Samkeppnislög

Laugardaginn 07. maí 2005, kl. 18:25:04 (8290)


131. löggjafarþing — 125. fundur,  7. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það skyldi þó ekki vera að áhrifin af ákvæðinu, að hafa það í lögunum, hafi virkað. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra kallaði ákvæðið bastarð áðan. Hvenær kom það í samkeppnislögin? Það kom í samkeppnislögin þegar Halldór Ásgrímsson, núverandi forsætisráðherra, var formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Tók hann inn þennan bastarð sem hæstv. ráðherra kallar svo?

Ég vil spyrja ráðherrann af því hún hefur ekki svarað mér um starfsfólkið og þetta ákvæði til bráðabirgða: Telur ráðherrann eðlilegt að stjórn Samkeppnisstofnunar, sem er pólitískt skipuð, ráði starfsfólkið, forstjórann og starfsfólkið sem forstjóri á að ráða? Hér er um að ræða stjórn sem hugsanlega hefur hagsmuna að gæta af því hverjir verða skipaðir í hinar ýmsu stöður í Samkeppnisstofnun. Telur ráðherrann virkilega eðlilegt að það verði stjórn stofnunarinnar í upphafi sem skipar allt starfsfólk stofnunarinnar en ekki forstjóri? Ég óska eftir svörum við þessu, virðulegi forseti.