Neytendastofa og talsmaður neytenda

Mánudaginn 09. maí 2005, kl. 17:59:24 (8361)


131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[17:59]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega hefur Alþingi lokaorðið við setningu löggjafarinnar. Það fer ekkert á milli mála. En þá ber nýrra við ef ekki er tekið tillit til umsagnaraðila sem við tökum tillit til í vinnu okkar alla daga í þingnefndum Alþingis. Ég sit í þremur þingnefndum, þar er tekið ríkt tillit til þess sem kemur fram í máli sérfræðinga á hverju sviði, m.a. ef það eru starfsmenn ráðuneyta en einnig sérfræðingar frá ríkisstofnunum sem hafa faglega þekkingu á því sem verið er að fjalla um.

Ég held því ekki fram, herra forseti, að það þýði að allt sé tekið gott og gilt sem þaðan kemur af því að það er ekki þannig og við vitum öll að í umfjöllun um mál er það ekki þannig. En þegar lögð eru fram vel ígrunduð, rökstudd og skynsamleg rök, eins og ég held fram að sé gert í þessu máli frá t.d. bæði Samkeppnisstofnun og Neytendasamtökunum, þá ber okkur auðvitað skylda til að íhuga það mjög alvarlega vegna þess að ég held að það sé hluti af hinni faglegu og síðar pólitísku ákvörðun. Það er í raun og veru ekki hægt að gera svo skýr skil þar á milli. En auðvitað er það ábyrgð stjórnmálamannanna þegar allt kemur til alls hvaða ákvörðun er síðan tekin en hún hlýtur að vera byggð á faglegum grunni og með almannahagsmuni að leiðarljósi. Þess vegna lýsi ég því enn og aftur yfir að mér finnst það ekki hafa verið gert í þeirri niðurstöðu sem hér hefur verið fengin af meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Það hefur valdið mér vonbrigðum en það verður auðvitað að koma í ljós hvernig það síðan æxlast.