Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 2004, kl. 21:37:37 (25)


131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:37]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Góðir Íslendingar. Ég vil hefja ræðu mína á því að óska nýjum forsætis-, utanríkis- og umhverfisráðherra velfarnaðar í starfi.

Með nýju fólki fylgja nýjar áherslur. Með nýju fólki skapast möguleiki til framþróunar, jafnt hjá almennum fyrirtækjum sem og opinberum stofnunum. Skömmu eftir síðustu alþingiskosningar upplýstu stjórnarflokkarnir um þau ráðherraskipti sem nýlega áttu sér stað. Ég man glögglega mínar fyrstu hugrenningar við þessar fréttir. Helst gerði ég mér í hugarlund hversu tímabært væri að þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, færi frá embættinu, enda 13 ár langur tími í eins viðamiklu embætti. Jafnframt hugsaði ég að með nýjum manni í embættið gætu hugsanlega komið nýjar og þarfar áherslur.

Davíð Oddsson skilur eftir sig ágætt bú, þó svo hinir efnaminni hafi ekki fengið að njóta þess sem skyldi. Engu að síður áttu sér stað miklar og góðar breytingar á íslensku atvinnu- og efnahagslífi í tíð Davíðs Oddssonar. Breytingar sem hafa búið til geysiöflugt umhverfi fyrir íslensk fyrirtæki. En á Davíð sem forsætisráðherra deili ég með tvennu móti.

Í fyrsta lagi hafði hann aldrei mikla innsýn í íslenskan sjávarútveg. Það staðfestist í slæmri stöðu íslensks sjávarútvegs í dag þar sem einungis örfá fyrirtæki geta státað af góðum árangri hin síðari ár. Í annan stað vantaði Davíð Oddsson umburðarlyndi og skilning í stjórnartíð sinni til handa þeim sem minna mega sín í okkar ríka landi.

Með Halldóri Ásgrímssyni átti ég von á sérstakri áherslu á málefni þeirra efnaminni. Eftir að hafa lesið yfir stefnuræðu nýskipaðs forsætisráðherra er ég vonsvikinn. Vonsvikinn yfir því tómlæti, aðgerðaleysi og síðast en ekki síst kjarkleysi sem ræða hans endurspeglar með áberandi hætti. Hann boðar engar sérstakar áherslubreytingar umfram stjórnarsáttmálann frá síðasta ári. Fyrir það fyrsta gerði ég mér grein fyrir því að sjávarútvegsmálin með nýjan forsætisráðherra í broddi fylkingar mundu ekki taka breytingum. Það kom á daginn í stefnuræðunni að ekki skal breyta fyrirkomulagi í íslenskum sjávarútvegi nema ef vera skyldi að hleypa hér að erlendum fjárfestum til yfirtöku í okkar öflugustu mjólkurkú, auðlindum hafsins. Sú stefna er stórhættuleg fyrir íslenska þjóð og má alls ekki verða ofan á.

Í annan stað ber að nefna skattamálin. Þau endurspegla þá stéttaskiptingu sem vaxið hefur í landinu síðasta áratuginn. Áfram skal haldið á þeirri braut að tryggja þeim efnameiri auknar tekjur á kostnað þeirra sem minna hafa á milli handanna. Í stað þess að virða fyrir sér stöðu eldri borgara sem standa frammi fyrir rýrari kaupmætti vegna aftengingar vísitölu á skattleysismörkin árið 1998, skal drýgsta hluta þeirra fjármuna sem varið verður í skattalækkanir verja til þeirra sem mestar hafa tekjurnar. Þá stefnu ríkisstjórnarinnar get ég ekki með nokkru móti skilið.

Þegar vikið er að íslenskum landbúnaði tekur fagurgali hins reynda pólitíkusar við. Orðin falleg en ekki með nokkrum hætti víkur ráðherra að raunverulegum tillögum til úrbóta og þróunar á því miðstýrða og afleita kerfi sem heldur í dag utan um íslenskan landbúnað. Ég hvet fólk í landinu til að lesa yfir ríkisreikninginn og sjá hvert peningarnir okkar eru að fara.

Á síðasta þingi lagði ég fram fyrirspurn til landbúnaðarráðherra þar sem spurt var hvort leggja ætti styrkjakerfi landbúnaðarins af í núverandi mynd og í staðinn taka upp byggðatengda styrki. Er skynsemi fólgin í því að hvetja bændur til að slátra meira magni með afurðatengdu styrkjakerfi? Staðreyndin er sú að neysla Íslendinga á lambakjöti hefur dregist saman á undanförnum árum. Með því að taka upp búsetustyrki munu bændur fyrst geta aðlagast markaðnum. Þeir fá tíma og tækifæri til að vinna að nýjum og spennandi verkefnum í stað þess að vera bundnir í ólar hins miðstýrða kerfis sem er við lýði í dag.

Í ræðu sinni segir forsætisráðherra ekkert kalla á róttækar breytingar. Þvert á móti sé ástæða til að halda áfram á sömu vegferð. Í sömu ræðu talar hinn sami um 50% fjölgun öryrkja á sex árum. Hér mætast þversagnir í einni og sömu ræðunni. Það hlýtur að kalla á róttækar breytingar og nýjar áherslur þegar öryrkjum fjölgar um 50% á sex árum. Gerir nýskipaður forsætisráðherra sér ekki nokkra grein fyrir af hverju þessi fjölgun er raunin? Telur forsætisráðherra ekkert samspil vera á milli aðstæðna þeirra tekjuminni í heimi sífellt öflugrar stéttaskiptingar og svo hins vegar fjölgunar öryrkja?

Stefnuræðan er ekki ræða manns sem af hugsjóninni einni vildi forsætisráðherrastólinn, heldur endurspeglar hún frekar framagirni mannsins sem nú situr í hásæti sínu. Efnisinnihald ræðunnar staðfestir þessi orð mín. Það er sorglegt að horfa upp á Framsóknarflokkinn í eins mikilli tregðu og raun ber vitni. Á öðrum endanum er manni umbunað fyrir framagirni sína, en á hinum endanum er öflugum liðsmanni refsað fyrir að vera trúr og staðfastur hugsjónum sínum. Flokkurinn hefur fótumtroðið lýðræðislega hugsjón og mistúlkar stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar. Þetta eru stór orð, en að mínu viti sönn.

Ég vil ekki gera lítið úr einstökum leikmönnum þessa gamla stjórnmálaafls, en örlítið mætti liðið í þingflokknum meta manngildið meira. Það er okkur Íslendingum mikilvægt að aftur komist reisn á flokkinn, ekki síst þar sem hann heldur um taumana í forsætisráðuneytinu.

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír hafa lýst yfir sáttmála sín á milli þar sem um öfluga varðgæslu verður að ræða á hinu háa Alþingi á næstu missirum. Slíkt aðhald verður stjórnarflokkunum og íslensku lýðræði nauðsynlegt vítamín. Þó verður að teljast að flokkarnir þrír séu ólíkir í eðli sínu. Einn þeirra kúrir langt til vinstri, annar er sambland eldri stjórnmálafla og því afar litríkur en um leið brothættur og sá þriðji hefur einbeitt sér sérstaklega að tveimur málum, annars vegar byggða- og sjávarútvegsmálum og hins vegar lýðræðislegum umbótum. Það breytir ekki því að forustumenn þessara flokka virðast geta sýnt umburðarlyndi fyrir ólíkum skoðunum og eru tilbúnir til samstarfs á vetri komandi.

Ég hlakka til samstarfsins og um leið þeirra pólitísku átaka sem fram undan eru í þinginu. Ég vona að umræðan í vetur verði málefnaleg og haldin þeirri reisn sem Alþingi okkar Íslendinga krefst af leikmönnum sínum á hverjum og einum tíma. — Góðar stundir.