Merkingar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu

Þriðjudaginn 10. maí 2005, kl. 11:51:49 (8477)


131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Merkingar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu.

753. mál
[11:51]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra. Hún varðar endurheimtur á fiskmerkjum. Hvers vegna er ég að spyrja að því? Jú, endurheimtur á fiskmerkjum geta gefið mikilvægar upplýsingar um hversu stórt hlutfall fisks deyr af völdum veiða, en það kallast fiskveiðidánartala. Það hafa verið miklar deilur í þjóðfélaginu um hver fiskveiðidánartalan sé en samkvæmt aflareglu á hún að vera í kringum 25%. Þess vegna er mjög fróðlegt að bera saman hvort merkingar endurheimtist í einhverjum svipuðum mæli og menn telja að fiskveiðidánartalan sé. Ef það er sambærilegt sem endurheimtist af merkjum við fiskveiðidánartöluna þá ætti þetta að vera svipað. Þá ætti að endurheimtast 25% af merkjum. Til þess að fá upplýsingar um þetta hef ég beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra:

1. Hvaða merkingar hafa verið stundaðar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu frá árinu 1995? Hve mikið hefur verið merkt í hverju merkingarverkefni, hverjar eru niðurstöður þeirra verkefna sem lokið er og hverjar eru endurheimtur til dagsins í dag í verkefnum sem enn standa yfir?

2. Hvaða skýrslur og ritgerðir hafa birst um merkingar frá árinu 1995 til þessa dags og hvar er hægt að nálgast þær?

3. Er þess að vænta að niðurstöður birtist á vef Hafrannsóknastofnunarinnar í aðgengilegum gagnagrunni?

4. Hvernig miðla útibú Hafrannsóknastofnunarinnar upplýsingum til sjávarútvegsins ef þau senda ekki frá sér skýrslur?

Við höfum verið gagnrýndir í stjórnarandstöðunni með mjög ósanngjörnum hætti fyrir að vera á móti hafrannsóknum vegna þess að við viljum ekki að öllum fjármunum sem er varið til hafrannsókna sé eingöngu varið til Hafrannsóknastofnunar og viljum að sjálfstæðir vísindamenn hafi aðgang að gögnum og geti metið þær forsendur sem m.a. veiðiráðgjöf gengur út frá. En staðreyndin er að sú veiðiráðgjöf hefur ekki skilað þjóðinni miklu. Eftir að aflaregla sem ég nefndi fyrr í ræðunni var tekin upp þá er aflinn 100 þúsund tonnum minni í þorski en áður en aflareglan var tekin upp. Þessi regla var tekin upp til að byggja upp þorskstofninn. En alltaf fáum við skýrslur um að þorskstofninn sé á niðurleið og við viljum skoða þau gögn (Forseti hringir.) sem liggja þar til grundvallar, frú forseti.