Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 2004, kl. 21:16:33 (22)


131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:16]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í upphafi valdaferils nýs forsætisráðherra er við hæfi að óska honum velfarnaðar í störfum fyrir land og þjóð. Ekki veitir af því að ágreiningurinn kraumar sannarlega undir í samstarfi flokkanna og ólíklegt að ríkisstjórnin starfi út kjörtímabilið. Niðurstaða síðustu kosninga var krafa um breytingar, krafa um að afnema misréttið í þjóðfélaginu, krafa um að styrkja landsbyggðina, krafa um að taka á óréttlætinu í kvótakerfinu en ekki um óbreytta valdasetu stjórnarflokkanna þar sem límið var hrossakaup um forsætisráðherrastólinn. Stólaskiptin eru bara stólaskipti og boða engin ný tímamót, ferskleika eða réttlæti inn í íslenskt samfélag. Stólaskiptin eru aðeins enn ein spegilmynd valdhrokans og ráðherraræðisins í landinu sem aftur og aftur er beitt og þar er oddvitum stjórnarflokkanna ekkert heilagt.

Einir og án samráðs við þing og þjóð setja þeir þjóð sína á bekk með þeim þjóðum sem studdu innrás Bandaríkjanna í Írak og skipunarvaldi er miskunnarlaust misbeitt til að geta einkavinavætt Hæstarétt. Það er ekkert annað en ógn við lýðræðið þegar forusta stjórnarflokkanna skeytir orðið ekkert um valdmörk þrískiptingarvalds í landinu og þverbrýtur leikreglur lýðræðisins. Forseta Alþingis var líka meira sæmandi að verja þingið fyrir yfirgangi framkvæmdarvaldsins en að misnota aðstöðu sína á þingsetningardegi með ósæmilegri atlögu að forseta og synjunarvaldinu sem forseti Íslands fer með í umboði þjóðarinnar.

Herra forseti. Samfylkingin hefur lagt til að rannsókn fari fram á þróun valds og lýðræðis, m.a. með það að markmiði að greina breytingar sem orðið hafa á valdmörkum í þrískiptingu ríkisvaldsins, líka að mat sé lagt á hvaða áhrif mikil tilfærsla valds, eigna og fjármagns hefur haft og muni hafa fyrir afkomu þjóðarbús, velferðarþjónustu, heimila og atvinnulífs.

Þeirri breytingu sem orðið hefur í atvinnu- og fjármálalífi á umliðnum árum má raunar líkja við byltingu. Útrás stórra valdablokka hefur fylgt gífurlegt fjármagnsflæði milli landa og skipta ákvarðanir seðlabanka Evrópu nú orðið meira máli fyrir afkomu þessara fyrirtækja en ákvarðanir Seðlabanka Íslands. Fjárfestingar nokkurra valdablokka í atvinnulífi og á fjármagnsmarkaði eru það miklar að fáir hefðu gert sér það í hugarlund fyrir aðeins örfáum árum. Hvaða einkunn svo sem menn vilja gefa þessari þróun þá hefur fylgt henni gífurleg eigna- og valdatilfærsla í þjóðfélaginu, einkum nú í upphafi 21. aldarinnar. Athyglisvert er að á myndunum í fjölmiðlum, sem þjóðinni birtast nær daglega af körlunum í svörtu jökkunum sem skipta á milli sín valdi og fjármagni í þjóðfélaginu, vantar konurnar. Sú spurning er áleitin hvort hlutur kvenna í valdapíramídanum í atvinnu- og efnahagslífi minnki í þeirri byltingu sem nú gengur yfir fjármála- og atvinnulíf.

Víða hefur slíkri þróun líka fylgt vaxandi misrétti í kjörum og stéttaskiptingu. Glöggt má t.d. sjá hana í álagningu skatta á þessu ári sem sýnir að 1% þeirra ríkustu í landinu höfðu að meðaltali 88% sinna árstekna í fjármagnstekjum eða um 54 milljónir hver þeirra og einungis 7 milljónir í launatekjur. Þannig greiða þeir ríkustu á þessu ári einungis 12% af heildartekjum sínum til samfélagsins meðan fólk með lágar og meðaltekjur greiðir af sínum heildartekjum að meðaltali 25–27%.

Samfylkingin mótmælir því að með skattalækkun ríkisstjórnarinnar eigi enn að hygla þeim sem mest hafa fyrir. Þannig mun helmingur af þeim 5 milljörðum sem renna eiga í skattalækkanir á næsta ári, eða 2,5 milljarðar kr., fara í vasa 25% tekjuhæstu skattgreiðendanna en nánast ekkert til þeirra 25% í hópi hinna tekjulægstu. Ekkert á því að fara til þeirra 18–20 þúsund Íslendinga sem búa við kjör undir fátæktarmörkum. Ríkisstjórnin ætlar heldur ekki að hætta okurinnheimtu á stimpilgjöldum og fólk skal áfram greiða tvisvar stimpilgjald af sama láni við endurfjármögnun lána. Þannig hirðir ríkið af fólkinu ávinninginn af vaxtalækkun fasteignalána, en þessi okurinnheimta skilaði ríkissjóði nú í september 127% meiri tekjum en í september árið 2003.

Viðvarandi atvinnuleysi 5–6 þúsund manns er líka mikið áhyggjuefni og það svíður að sjá hve erfitt uppdráttar ungt fólk og fólk yfir 50 ára á oft á vinnumarkaði. Harkan og meiri kröfur á vinnumarkaði í kjölfar alþjóðavæðingar og mikilla umbreytinga í atvinnulífinu bitnar líka með fullum þunga á öryrkjum og er ein skýring þess að mikið fjölgar í hópi öryrkja og langtímaatvinnulausra.

Við forsætisráðherra segi ég: Þetta ástand á vinnumarkaðnum leysir ekki ríkisstjórnina undan loforðum hennar við öryrkja fyrir síðustu kosningar. Ríkisstjórnin skuldar öryrkjum 500 milljónir kr. og þær ber að greiða undanbragðalaust. Allt annað er svik við öryrkja og ekki verður séð hvernig heilbrigðisráðherra verður sætt í ráðherrastól.

Góðir Íslendingar. Hér er stjórnað af ósanngirni og óréttlæti. Því mun Samfylkingin breyta. Þess vegna þarf hún stuðning og styrk þjóðarinnar. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna fyrir þá sem vilja sanngirni og réttlæti í fyrirrúmi við landstjórnina. — Góðar stundir.