýja frumvarpi er hugmyndin sú að forstjóri verði ráðinn af þriggja manna stjórn sem hæstv. ráðherra skipar og hann á allt sitt undir þessari stjórn. Stjórnin getur ráðið hann og rekið. Hann verður ekki embættismaður og því verður staða hans veikari, eins og segir hér í áliti 1. minni hluta, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að staða forstjóra Samkeppniseftirlitsins verður veikari en staða núverandi forstjóra Samkeppnisstofnunar. Hann nýtur ekki þeirrar réttarverndar sem núverandi forstjóri hefur sem embættismaður. Hann nýtur því ekki sama starfsöryggis og sá sem nú gegnir starfi forstjóra Samkeppnisstofnunar. Hann er því ekki eins vel varinn fyrir pólitískum afskiptum og núverandi forstjóri.“

Þetta kom mjög skýrt fram hjá þeim sem komu fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta eru mjög athyglisverð sjónarmið í ljósi þeirra hástemmdu yfirlýsinga hæstv. viðskiptaráðherra í upphafi þegar málið var kynnt að hinn nýi forstjóri mundi njóta miklu meira sjálfstæðis en sá sem nú situr. Við höfum reyndar kallað eftir því í umræðunni hvaða hugmyndir hæstv. viðskiptaráðherra hafi um núverandi forstjóra, hvort hugmyndin sé sú að hann haldi áfram störfum eða verði látinn hætta. (Viðskrh.: … biðja um afskipti hjá stjórninni.) Virðulegi forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra kallar hér fram í að það sé eins og verið sé að biðja um afskipti og ætlast þá væntanlega til þess að við hv. þingmenn teljum að hæstv. viðskiptaráðherra muni ekki hafa nein afskipti af því hver ráðinn verði forstjóri Samkeppniseftirlits. Guð láti gott á vita.

Eins og hér hefur komið fram hafa verið dregin fram mjög skýr rök fyrir því að sá forstjóri sem verður ráðinn, hver sem það verður, njóti ekki sömu réttarverndar og sama sjálfstæðis og sá sem nú situr. Það er í hrópandi mótsögn við það sem kynnt var þegar þetta mál var lagt fram. Þá segir hér í áliti 1. minni hluta:

Samkeppniseftirlitið sem ætlunin er að koma á fót nýtur ekki sama sjálfstæðis í daglegum störfum sínum og Samkeppnisstofnun gerir nú því nái þessar breytingar fram að ganga verður að bera allar meiri háttar aðgerðir undir þriggja manna stjórn, sem viðskiptaráðherra skipar án tilnefningar, áður en ráðist er í þær. Í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að hlutverk stjórnarinnar sé að tryggja að Samkeppniseftirlitið gæti meðalhófs í aðgerðum sínum. Það er því ekki nema von að athygli manna hafi beinst að því hvað hefði gerst ef þetta frumvarp hefði verið orðið að lögum þegar ráðist var til inngöngu í olíufélögin á sínum tíma. Hefði sú aðgerð verið talin í andstöðu við meðalhóf?

Það er kannski ekki nema von að hv. þingmenn velti þessum spurningum fyrir sér því að Samkeppnisstofnun heyrir í dag undir stjórnsýslulögin. Í þeim lögum er kveðið skýrt á um að stofnunin og stjórnvöld skuli fylgja meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hvers vegna þarf að hnykkja sérstaklega á þessari reglu nú? Hvers vegna þarf að hnykkja sérstaklega á meðalhófsreglunni núna þegar skera á upp stofnunina og breyta lögunum til veikingar eins og áætlanir eru uppi um? Mér finnst ofur eðlilegt að skilja þessa spurningu eftir fyrir hæstv. ráðherra: Hvað gerir það að verkum að það þarf að vera tvöfalt meðalhóf á Samkeppniseftirlitinu miðað við aðrar stjórnsýslustofnanir í landinu? Er það eitthvað í sögunni sem kallar á tvöfalt kerfi á þessari stofnun? Hefur eitthvað það gerst sem veldur því að þetta þarf að gera? Er það eitthvað sem gerir það að verkum að það er ekki aðeins tvöfalt meðalhóf á þessari stofnun, heldur einnig þriggja manna stjórn sem þarf að samþykkja meðalhófið og það þegar ráðast á í tilteknar aðgerðir?

Það er ekkert óeðlilegt, virðulegi forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra sé krafin svara um þau sjónarmið sem þarna birtast. Hér er um mjög mikilvæga löggjöf að ræða, lykillöggjöf fyrir viðskiptalíf, almenning og neytendur. Þess vegna er ekki óeðlilegt að menn staldri við það hvers vegna svona meðalhóf plús stjórn skuli sett á samkeppniseftirlit í þessu landi, vel umfram önnur stjórnvöld og stofnanir sem undir ríkisvaldið heyra.

Þá vekur 1. minni hluti athygli á mikilvægi þess að viðurlög við brotum gegn samkeppnislögum séu þannig úr gerði gerð að ólögmætur ávinningur verði allur gerður upptækur þegar það á við. Það er ekki að ástæðulausu sem við nefnum þetta sérstaklega því að í títtnefndu olíumáli, sem er kannski sá eldur sem hér virðist undir brenna, kom mjög skýrt fram hjá mörgum hagfræðingum sem komu að því máli að tjón samfélagsins og hagnaður þeirra sem stunduðu þetta samráð hafi verið langt umfram þær sektir sem á félögin voru lögð.

Af því má hæglega draga þá ályktun að það borgi sig að svindla. Það eru þó skilaboð sem við viljum ekki senda út í samfélagið. Við viljum ekki að Alþingi sendi þau skilaboð út í samfélagið að það geti borgað sig að hafa rangt við, jafnvel þó að upplýst verði um brotin. Það eru skilaboð sem við viljum ekki sjá að hv. Alþingi sendi frá sér.

Eins og áður hefur verið vakin athygli á var markmið þeirrar vinnu, sem hófst með skipun nefndar um stefnumótun fyrir íslenskt viðskiptalíf, að móta stefnu og setja reglur sem tækju á fákeppni og óeðlilegum eignatengslum í íslensku viðskiptaumhverfi en það markmið virðist hafa gufað upp á leiðinni. Niðurstaðan er sú að gera stjórnsýslubreytingar á Samkeppnisstofnun sem draga úr afli stofnunarinnar og draga úr möguleikum á að hafa eftirlit með íslensku viðskiptalífi.

Um þetta segir í áliti Samkeppnisstofnunar, með leyfi forseta: „… frumvarpið leggur til grundvallarbreytingar á stjórnsýslu í samkeppnismálum. Að mati Samkeppnisstofnunar er það bagalegt að framangreindar forsendur fyrir þessum breytingum byggjast í aðalatriðum á misskilningi eða röngum upplýsingum um núverandi stjórnsýslu í málaflokknum. Telur Samkeppnisstofnun það gagnrýnisvert að nefnd viðskiptaráðherra hafi kosið að leggja fram þessar tillögur án þess að leita upplýsinga hjá stofnuninni, samkeppnisráði, auglýsinganefnd eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála.“ — Með öðrum orðum, þessar hugmyndir eru settar fram án þess að tala við helstu sérfræðinga þjóðarinnar í samkeppnismálum. Það eitt út af fyrir sig er afar athyglisvert. — „Hlýtur almennt að teljast æskilegt að leitað sé upplýsinga um staðreyndir og reynslu þeirra stjórnvalda sem falin er framkvæmd á tilteknum lögum áður en gerðar eru tillögur um að stjórnsýslufyrirkomulagi á því sviði sé gerbylt. Þegar Samkeppnisstofnun fékk í hendur skýrslu nefndar viðskiptaráðherra um íslenskt viðskiptaumhverfi og upphafleg drög að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga í september 2004 vakti stofnunin athygli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins á misskilningi og ónákvæmni sem fram kom í skýrslunni og drögunum. Viðbrögð ráðuneytisins fólust í því að gera breytingar á orðalagi í athugasemdum með drögum að frumvarpinu. Samkeppnisstofnun var jafnframt upplýst um það að engar breytingar yrðu gerðar á tillögum um nýtt stjórnsýslufyrirkomulag í samkeppnismálum.

Þar sem helstu forsendur fyrir framangreindum tillögum fá ekki staðist varar Samkeppnisstofnun við því að þær verði lögfestar.“

Það hlýtur að teljast sérstætt og athyglisvert þegar ráðast á í jafnumfangsmiklar og -viðamiklar breytingar og hér er ætlunin að gera að ekki sé rætt við þá sem hafa starfað eftir lögunum allan þennan tíma. Þá er ekki rætt við þá sem hafa framkvæmt lögin. Þá er ekki rætt við þá sem sitja í áfrýjunarnefnd. Það er ekki talað við þá sem hafa þurft að vinna með þessar reglur allan þennan tíma, þá sem hafa átt að vinna eftir þessari stjórnsýslu, eftir þessu skipulagi.

Það er aðeins fullyrt að þetta sé ómögulegt án þess að rætt sé við nokkurn sem unnið hefur í þessum málaflokki í rúman áratug. Það er ekki rætt við þá þegar ráðist er í svona umfangsmiklar breytingar. Þó að ekki væri nema um þetta sem einhverjar skýringar kæmu fram, hvers vegna ekki var rætt við þessa aðila, væri það afar mikið innlegg í þessa umræðu.

Þess ber að geta að hinir sömu aðilar og ekki þótti ástæða til að ræða við höfðu þá nýverið upplýst um stærsta verðsamráð Íslandssögunnar. Það þótti ekki tilefni einu sinni til að ræða við þá.

Eins og ég vakti athygli á í upphafi ræðu minnar eru rökin sem notuð eru í greinargerð fyrir þessum breytingum tekin upp úr skýrslu Samkeppnisstofnunar, ársskýrslu árið 2004, og þeim svo gjörsamlega snúið á haus miðað við það sem þar kemur fram að það á sér vart hliðstæðu. Það á sér vart hliðstæðu hvernig orðunum er snúið á haus. Í þeirri skýrslu er talað um að skipulagið og lögin séu með því besta sem gerist í Evrópu. Í greinargerð hæstv. viðskiptaráðherra kemur fram að þessi sama röksemdafærsla sé notuð til að brjóta stofnunina niður, leggja hana niður og veikja samkeppnislögin. Þetta hlýtur að vera einhvers konar met, þótt ekki væri nema í hugmyndaflugi. Þetta hlýtur að vera einhvers konar met sem á eftir að verða skráð í sögubækur.

Virðulegi forseti. Margir aðilar komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. (PHB: … óþarfi.) Það er afar mikilvægt að afstaða þeirra komi fram, enda sem fyrr var afstaða allra helstu launþegasamtaka í landinu, Neytendasamtakanna, (Gripið fram í.) samkeppnisyfirvalda, (Gripið fram í.) öll í þá veru að það er mikil gagnrýni á þær hugmyndir sem hér liggja fyrir. Ég ætla að byrja á að fara yfir umsögn Alþýðusambands Íslands en þar eru gerðar verulegar athugasemdir við fyrirliggjandi hugmyndir. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands hefur fengið til umsagnar frumvarp til samkeppnislaga, 590. mál.

Á vettvangi ASÍ hefur oft verið ályktað um mikilvægi þess að efla samkeppnislöggjöfina og Samkeppnisstofnun, nú síðast í tengslum við skýrslu Samkeppnisstofnunar um ólögmætt samráð olíufélaganna. Afstaða ASÍ til breytinga á samkeppnislögunum verður að skoðast í þessu ljósi.

Ein helsta breyting sem lögð er til í frumvarpinu er að gert er ráð fyrir að þau verkefni sem nú heyra undir samkeppnisyfirvöld er lúta að eftirliti með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins verði ekki unnin í sömu stofnun og þau verkefni sem snúa sérstaklega að samkeppnismálum.“

Svo segir áfram um stjórnsýsluna:

„Í greinum 5–7 er fjallað um stjórn Samkeppniseftirlits, skipun hennar og hlutverk. ASÍ telur að hlutverk stjórnarinnar sé ekki skýrt skv. frumvarpinu, að stjórnin geri stjórnkerfið flóknara og um leið óskilvirkara. Einnig kunna að koma upp erfiðleikar vegna hugsanlegra tengsla einstakra stjórnarmanna við þá hagsmuni sem Samkeppniseftirlitið á að sinna. ASÍ leggur því til að ákvæði um skipun og hlutverk stjórnar verði felld út úr frumvarpinu og þess í stað verði sett inn ákvæði þess efnis að forstjóri stofnunarinnar verði skipaður beint af ráðherra.“

Í þessari umsögn kemur skýrt fram ótti ASÍ um að sú stjórn sem ætlunin er að setja á laggirnar verði með óeðlileg afskipti af starfsemi Samkeppniseftirlitsins. Þessa umsögn er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo að þeir geri við þetta verulegar athugasemdir.

Þá segir áfram í áliti ASÍ:

„16. gr. frumvarpsins hefur sama tilgang og 17. gr. gildandi samkeppnislaga. Þó hefur sú mikilvæga breyting verið gerð að c-liður gildandi 17. gr. er felldur brott en í 17. gr. segir: „Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn: … c. aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni.“ ASÍ telur að með því að fella brott c-lið 17. gr. verði úrræði samkeppnisyfirvalda til að bregðast við fákeppni og öðrum markaðsbrestum mun veikari en nú er. ASÍ leggur því áherslu á að bætt verði við 16. gr. frumvarpsins nýjum lið sem verði samsvarandi og c-liður 17. gr. gildandi laga.“

Þetta eru sömu sjónarmið og 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur haldið fram alveg frá upphafi, að með því að fella þessa heimild brott sé verið að veikja lögin. Aðrar heimildir sem verða til staðar, ef svo kynni að fara að þetta frumvarp yrði að lögum, eru þegar til staðar í gildandi lögum. Hér er aðeins verið að fella brott eina heimild og því höfum við sagt fullum fetum: Ef stjórnsýslukaflinn er undanskilinn er verið að veikja lögin.

Áfram segir í áliti ASÍ, með leyfi forseta:

„Samkvæmt tillögum í skýrslunni um íslenskt viðskiptalíf segir: „Lagt er til að samkeppnisyfirvöldum verði veittar ríkari heimildir til vettvangsrannsókna, þar á meðal á heimilum, landsvæðum eða flutningatækjum í eigu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis og samtaka fyrirtækja. Nefndin leggur þó áherslu á það að vettvangsrannsóknir megi ekki framkvæma nema fyrir liggi dómsúrskurður, sem og að fundin verði leið til að lögreglan, en ekki starfsmenn samkeppniseftirlits, geti séð um framkvæmd vettvangsrannsókna sem fram fara utan starfsstöðva fyrirtækis.“

Í drögum að nýjum samkeppnislögum sem kynnt voru 30. september 2004 var ákvæði í samræmi við framangreinda tillögu og heimilaði samkeppnisyfirvöldum að gera húsleit á öðrum stöðum en starfsstöð viðkomandi fyrirtækis, þar á meðal á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna. Í frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir Alþingi er þetta ákvæði fellt út. ASÍ telur nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld hafi víðtækar rannsóknarheimildir.

ASÍ leggur því til að á eftir 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins komi ný málsgrein“ sem hljóðar eins og þar segir.

Hér er ASÍ að taka enn frekar undir þær hugmyndir sem 1. minni hluti hefur í efnahags- og viðskiptanefnd um mikilvægi þess að rannsóknarúrræði séu sem víðtækust og best. Hér er um mjög alvarleg brot að ræða. Það hefur verið athyglisvert í umræðunni hvernig því hefur verið fleygt á loft að samkeppnisyfirvöld fari inn á starfsstöðvar bara þegar þeim dettur í hug. Þannig er það ekki. Samkeppnisstofnun fer aðeins inn á starfsstöðvar að undangengnum dómsúrskurði og hefur heldur ekki gert það nema með aðstoð lögreglu. Það hefur verið afar misvísandi og til þess fallið að draga umræðuna niður þegar því hefur verið haldið fram að samkeppnisyfirvöld hafi farið inn á starfsstöðvar hvenær sem þeim hefur hugnast að gera það. Þau hafa í öllum tilvikum unnið samkvæmt gildandi reglum og lögum um meðferð opinberra mála. Öll umræða um að hættan sé sú að starfsmenn samkeppnisyfirvalda verði úti um allt, hjá ættingjum, fjarskyldum og náskyldum, í sveitum, þéttbýli og dreifbýli, leitandi að gögnum er vitaskuld úr öllu samhengi tekin. En þetta eru m.a. þau rök sem menn hafa sett fram í því skyni að koma í veg fyrir að íslensk samkeppnisyfirvöld hafi sömu heimildir og Eftirlitsstofnun ESA hefur á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvers vegna er ekki hægt að treysta íslenskum samkeppnisyfirvöldum fyrir sömu heimildum og erlendar eftirlitsstofnanir hafa? Ég ætla að leyfa mér að fullyrða, eins og ég gerði hér áðan, að ef forstjórar fyrirtækja eru í svipuðu verðsamráði og raun bar vitni í olíumálunum verða gögn þar að lútandi ekki geymd á starfsstöðvum. Þau verða geymd annars staðar. (PHB: … Og hvar verða þau þá geymd?) Þau verða alveg örugglega ekki geymd á starfsstöðvum enda … (PHB: Ekki hjá ömmu heldur?) Ég á eftir að fara yfir það. Síðar í máli mínu mun ég fara yfir dæmi um þá hugmyndaauðgi sem menn hafa haft í Evrópu þegar þeir hafa falið samráðsgögn sem þeir hafa ekki viljað að samkeppnisyfirvöld kæmust í. Hugmyndaauðgin í þeim efnum er langt umfram það sem mér og hv. þm. Pétri H. Blöndal hefur nokkurn tíma getað komið til hugar. Meðal annars má nefna að dæmi eru einmitt um að samráðsgögn hafi verið geymd hjá ömmu uppi á háaloftinu en ég mun koma að því síðar þegar … (Gripið fram í.) Ég mun fara frekar yfir það.

Það er athyglisvert hins vegar í ljósi þess hve gríðarlega alvarleg brotin á samkeppnislögum eru, hvað hér er um stóra hagsmuni að ræða, að verið sé að tóna eftirlitið niður, takmarka rannsóknarúrræðin. Hvað kallar á að takmarka þurfi rannsóknarúrræði umfram það sem varðar önnur brot á íslenskum lögum þegar brot geta verið jafnstór og raun ber vitni og mikil, upp á marga milljarða, þ.e. þegar verðsamráðið er þess eðlis að miklir fjármunir eru hafðir af almenningi? Af hverju eru þessi brot álitin hafa minna vægi en ýmis önnur brot? Ef grunur leikur t.d. á um að einhver hafi brotist inn, tekið gögn og farið með þau eitthvert annað en heim til sín eru engar takmarkanir fyrir því að hægt sé að fá húsleitarheimild til að kanna hvort þýfið kunni að finnast annars staðar en heima hjá eða á starfsstöð viðkomandi. (Gripið fram í.) Það eru engin takmörk fyrir því. Af hverju er verið að takmarka þetta hér þegar um jafnalvarleg brot er að ræða? (PHB: Ekki lögregluna.) Hvers vegna er verið að takmarka þetta með þessum hætti? Hv. þingmaður kallar fram í: Ekki með lögregluna. Eitt af því sem sett hefur verið fram í þessari umræðu er að nú sé að störfum nefnd sem fjallar eiginlega um verkaskiptingu milli lögreglu og samkeppnisyfirvalda. Samkeppnisyfirvöldum er ætlað að fara með þennan málaflokk og rannsaka brot gegn þessum lögum. Það verður ekki hægt að hlaupa út og suður og biðja hinn og þennan um dómsúrskurð til að fara inn á annað en starfsstöðvar ef uppi eru hugmyndir eða grunur um að alvarleg brot hafi verið framin.

Hugmyndin sem hér liggur fyrir er sú að tóna þessi alvarlegu brot niður sem er, eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni, í andstöðu við þá þróun sem hefur átt sér stað alveg frá 1993 þegar samkeppnislögin fyrst voru sett. Allar breytingar sem hafa verið gerðar frá þeim tíma hafa verið til þess fallnar að styrkja lögin. En nú ber annað við.

Áfram segir í umsögn ASÍ, nú um IX. kafla sem fjallar um viðurlög, með leyfi forseta:

„ASÍ telur að ákvæði frumvarpsins um viðurlög séu með öllu óásættanleg. ASÍ gerir þá kröfu að inn í samkeppnislög verði sett ákvæði um skilyrðislausa upptöku ólögmæts ávinnings brotaaðila. Í refsilögum er almennt við það miðað að ávinningur brotamanns sé í öllum tilvikum gerður upptækur. Það er því eðlilegt að ákvæði þessa efnis verði sett í samkeppnislög. Það er með öllu óviðunandi að brotaaðili hagnist á broti sínu jafnvel þó að það sannist. Til viðbótar upptöku ólögmæts ávinnings af broti þurfa að koma ákvæði um eðlilegar sektir, þannig að brotlegt fyrirtæki skili ekki einungis ávinningi sínum af brotinu heldur skaðist einnig af háttsemi sinni.“

ASÍ tekur einnig undir sjónarmið 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, eins og ég vék að hér áðan, þ.e. að það sé mikilvægt að Samkeppniseftirlit geti hverju sinni skotið úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla og leggur til að lögunum verði breytt í þá veru.

Engar af þeim hugmyndum sem stærstu samtök launamanna í landinu leggja til hafa svo mikið sem komið til álita hjá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Hvergi er að finna í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir hugmyndir sem koma til móts við viðhorf stærstu samtaka launamanna í landinu. Hugmyndum Verslunarráðsins og Samtaka atvinnulífsins um að takmarka rannsóknarúrræði er hins vegar fylgt eftir í hvívetna. Einn ágætur þingmaður orðaði það líka svo í umræðu um daginn: Við höfum ekki orðið mikið varir við baráttumenn frá þessum samtökum á þingpöllum enda nægt framboð af fulltrúum þeirra hér í umræðunni og við afgreiðslu þingmála. Við höfum ekki séð þá fylla bekkina og pallana á hinu háa Alþingi.

Áfram, virðulegi forseti, ætla ég að leyfa mér að rekja umsagnir sem hafa komið frá samtökum launamanna sem eðli málsins samkvæmt hafa miklar áhyggjur af því hvernig samkeppnislög koma til með að líta út þegar og ef nýtt frumvarp þar að lútandi verður samþykkt.

Í umsögn frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta er liður í grundvallarbreytingum sem fyrirhugaðar eru á sviði samkeppniseftirlits og neytendaverndar. … BSRB telur að meginmarkmið lagabreytinganna séu eftirsóknarverð en varar við of miklum hraða við þessar breytingar. BSRB hefur átt viðræður við fulltrúa annarra samtaka launafólks og Neytendasamtökin og var það samdóma álit þessara aðila að fyrirhugaðar lagabreytingar væru svo óljósar um margt að eðlilegt væri að gefa þessu viðfangsefni betri tíma.

BSRB leggur áherslu á að þegar gerðar eru breytingar á sviði neytendaverndar eigi að huga vel að áherslum verkalýðshreyfingar og þá ekki síður Neytendasamtakanna.“

Þetta er athyglisvert sjónarmið, (Gripið fram í.) sérstök áhersla er lögð á að hlýtt sé á verkalýðshreyfinguna og Neytendasamtökin (Gripið fram í.) en í þessu máli eins og flestum náðu þau sjónarmið ekki augum og eyrum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. (PHB: … Meira rugl.) Það er afar mikilvægt að hafa hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar sem virðist stunda það sama hér á þinginu og hann gerir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. að grípa sífellt fram í fyrir þeim sem hefur orðið (DJ: Það gerir þú aldrei, ha?) hverju sinni og heyri ég að hv. varaformaður nefndarinnar tekur undir þessi sjónarmið. Það er ánægjulegt að (Gripið fram í.) fulltrúar stjórnarflokkanna skuli loksins haldast hönd í hönd í einhverju tilteknu máli og ber kannski sérstaklega að fagna því. (KHG: … efnahag …) BSRB leggur … Ég heyri að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson leggur hér orð í belg og var kannski fullt tilefni til.

En áfram segir BSRB:

„Spyrja má hvort ekki væri eðlilegt að stjórn stofnunarinnar væri fjölmennari í ljósi mikilvægis og að tilnefningaraðilar kæmu að skipan í stjórnina í stað þess að fela ráðherra einum tilnefningarvaldið. Þá væri eðlilegt að gera þær kröfur til stjórnarmanna að þeir hefðu engin eigna- eða viðskiptatengsl sem gætu orkað tvímælis.“

Hér eru uppi sömu sjónarmið og við höfum haft í minni hlutanum í þessari umræðu. Við teljum afar mikilvægt að samsvarandi ákvæði séu um þessa tilteknu stjórn eins og gilda núna um formann og varaformann samkeppnisráðs. Það hefur komið fram í umræðunni að meiri hlutinn á hinu háa Alþingi treystir sér ekki til að finna nokkurn mann sem uppfyllti þau skilyrði (Gripið fram í.) að hafa engin eigna- eða viðskiptatengsl sem orkað gætu tvímælis.

„BSRB gerir alvarlega athugasemd við 6. gr. frumvarpsins sem veitir stjórninni heimild til að ákvarða kjör forstjóra. Skýra þarf hvers vegna forstjóri þessarar stofnunar eigi að lúta öðrum reglum en almennt gerist hjá hinu opinbera. Hvers vegna á þessi einstaklingur ekki að heyra til sama kjaraumhverfis og annað starfsfólk í almannaþjónustu?“

Þetta er afar athyglisvert sjónarmið og ég geri ráð fyrir því að við eigum eftir að hlýða á það síðar í umræðunni að meiri hlutinn sem að þessu frumvarpi stendur muni útskýra mjög vandlega fyrir okkur hvaða hugmyndir búi að baki því að þessi leið sé farin í þessu tiltekna frumvarpi. (Gripið fram í.)

„Í 7. gr. frumvarpsins segir að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á sviði samkeppnismála. Þetta er sjálfsögð krafa,“ segir BSRB og hægt er að taka undir það. „Því er síðan hnýtt við að forstjórinn skuli hafa háskólamenntun án þess að það sé skilgreint nánar á hvaða sviði hún skuli vera.“

Það er orðin mikil lenska í frumvörpum sem koma frá hæstv. ríkisstjórn að tilteknir forstjórar eða starfsmenn sem skulu ráðnir skuli hafa háskólapróf án þess að það sé skilgreint nokkuð frekar. Hvort háskólapróf í grísku eða dönsku skili mönnum mikið áfram í þessu efni veit ég ekki eða hvort hér er verið að sníða reglurnar að einhverjum tilteknum einstaklingum sem menn geta séð fyrir að kunni að geta fengið það starf þekki ég heldur ekki. En það er afar sérstakt að þetta skuli vera gert með þeim hætti sem hér er að gerast aftur og aftur.

„Þetta er fráleitt ákvæði sem ratar þó inn í alla löggjöf sem frá Alþingi kemur nú um stundir og virðist fyrst og fremst eiga að útiloka allt fólk frá embættum hjá hinu opinbera sem ekki hefur háskólagráðu upp á vasann. Þessu mótmælir BSRB.

27. gr. frumvarpsins virðist heimila framsal dómsvalds úr landi en fram til þessa hafa íslenskir dómstólar ekki verið bundnir með svo afgerandi hætti af erlendum dómsniðurstöðum. Þetta ákvæði hlýtur að þurfa rækilegrar skoðunar við áður en það er fest í lög.

Í ákvæði til bráðabirgða segir að starfsmönnum Samkeppnisstofnunar skuli boðið annað starf hjá þeim stofnunum sem taka við verkefnum stofnunarinnar. Hér þarf að standa sambærilegt starf.“

Í efnahags- og viðskiptanefnd fór fram talsverð umræða um þennan tiltekna þátt, þ.e. af hverju starfsmönnum er ekki boðið sambærilegt starf. Rökin sem sett voru fram voru þau að það væri stefna ríkisstjórnarinnar í þessum málum, þegar verið væri að leggja niður stofnanir og setja aðrar á fót, að hafa ekki svona ákvæði inni. Gott og vel, en það er athyglisvert í frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu um Ríkisútvarpið að þar er kveðið á um hið gagnstæða þannig að sú röksemdafærsla að ríkisstjórnin hafi þessa stefnu heldur ekki. Það er kannski það sem kemur minnst á óvart í þessari umræðu, þ.e. að röksemdafærsla meiri hlutans hér á hinu háa Alþingi haldi ekki. Það verður að telja miklu eðlilegra, og líklegri niðurstöðu að þar rekist hvað á annars horn í þessum efnum. Þetta er athyglisvert og munum við sjálfsagt kalla eftir skýringum á því síðar í umræðunni, einkanlega hjá hæstv. viðskiptaráðherra þar sem þetta kemur fram. Það tengist því að sjálfsögðu. Við höfum reynt að kalla eftir svörum við því hvort ætlunin sé að forstjóri Samkeppnisstofnunar haldi áfram starfi sínu, nýti þá þekkingu sem hann hefur aflað sér í þessu starfi og fái að njóta þess árangurs sem hann hefur náð í starfi. Við höfum kallað eftir því en því miður höfum við engin önnur svör fengið en þau að það sé mikilvægt að ráða stjórn sem fyrst sem geti ráðið forstjóra því að hann þurfi að kynnast starfseminni og starfsmönnunum, eins og fram kom í umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. En við munum kalla eftir frekari skýringum um þetta þegar á umræðuna líður, virðulegi forseti.

Ég er þá kominn hér að umsögn Neytendasamtakanna en þau lýsa því yfir að þau styðji frumvarpið í meginatriðum, eins og hér hefur verið kallað fram í, en gera engu að síður verulegar athugasemdir við frumvarpið sem ekki hefur verið horft mikið til frekar en annarra hugmynda sem hafa komið frá almannasamtökum og samtökum launamanna.

Í umsögn Neytendasamtakanna segir m.a., með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin hafa frá því að samtökin gáfu fyrst umsögn um frumvarp til samkeppnislaga talið óþarft að hafa sérstaka stjórn Samkeppnisstofnunar. Neytendasamtökin eru enn sama sinnis. Neytendasamtökin telja eðlilegt að forstjóri Samkeppniseftirlits sé skipaður af ráðherra.

Vert er að vekja athygli á því að starf forstjóra Samkeppniseftirlits er viðkvæmt starf og nauðsynlegt er að setja ákveðna lagavernd fyrir þann einstakling sem gegnir því starfi til þess að hann geti rækt starf sitt sem best og njóti starfsöryggis. Af þeim sökum telja Neytendasamtökin að forstjóri Samkeppnisstofnunar eigi að hafa svipaða lagavernd og hæstaréttardómarar njóta í dag.“

Þetta er afar athyglisvert sjónarmið sem Neytendasamtökin setja fram og mundi algjörlega ná yfir það sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur leyft sér að tala um, þ.e. að þetta fyrirkomulag sem hér er uppi muni tryggja sjálfstæði forstjórans og stöðu hans. Neytendasamtökin hafa komið fram með hugmynd sem mundi tryggja þá stöðu enn betur ef sá væri hinn raunverulegi vilji. En það er með þessar hugmyndir eins og aðrar sem koma frá almannasamtökum og samtökum launamanna að ekki hefur þótt ástæða til að skoða þetta.

„Neytendasamtökin telja eðlilegt að forstjóri Samkeppniseftirlitsins fari með mál stofnunarinnar og stofnunin sinni verkefnum sínum með sama hætti og t.d. umboðsmaður Alþingis gerir. Stjórn Samkeppniseftirlits er í raun óþörf og er eingöngu til þess fallin að draga úr skilvirkni. Af þeim sökum ítreka Neytendasamtökin þá afstöðu sína að engin þörf er á að hafa sérstaka stjórn yfir Samkeppniseftirlitinu og það þjónar þeim eina tilgangi að gera stjórnkerfið flóknara og skapar jafnvel erfiðleika vegna hugsanlegra tengsla einstakra stjórnarmanna við aðra hagsmuni en þá sem að Samkeppniseftirlitið á að sinna.“

Þau sjónarmið sem hér koma fram eru í reynd sjónarmiðin sem hæstv. viðskiptaráðherra byggir á og sem hún notar til skýringar á nauðsyn þess að skera upp stjórnsýsluna í Samkeppnisstofnun, þ.e. að hún sé of flókin og ekki nægjanlega skilvirk, það sé ekki nægjanlega gott að hafa Samkeppnisstofnun og svo samkeppnisráð. Hvað er síðan gert þegar vinna á úr þessum hugmyndum? Nákvæmlega sama skipulagið er endurskapað að undanskildu því að í stað samkeppnisráðs kemur stjórn og stjórninni er ætlað að hafa daglegt eftirlit með störfum Samkeppniseftirlitsins. Rökin sem notuð eru í upphafi, og reyndar fengin að láni hjá forstjóra Samkeppniseftirlitsins á jafnósmekklegan hátt og raun ber vitni og ég rakti hér áðan, halda engu í þessari umræðu.

„Neytendasamtökin telja óeðlilegt að Hæstiréttur tilnefni menn í áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Neytendasamtökin telja að Hæstiréttur eigi að gegna starfi sínu sem dómstóll en ekki að starfa að stjórnsýsluverkefnum. Slíkt er með öllu óeðlilegt. Neytendasamtökin leggja því til að skipun í áfrýjunarnefnd samkeppnismála verði með þeim hætti að ráðherra skipi til 5 ára í senn þrjá starfandi héraðsdómara og þrjá til vara til að sitja í áfrýjunarnefnd samkeppnismála og skulu þeir hafa góða þekkingu á samkeppnismálum.

Nauðsynlegt er að ráðning forstjóra Samkeppniseftirlitisins og skipan í áfrýjunarnefnd samkeppnismála sé með þeim hætti að hafið sé yfir vafa að þar sé faglega staðið að verki. Neytendasamtökin telja að hér sé svo mikilvægur málaflokkur að flokkspólitískir hagsmunir verði ávallt að víkja fyrir almannahagsmunum þegar um samkeppnismál er að ræða.“

Neytendasamtökin telja að hér sé svo mikilvægur málaflokkur á ferðinni að flokkspólitískir hagsmunir megi aldrei dragast inn í þessa umræðu og að almannahagsmunir verði ætíð að ganga framar. Það er athyglisvert að Neytendasamtökin skuli draga þetta sjónarmið fram hér í umræðu um breytingar á samkeppnislögum og þá væntanlega byggir það á því að samtökin hafi af því áhyggjur að flokkspólitískir hagsmunir muni í einhverjum tilvikum verða settir ofar almannahagsmunum.

Áfram segir í athugasemdum Neytendasamtakanna — athugasemdir sem Neytendasamtökin gera reyndar um 16. gr. frumvarpsins eru þær sömu og aðrir hafa gert og 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar líka, þ.e. að afar mikilvægt sé að núgildandi 17. gr., sem hefur verið orðuð svo, verði áfram inni í lögunum en ekki felld brott eins og hér eru hugmyndir uppi um.

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann muni senn ljúka ræðu sinni.)

Nei, það er talsvert eftir.

(Forseti (HBl): Þá verður gert hlé á fundinum, matarhlé, til klukkan hálftvö.)