Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 2004, kl. 21:09:33 (21)


131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:09]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Umgjörðin öll um vinnu hér á Alþingi að stefnumálum ríkisstjórnarinnar og öðrum þingmálum er annars vegar þingsköpin og stjórn þingsins og hins vegar stjórnarskráin. Um stjórnarskrána verður að vera þokkalegur friður ef takast á að sinna þeim störfum sem við þingmenn erum fyrst og fremst kjörin til. Alþingismenn bera allir sameiginlega ábyrgð á að viðhalda tiltrú almennings og virðingu fyrir löggjafarsamkomunni. Alþingismönnum ber líka sameiginlega að standa vörð um hlut Alþingis, lagasetningarvaldsins gagnvart öðrum þáttum ríkisvaldsins og þar fer eðlilega fremstur forseti Alþingis.

Atburðarás og átök nú í sumar sýndu, svo sem hæstv. forsætisráðherra gat um í ræðu sinni, þörfina fyrir að ráðast í endurskoðun stjórnarskrárinnar, hinna lýðræðislegu leikreglna íslensks samfélags. Við þá endurskoðun verðum við að gæta þess að láta ekki stundarhagsmuni eða deilumál líðandi stundar villa okkur sýn. Stjórnarskráin er ein heild og ákvæði hennar verður að lesa hvert með öðru. Með því að slíta einstök ákvæði hennar og orð úr samhengi má lesa út úr stjórnarskránni allt aðra stjórnskipun en lengstum hefur ríkt almenn sátt og eindrægni um á Íslandi, bæði meðal fræðimanna og almennings.

Þrískipting ríkisvaldsins er grunnur stjórnarskrárinnar og lýðræðisins. Við þurfum vissulega að tryggja að löggjafarstarf á Alþingi geti gengið fram með eðlilegum hætti, en við þingmenn vinnum ekki afmarkað heit að því að verja löggjafarvaldið, vald og verksvið Alþingis, heldur vinnum við heit að stjórnarskránni allri. Þar með talið vinnum við heit að grundvelli hins lýðræðislega þjóðskipulags, þrískiptingu áhrifa og valds í samfélaginu, sjálfstæði hvers þessara þátta, eftirlits og aðhalds hvers þeirra með hinum.

Stjórnarskráin þarf áfram sem hingað til um mörg ókomin ár og áratugi að vera grunnurinn að sátt í íslensku samfélagi og grunnurinn að samheldni þjóðarinnar, hverjir svo sem fara með meiri hlutann á hinu háa Alþingi eða skipa æðstu stöður framkvæmdarvaldsins.

Herra forseti. Lýðræðið krefst auk alls annars fulls jafnræðis karla og kvenna. Jafnréttismálin svífa nú yfir vötnunum, undir og yfir og allt um kring. Ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á Alþingi styður hugmyndafræði svokallaðrar samþættingar á sviði jafnréttismála sem þýðir að á öllum stigum stefnumótunar og ákvarðana hins opinbera skuli taka tillit til jafnréttissjónarmiða og áhrif þeirra metin á konur og á karla, þar með talin í stefnumótun ríkisstjórnarinnar og líka við framkvæmd fjárlaga.

Í raun er ekki við löggjafarvaldið að sakast í þessum efnum. Aukinn fæðingarorlofsréttur karla , eitt mesta framfaraspor síðustu ára í baráttunni fyrir jafnræði kynjanna, var í raun síðasta hindrunin fyrir fullu lagalegu jafnrétti karla og kvenna og þingheimur allur stóð á síðasta þingi líka einhuga að því að samþykkja jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára.

Konur eru að ákveðnu leyti hryggjarstykki íslensks nútímasamfélags. Íslenskar konur eru í dag 65% allra þeirra sem ljúka háskólanámi. Þær skila meiri vinnu utan heimilis en hjá öllum öðrum vestrænum þjóðum og íslenskar konur eiga fleiri börn að meðaltali en allar aðrar konur innan OECD, að albönskum konum frátöldum. Allt þetta hefur mikið vægi fyrir efnahagslega afkomu þjóðarinnar; fyrir aldurssamsetninguna, mannauðinn sem menntunin er grunnurinn að og líka vinnuframlag kvenna.

Gallup-könnun frá í fyrra sýnir að 84% allra svarenda telja að konur standi verr að vígi en karlar í íslensku samfélagi. Tölfræðin sýnir okkur líka óumdeilt hversu langt við eigum í land.

Kynbundinn launamunur er viðvarandi. Það er aðeins einn kvenforstjóri og einn kvenstjórnarformaður í 50 stærstu íslensku fyrirtækjunum. Það eru einungis tvær konur í ráðuneytisstjórastöðu. Enn eru aðeins tvær konur af níu dómurum Hæstaréttar. Að því ógleymdu að konum á þingi fækkaði við síðustu kosningar. Að mínu mati eru þetta allt saman staðreyndir og kennimerki lýðræðisskorts. Það eru ýmsir sem merkja í þessari umræðu bakslag á allra síðustu árum og missirum.

Í orði er full sátt um þýðingu þess og mikilvægi fyrir samfélagið að konur jafnt og karlar komi að allri stefnumótun og ákvarðanatöku. Í rauninni er staðan sú að jafnréttismál sem heiti á málaflokki virðast í allri umræðu orðin léttvægari en þau hafa lengi verið. Það eru allt of oft konur sem eru að ræða við aðrar konur um þessi málefni án aðkomu eða áhuga karla á fundum og ráðstefnum þar sem hlutirnir eru ræddir. Það hefur líka ýmis misskilningur náð fótfestu í samfélaginu, eins og sá að kynjakvótar og aðrar leiðir til að tryggja aukna aðkomu og þátttöku kvenna snúist fyrst og fremst um að hampa og hossa minna hæfum, frekum og framagjörnum konum á kostnað hæfari karla.

Viðfangsefnin eru bæði gömul og ný en þau eru hvorki mjúk né léttvæg. Ég nefni, herra forseti, bara tvö dæmi; afnám kynbundins launamunar, kröfuna um sömu laun fyrir sömu vinnu, og mansal. Það er langt þarna á milli og mörg mikilvæg mál. Það er óumdeilt að aukinn hlutur kvenna hefur skilað okkur stórauknum áherslum og árangri á öllum sviðum velferðarmála. Konur eiga heiðurinn af því að stjórnmál fóru fyrir alvöru að fjalla um mál sem snúast um það fyrst og fremst að ala upp nýta þjóðfélagsþegna.

Góðir áheyrendur. Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna er pólitík sem snýst um lýðræði, pólitík sem snýst um almannaheill. Frekari árangur í þeirri baráttu næst ólíklega fyrr en annaðhvort karlar fara að beita sér af fullum þunga við hlið kvenna eða þegar konur með stuðningi og fulltingi kjósenda skipa ekki færri valda- og áhrifastöður en karlar í íslenskri pólitík. — Ég þakka þeim sem hlýddu.