Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 2004, kl. 20:16:21 (16)


131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:16]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Þetta var athyglisverð ræða. Hún var ekki síst athyglisverð fyrir það sem ekki stóð í henni. Hún rifjaði það upp að fyrir nokkru síðan flutti annar forsætisráðherra aðra ræðu, það var Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Hann upplýsti það í ræðu sinni að hann bæri ábyrgð á röngum og villandi upplýsingum sem hefðu að hluta til leitt til innrásarinnar í Írak. Og forsætisráðherra Bretlands baðst afsökunar á því.

Halldóri Ásgrímssyni urðu líka á þau skelfilegu mistök að hann átti þátt í því að Ísland var sett á lista yfir þær þjóðir sem studdu innrásina í Írak. Og Halldór Ásgrímsson upplýsti rétt eftir að hann varð forsætisráðherra að það hefði m.a. verið gert vegna þess að hann hefði fengið villandi upplýsingar. En Halldór Ásgrímsson baðst ekki afsökunar í ræðu sinni hér í kvöld. Í ræðunni nefndi hann Írak ekki einu orði og ræðu hans hérna í kvöld verður fyrst og fremst minnst fyrir eitt, fyrir þögnina um Írak, fyrir þögnina um gereyðingarvopnin sem aldrei fundust, fyrir þögnina um ábyrgð Íslands, fyrir þögnina um ábyrgð hans sjálfs. Hvernig má það vera að nýr forsætisráðherra sem er að halda sína fyrstu stefnuræðu eyðir ekki orði til að ræða stöðu mála í Írak og þá ábyrgð sem við berum á því. Ég dreg þá ályktun eina af þessu, góðir Íslendingar, að skömm ríkisstjórnarinnar yfir þessu máli sé slík að sjálfur forsætisráðherrann skýlir sér í þögninni.

Við vitum öll að Írak er núna þjóð sem er sundurtætt af stríði og blóðsúthellingum. Bara í síðustu viku dóu 30 börn í Bagdad. Og þegar saklaust barn deyr í Bagdad þá ber ég sem Íslendingur mína ábyrgð á því, þá berum við, ég og þú sem ert að horfa eða hlusta, okkar ábyrgð. Það er sárt að finna til hennar og mér finnst það stundum þyngra en tárum taki. En ábyrgð okkar varð til vegna þess að ríkisstjórn Íslands tók ákvörðun um það að Ísland skyldi styðja innrásina. Og það var á því sem Halldór Ásgrímsson átti að biðjast afsökunar á í ræðu sinni í kvöld.

Við getum síðan, áheyrendur góðir, velt því fyrir okkur hvers konar lýðræði það er þegar tveir einstaklingar, tveir forustumenn geta tekið svo skelfilega ranga ákvörðun fyrir hönd heillar þjóðar — án þess að þurfa að spyrja nokkurn einasta mann. Í þessu speglast hin nýja meinsemd íslenskra stjórnmála. Lýðræðið hefur í reynd vikið fyrir nýju valdformi sem við köllum sum hver „ráðherraræðið“. Ríkinu er núna stjórnað með tilskipunum valdsherranna, lögum er þröngvað í gegnum þingið stundum í trássi við raunverulegan meiri hluta. Embættum er úthlutað eftir pólitískum hagsmunum, stundum í andstöðu við lög, ríkisfyrirtæki eru seld flokksgæðingum eða þá notuð í einkastríði við menn og fyrirtæki.

Auðvitað þekkjum við öll dæmin sem höfum tekið þátt í störfum hér í þessum sal. Ráðherraræðinu tókst næstum því að þröngva í gegn ólögum um fjölmiðla hér fyrr á árinu, lögum sem obbi þjóðarinnar var á móti, lögum sem u.þ.b. enginn þingmaður — ekki heldur í liði stjórnarinnar — hafði sannfæringu fyrir, og það var málskotsréttur forseta lýðveldisins sem þá bjargaði lýðræðinu í horn.

Hvernig bregst ráðherraræðið við því? Jú, nú ætla þeir líka að afnema málskotsréttinn, eða ég gat a.m.k. ekki lesið annað út úr þeirri ræðu sem forsætisráðherrann flutti áðan. Meira að segja síðasta vörn borgaranna, Hæstiréttur, er að komast undir hæl ráðherraræðisins. Þangað eru frændurnir skipaðir, þangað eru bridsfélagarnir skipaðir, jafnvel þó að lög séu þverbrotin, eins og jafnréttislög voru fyrr á þessu ári.

Ráðherraræðið birtist líka í einkavæðingunni þar sem Framsóknarflokkurinn fékk að ráðstafa vinum sínum öðrum ríkisbankanum og þar með milljarðagróða. Ráðherraræðið birtist líka í því að Sjálfstæðisflokkurinn misbeitir ríkisfyrirtækjum til að mynda blokk með Skjá 1 í sínu endalausa stríði við Norðurljósin. Þetta er meinsemdin, misbeiting pólitísks og efnahagslegs valds í stjórnmálum. Og ef menn voga sér að standa uppi í hárinu á ráðherraræðinu og hlýða sannfæringunni eins og stjórnarskráin þó býður okkur þá er þeim refsað grimmilega. Spyrjið Kristin H. Gunnarsson, sem situr hér í þessum sal — enn þá a.m.k.

Ráðherraræðið hefur í reynd tekið þingið í gíslingu, framkvæmdarvaldið allt er í höndum þess og það er komið með krumlurnar í dómstólana líka. Hvar er þá þrískipting ríkisvaldsins sem okkar lýðræðislega form á að byggjast á?

Ég verð að segja að dapurlegast af öllu finnst mér þó vera hlutskipti Framsóknarflokksins. Mér finnst að í öllum málum sé Framsókn að verða eins og ljósrit af Sjálfstæðisflokknum; Írak, fjölmiðlalögin, málskotsrétturinn, skattarnir, Hæstiréttur.

En í einu er þó munur. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hafnað því að lög verði sett um fjárreiður flokkanna, eins og reyndar öll stjórnarandstaðan vill. Það strandar bara á einum flokki, á Framsóknarflokknum. Er ekki kominn tími til að Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, segi það klárt og kvitt við hvað Framsóknarflokkurinn er hræddur? Af hverju má ekki setja lög um fjárreiður flokkanna?

Góðir Íslendingar. Í þessu ljósi tel ég það afskaplega brýnt að skapa almenningi og skapa Alþingi möguleika á að veita ríkisstjórnum stóraukið aðhald. Við þurfum að gera það með því að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur, við þurfum að gera það með því að taka upp opnar rannsóknarnefndir og við þurfum líka að veita það aðhald sem felst í því að segja skýrt í stjórnarskrá að sameiginlegar auðlindir okkar, ekki síst auðlindirnar í hafinu, séu þjóðareign alveg eins og Þingvellir, og við þurfum líka að setja það í stjórnarskrá að landið verði eitt kjördæmi.

Þetta eru þær áherslur sem flokkur jafnaðarmanna, Samfylkingin, flytur inn í þá endurskoðun stjórnarskrárinnar sem hér er boðuð. En við segjum líka annað. Við segjum: Það á ekki að loka þá endurskoðun inni í þröngum hópi, forskriftin á ekki að koma úr Stjórnarráðinu. Stjórnarskráin kemur okkur öllum við og þess vegna er það m.a. hlutverk okkar þingmanna að virkja þjóðina, virkja þjóðina alla til þess að fjalla með opnum hætti um það hvernig á að breyta stjórnarskránni. Það er lýðræði.

Góðir Íslendingar. Mér til vinstri handar situr fjármálaráðherrann. Það er árviss viðburður á hverju einasta hausti að þá þenur fjármálaráðherrann stélið í fjölmiðlum og bregður upp glansmynd af rekstri ríkisins þegar hann kynnir áformin í fjárlögum. En það er því miður sorgleg staðreynd að glansmyndir fjármálaráðherrans, glansmyndir Geirs Haardes, standast ekki veruleikann.

Á árunum 2000–2003 var samanlögð framúrkeyrsla í ríkisútgjöldum hvorki meira né minna en 113 milljarðar miðað við frumvarpið. Fjármálaráðherrann var ábyrgur fyrir því að á hverju ári var að meðaltali keyrt 28,3 milljarða fram úr áformunum sem hann leggur til í fjárlagafrumvörpunum. Á þessum sama tíma ætlaði fjármálaráðherrann líka að skila 75 milljörðum í afgang á ríkissjóði en hann brotlenti stéllaus með 10 milljarða halla í fanginu. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með nýjustu áformin.

En gallinn við áætlanir Geirs H. Haardes er átakanlegur. Þær hafa tilhneigingu til að vera víðs fjarri raunveruleikanum.

Góðir Íslendingar. Á síðustu árum hafa verið verulegar umræður um skattalækkanir og Samfylkingin telur að það sé svigrúm á næstu missirum og árum til að lækka skatta. En við viljum nota það svigrúm til þess að byrja að lækka skatta á þeim sem minnst hafa og mest þurfa á liðsinni að halda. Þess vegna vill Samfylkingin byrja á að nota þetta svigrúm til þess að lækka matarskattinn um 5 milljarða og við viljum afnema stimpilgjöld. Þannig vill Samfylkingin styðja við bakið á barnafjölskyldum og hún vill liðsinna þeim sem eru þessa dagana að endurfjármagna húsnæðislánin og eru að borga hundruð þúsunda í stimpilgjöld.

Þetta vill ríkisstjórnin ekki. Hún ætlar hins vegar að nota 4–5 milljarða til þess að lækka tekjuskatt þannig að þeir fá mest sem hafa mest, þeir fá minnst sem hafa minnst og þeir — og þeir eru til — sem eru svo illa settir í þjóðfélaginu að þeir borga enga skatta, þeir fá náttúrlega ekkert í sinn hlut.

Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar gefa ofurforstjórunum, eins og forstjóra Landssímans, eina sólarlandaferð í hverjum mánuði meðan grunnskólakennari í verkfalli fær einn bleyjupakka á mánuði. Ríkisstjórnin er þess vegna að gefa hátekjumönnum milljarða í skattalækkanir meðan hún svíkur samning við öryrkja, sem hún gerði sjálf, svo að nemur hálfum milljarði. Hæstv. forsætisráðherra spurði hérna áðan: Halda menn að önnur ríkisstjórn hefði gert betur? Halldór Ásgrímsson, við hefðum staðið við orð okkar. Við hefðum aldrei svikið öryrkja eins og þið eruð að gera.

Við jafnaðarmenn erum stoltir af því að við höfum átt þátt í því að byggja upp ríkt samfélag. En við vitum samt að það eru göt á velferðarkerfinu. Við vitum að við þurfum að gera betur, miklu betur við öryrkja, miklu betur við suma í hópi aldraðra, betur við einstæð foreldri. Og þetta er það sem við sem sitjum hér í þessum sal og tilheyrum mismunandi flokkum eigum að starfa saman að á næstu árum. Við eigum að nota svigrúmið sem er að verða til til þess að byggja upp samfélag samhjálpar og jöfnuðar. Og það getum við ef við reynum.

Góðir Íslendingar. Forsætisráðherrann gat þess réttilega að þessar umræður um hans fyrstu stefnuræðu færu fram í skugga alvarlegs verkfalls. Við vitum öll í hjarta okkar að kennarar eiga skilið að fá betri kjör en þeir hafa. Við höfum öll treyst þeim fyrir því sem er dýrmætast í lífi okkar — sem eru börnin okkar — við vitum öll að þetta verkfall þarf að leysa og það er hægt að leysa. En til þess þarf atbeina ríkisvaldsins.

Forsætisráðherrann sagði að það væri ljótur leikur að benda á þá staðreynd að ríkið bæri ábyrgð í þessu máli. En það er staðreynd. Núverandi ríkisstjórn breytti skattkerfinu þannig fyrir örfáum missirum að sveitarfélögin voru svipt fjármunum, sem þau hefðu ella getað notað til að komast hjá verkfalli. Þessi ríkisstjórn skapaði líka fordæmi þegar hún samdi við sína eigin kennara um kjör sem grunnskólakennarar eru núna að nota sem viðmiðun. Ríkisstjórnin verður þess vegna að axla ábyrgð og það gerir hún best með því að semja um betri og sanngjarnari tekjur handa sveitarfélögunum. Sveitarfélögin verða að geta staðið undir grunnþjónustu í samfélaginu eins og grunnskólunum.

Talað var um vald og ábyrgð í ræðu forsætisráðherra. Öllu valdi fylgir ábyrgð. En þeir sem fælast sína eigin ábyrgð eins og forsætisráðherra gerði í kvöld, eins og fjármálaráðherra hefur verið að gera undanfarna daga og menntamálaráðherra líka, eiga ekki að stjórna ríkinu. Það eru nógir aðrir til þess. — Ég þakka þeim sem hlýddu.