Samkeppnislög

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 12:23:46 (8319)


131. löggjafarþing — 126. fundur,  9. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[12:23]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var alla vega ánægjulegt að fá það fram í morgun að hæstv. viðskiptaráðherra skuli nú hafa viðurkennt að hér er verið að veikja lögin og auðvitað mun sá tími renna upp í þessari umræðu að fleiri munu fylgja í hennar fótspor. Ég geri mér alveg fyllilega grein fyrir því að auðvitað er erfitt fyrir hv. þingmann að reyna að halda því fram hér í umræðunni að svo sé ekki þegar veruleikinn er sá að það er verið að taka heimildir og tæki út úr gildandi lögum með breytingu á lögunum og það þýðir einfaldlega veiking.

Auðvitað getur hv. þingmaður barið hér endalaust höfðinu við stein og sagt að svar sé ekki svart og hvítt sé ekki hvítt. Auðvitað getur hann haldið því áfram og auðvitað vorkennum við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar honum fyrir að þurfa að standa hér og halda uppi þessum málflutningi. En ég leyfi mér að fullyrða að á endanum muni hv. þingmaður sem hefur margt til brunns að bera viðurkenna það hér í þessari umræðu að verið er að veikja lögin og að menn láti af þeim málflutningi sem hér hefur verið uppi af hálfu meiri hluta stjórnarliðsins.