Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 2004, kl. 20:29:29 (17)


131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:29]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Það er óneitanlega tilbreyting að koma hér eftir að hafa flutt sautján stefnuræður í röð óbundinn af fyrir fram ákveðnum texta og mega spjalla við þingmenn og þjóðina laus við það. Að því sögðu vil ég leyfa mér á þessum vettvangi að óska hæstv. forsætisráðherra til hamingju með hans mikla starf og þakka honum flutning á athyglisverðri og efnismikilli stefnuræðu.

Ég vil líka geta þess að það æxlaðist þannig að aðeins voru fáeinir dagar til stefnu áður en húsbóndaskipti urðu í Stjórnarráðinu eða forsætisráðuneytinu. Ég hafði stefnt að því að fá forustumenn stjórnarandstöðunnar til að hitta mig saman en fyrirvarinn var það stuttur og menn dreifðir þannig að það náðist ekki. Erindið var tvíþætt. Annars vegar að þakka þeim hlýjar kveðjur sem mér höfðu borist frá þeim vegna persónulegra atvika sem orðið höfðu og hins vegar að þakka þeim samstarf við mig sem forsætisráðherra. Þetta kann að koma hlustendum á óvart vegna þess að það sem þeir hafa séð helst til stjórnarandstöðunnar er að hún hefur ráðist harkalega á mig sem er hluti af hennar starfsskyldum. Ég býst við að ef reikningarnir væru gerðir upp væru dálkarnir sjálfsagt svipaðir, debet- og kreditmegin því ég hef fengið að svara fyrir mig. Það sem blasir hins vegar ekki við á hverjum degi er það að forustumenn stjórnarandstöðunnar og forsætisráðherra, hver sem hann er, eiga margvíslegt ágætt samstarf og verða að eiga það og fyrir það vil ég þakka.

Ég vil einnig leyfa mér að nefna til sögunnar orð forseta Íslands á þessum vettvangi fyrir fáeinum dögum þar sem hann lét falla mjög vinsamleg og hlýleg orð í minn garð vegna þeirra breytinga sem orðið hafa. Það var þannig og er þannig að allra manna mest á opinberum vettvangi hafa forsætisráðherra og utanríkisráðherra samskipti við forseta Íslands og einkum þó forsætisráðherra. Menn vita að ég átti sem forsætisráðherra ágætt samstarf og mjög gott við frú Vigdísi Finnbogadóttur í upphafi starfsferils míns. En menn hafa hins vegar verið að gera því skóna, bæði í skrifum og dálkum og í spjallþáttum spekinganna að það kunni að vera að samstarf mitt við núverandi forseta hafi verið miklu lakara og slakara og erfiðara. Í rauninni er ekkert athugavert við slíkar spekúlasjónir og þær eru eðlilegar vegna þeirrar fortíðar sem báðir mennirnir áttu hvor á sínum stað. En það hefur samt sem áður verið þannig að samstarf mitt við núverandi forseta sem forsætisráðherra hefur verið með miklum ágætum og vil ég þakka honum fyrir það.

Auðvitað get ég ekki annað en nefnt að einn skugga hefur borið á það samstarf en við það ætla ég ekki að dvelja hér, ekki vegna þess að ég óttist það að ef ég dvel lengur við það atriði, þá fái menn einhvern fiðring í fæturna og hlaupi út úr salnum heldur vegna þess að ég tel að afstaða mín liggi ljós fyrir og hún sé þekkt, auk þess sem Halldór Blöndal, hæstv. forseti þingsins, hefur auðvitað með sínum hætti, myndarlegum og afgerandi, eins og hans er von og vísa, gætt stöðu og virðingar Alþingis.

Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra bar auðvitað á því að ríkisstjórnin hyggst hér eftir sem hingað til leggja ofurkapp á að varðveita stöðugleikann vegna þess að það er mikilvægast til lengdar fyrir alla sem þessa þjóð mynda.

Fjármálaráðherra hefur nýlega kynnt fjárlagafrumvarp með 11 milljarða kr. afgangi. Formaður Samfylkingarinnar gerði heldur lítið úr því áðan. Og þannig hefur verið að fréttamenn hafa verið að stilla upp myndum í sjónvarpi sem gætu sýnt það að þarna væri ekki allt sem sýndist þegar sýndur væri fjárlagaafgangur af þessu tagi, því þegar ríkisreikningurinn væri síðan tekinn og fjárlögin borin saman við ríkisreikninginn kæmi allt önnur mynd, þá blasti allt önnur mynd við. Mér dettur ekki í hug að fréttamennirnir séu vísvitandi að fara með rangt mál í þeim efnum eða draga upp villandi mynd en þannig gæti þetta blasað fyrir þeim sem ekki þekkja til. En hér er um tvo ólíka hluti að ræða og ríkisreikningurinn með þessum hætti gefur ekki neina þá mynd sem menn mundu geta ætlað og síðasti ágæti ræðumaður dró þá ályktun sem hann dró af.

Það er nefnilega þannig að þegar ríkisreikningurinn kemur og margvísleg óregluleg gjöld eru færð teknamegin og gjaldamegin inn í þá bók og ýmis önnur gjöld, til að mynda ráðstöfun á þeim afgangi sem varð í fjárlögunum, þá gefur það allt aðra mynd en fjárlagafrumvarpið sýndi. Afgangurinn var auðvitað til staðar. Það sem menn sjá mest í þeim efnum sem staðreynd er hvernig hann hefur síðan verið notaður. Hvernig hefur þessi afgangur verið notaður? Til að mynda til þess að setja 70 milljarða kr. inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að bjarga því gati sem þar var og tryggja stöðu hans. Það hefði ekki verið hægt að gera nema af því að þessi afgangur var til staðar en ekki í mínus eins og hér var haldið fram.

Það hefur einnig verið gert með því að byggja upp eiginfjárstöðu Seðlabankans um milljarða króna til þess að styrkja bankann til að bregðast við sveiflum í efnahagslífinu.

Í þriðja lagi hefur það verið gert með þeim hætti, eins og hæstv. forsætisráðherra vék athygli á, að lækka skuldir ríkisins miðað við landsframleiðslu úr 41% niður í 27%. Þessir þættir eiga allir rót sína í þeim mikla afgangi sem menn hafa skilað á fjárlögum undir forustu hæstv. fjármálaráðherra ár eftir ár eftir ár, þannig að sú mynd sem sá ágæti þingmaður sem áðan flutti ræðu dró upp er ekki algerlega sanngjörn.

Ég er afskaplega ánægður með að fá tækifæri til að glíma við þá starfsemi sem utanríkisráðuneytið leggur þeim ráðherra sem þar vélar um á herðar. Utanríkismál eru auðvitað afskaplega áhugaverður málaflokkur auk þess sem utanríkismál nú orðið, eins og menn vita, fléttast meira og minna saman við innanríkismál eins og málin hafa þróast, bæði vegna þess að alþjóðavæðingin hefur orðið til þess að samþættingin er meiri og svo auðvitað hin venjulegu og vaxandi samskipti einstaklinga og fyrirtækja langt út yfir landamæri, langt út fyrir atbeina ríkisvaldsins á hverjum tíma. Þannig er nú komið að segja má að það séu næsta óglögg skil á milli utanríkismála og innanlandsmála í mörgum greinum og gera má ráð fyrir því að það fari vaxandi. En það breytir ekki því að þó þetta sé reyndin og muni auðvitað aukast þá er sérstaklega ánægjulegt verkefni að mega standa vörðinn fyrir land sitt og þjóð í samskiptunum út á við. Það er og verður mikilvægt verkefni og hver maður sem fær það verkefni á að vera þakklátur fyrir það og það er ég auðvitað.

Slík varðstaða á sér stað á margvíslegum vettvangi, bæði á vettvangi Evrópumála, norrænna mála og alþjóðamála yfirleitt. Jafnframt lýtur þessi varðstaða að hinum mikilvægu öryggishagsmunum landsins. Öryggishagsmunir hverrar þjóðar eru hornsteinn í stefnu hennar, verða að vera það. Við vitum að um öryggismál landsins er deilt í þessum sal og sýnist hverjum sitt. Ríkisstjórnin vill tryggja varnir með þeim hætti sem hún hefur gert grein fyrir og hæstv. forsætisráðherra vék áðan að. Við viljum hafa traust og öflugt samstarf við Bandaríki Norður-Ameríku á þeim vettvangi innan þeirra marka og í tengslum við þau vébönd sem Atlantshafsbandalagið setur.

Ég tel að þær viðræður sem fóru fram fyrr á þessu ári muni auðvelda okkur að tryggja þá samninga sem fram undan eru við Bandaríkin um varnarmálin þó að varlegast sé að tímasetja þá þætti ekki að þessu sinni.

Hv. ræðumaður sem áðan talaði varði drjúgum hluta ræðutíma síns í að fjalla um Írak. Út af fyrir sig er það ekkert undarlegt vegna þess að ég sá að það hafði verið blaðamannafundur um samstöðu stjórnarandstöðunnar og samvinnu og það eina sem út úr því hefur komið enn þá er samvinna um Írak. Það var það eina sem þeir gátu sameinast um sem er nógu fjarri heimahögunum. En Írak er auðvitað stórt og mikið mál og auðvitað er sjálfsagt að ræða það og verður gert í þessum sal í vetur, hygg ég. Þannig er að af 800 byggðarlögum í Írak er friður í 795 byggðarlögum. Það er mikill óróleiki í 4–5 byggðarlögum. Sú er breytingin sem hefur orðið frá því sem áður var að óttanum hefur verið bægt burtu úr þessum 795 byggðarlögum. Þar á fólkið von, líka litlu börnin sem áður dóu vegna vanrækslu og þess háttar. Þar eiga þau núna von. Vonin var ekki fyrir hendi áður en vonin var sköpuð. Einum versta harðstjóra aldarinnar var bægt í burtu og hýstur þar sem hann á heima. Þess vegna er þar áfram von. Þess vegna hljótum við að vera stolt yfir því að hafa haft atbeina að því að þessi þróun yrði. Konur eiga nú von í þessu landi sem þær áttu enga áður. Allt þetta hefur gerst og menn geta ekki annað en verið stoltir yfir að hafa tekið þátt í því. Auðvitað harma menn þau hermdarverk sem þar eru unnin núna, að sjálfsmorðssprengjur og annað þess háttar skuli enn vera til staðar á nokkrum stöðum í þessu hrjáða landi. En ég tel að íslenska ríkisstjórnin hafi tekið skynsamlega ákvörðun miðað við þá þætti sem þar lágu fyrir hendi þegar hún ákvað að taka þátt í því með yfir 30 öðrum ríkjum að bægja þessum harðstjóra á brott og auðvitað var vitað að við mundum gera það að litlu leyti fyrir okkur en taka þátt í öðrum þáttum síðar meir. Þetta verða menn að hafa í huga.

Að öðru leyti, þar sem tími minn er senn þrotinn, þakka ég áheyrendum góðum fyrir að hlýða á mál mitt og óska eftir góðu samstarfi við þingheim allan í því starfi sem ég á vonandi fram undan hér í þinginu í vetur.