Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 11. maí 2005, kl. 20:27:06 (8648)


131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Mat á umhverfisáhrifum og skipulags- og byggingarlög.

235. mál
[20:27]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sá sérstaka ástæðu til að þakka þeim sem voru sammála honum fyrir málefnalega afstöðu í þessu máli og að þeir hafi unnið málefnalega. Ég vil láta þess getið að mér finnst hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafa unnið mjög málefnalega þó að hún sé ósammála þessari niðurstöðu meiri hlutans. Það þarf ekki að fara saman og ég vonast til þess að formaður nefndarinnar átti sig á því.

Ég styð ekki þetta frumvarp. Ég geri það ekki endilega á einhverjum ómálefnalegum forsendum. Ég hef tekið málefnalega afstöðu til frumvarpsins og mér finnst skorta á ýmsa þætti í því. Það er einkum tvennt. Áður en ég fer yfir það vil ég ítreka hér að þetta frumvarp um mat á umhverfisáhrifum er í rauninni eingöngu leið eða skipulag á því hvernig ákveðnir pappírar fara í gegnum umhverfismatskerfið. Það er ekki verið að breyta mati á því hvort einhver framkvæmd sé góð eða vond fyrir umhverfið. Það breytist ekkert við þessa skipulagsbreytingu. Þetta er eingöngu skipulagsbreyting á ferli í gegnum pappírsmylluna í kerfinu. Ég held að menn verði að gera sér það ljóst að hér er ekkert verið að herða eða veikja umhverfismatið, heldur er verið að breyta því að í stað þess að Skipulagsstofnun kveði upp úr með ákveðinn úrskurð er það fært til pólitískra fulltrúa. Ég get tekið undir að það sé að mörgu leyti skynsamlegra en að láta embættismenn taka þá ákvörðun.

Það sem vantar tilfinnanlega í þennan málaflokk, og ég hafði bundið sérstakar vonir við að núverandi hæstv. umhverfisráðherra bætti úr, er traust. Það er átakanlegt að sitja á fundum umhverfisnefndar þegar menn takast svo gríðarlega á og það er svo lítið traust á milli manna. Það er eins og að fyrri umhverfisráðherra hafi einhvern veginn glatað trausti allra umhverfissamtaka þannig að menn eru mjög tortryggnir í garð allrar löggjafar og kerfisins í þessum málaflokki. Það hefði verið kjörið tækifæri fyrir núverandi hæstv. umhverfisráðherra að reyna að endurvinna traust þessara samtaka en ég tel að með nýlegri yfirlýsingu sinni hafi hún fyrirgert tækifærinu. Hún kastaði algerri rýrð á eina meginstofnun sína, Umhverfisstofnun, gaf ekkert fyrir málefnalega röksemdafærslu fyrir áliti á ákveðnum málaflokki — hér á ég við vatnalögin — og sagði að hún hefði farið út fyrir valdsvið sitt. Ég tel þetta mjög alvarlegt vegna þess að í rauninni er verið að gefa skýr skilaboð: Ekki taka málefnalega afstöðu. Standið með minni pólitísku sýn. Ekki fara eftir faglegri sýn á hlutina.

Það er mjög alvarlegt.

Það sem ég set fyrst og fremst spurningarmerki við í frumvarpinu er að verið er að leggja á herðar minni sveitarfélaga að taka afstöðu án þess að það sé tryggt að minni sveitarfélög, t.d. í kjördæmi mínu, Norðvesturkjördæmi, hafi bolmagn til að fara í gegnum þessa pappírsmyllu og þetta ferli sem er mjög þungt. Ég er viss um að þeir sem fylgjast með þessari umræðu eiga oft og tíðum erfitt með að átta sig á hvað er í gangi, hvaða skýrsla sýnir hvað og hvað einhverjar úrskurðarnefndir gera. Ég tel að það verði ákaflega erfitt fyrir minni sveitarfélög sem hafa yfir takmörkuðu starfsfólki að ráða, fagfólki, og einnig takmörkuðum fjármunum að takast á við hlutina þegar þeir lenda í hnút.

Það er annað sem mér finnst líka á vanta og það varðar 13. gr., það að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Þegar leyfisveitandi á að gefa út leyfi á hann að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Þetta er svo sem ágætissetning en við vitum samt ekki hvað hún þýðir nákvæmlega. Ég tel að í framtíðinni verði tekist á um það hvað hún þýði. Til að skýra þessa grein fyndist mér rétt að menn tækju nú til máls og færu lítillega yfir það hvað þetta þýðir nákvæmlega.

Að lokum vil ég nefna að í þessum málaflokki, umhverfismálunum, er mjög brýnt fyrir stjórnvöld að reyna að sjá til þess að ekki verði svona hörð átök og stöðugir útifundir um framkvæmdir og eitt og annað. Þau verða að reyna að endurnýja traustið.