Fjárlög 2005

Þriðjudaginn 05. október 2004, kl. 17:31:10 (117)


131. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:31]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef í fyrri ræðu minni farið nokkuð yfir hversu lítið hefur verið að marka þá áætlanagerð sem fjallað var um við 1. umr. fjárlaga. Þó er einn þáttur sem þar er að marka, þar koma nefnilega gjarnan svikin fram, svikin stjórnarliðsins.

Ég gerði einnig að umtalsefni réttlæti ríkisstjórnarinnar í andsvörum við hv. þm. Bjarna Benediktsson þegar hann gumaði af því örlæti ríkisstjórnarinnar að ætla að láta láglaunamönnum í té 1.500 kr. skattalækkun á mánuði eða 18 þús. kr. á ári, á meðan til stendur að meðalalþingismaðurinn fái á einum mánuði þá skattalækkun sem menn guma af að skenkja láglaunafólki á heilu ári, þ.e. að við í þessum sal njótum tíu sinnum meiri skattalækkana á næsta ári en láglaunafólkið. Það er auðvitað út af fyrir sig pólitík en mér finnst ekki alls kostar smekklegt að guma af því örlæti þegar menn ganga þannig fram í tekjuskiptingu í landinu.

Mér finnst þess vegna heldur ekki fyllilega smekklegt þegar hæstv. fjármálaráðherra gumar af örlæti sínu í garð lífeyrisþega. Aukin útgjöld til þess málaflokks má vissulega rekja til fjölgunar lífeyrisþega og líka til hins að svo fast hefur hann haldið um aurinn gagnvart lífeyrisþegunum að aftur og aftur hefur þurft að reka ríkisstjórnina upp í Hæstarétt og dæma hana til þess að borga lifandi fólki í landinu mannsæmandi fjárhæðir. Af því eiga menn ekki að guma, virðulegur forseti, þó hver eigi að hafa sína pólitík eins og samviska hans býður honum.

Samkomulag gerði þó ríkisstjórnin, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra, af fúsum og frjálsum vilja við Öryrkjabandalagið um milljarð til þess að reyna að bæta fyrir tekjuskerðingu yfir margra ára tímabil. Menn skulu muna að það samkomulag gerðu forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra ekki vegna fjölgunar öryrkja, heldur vegna fækkunar framsóknarmanna. Það samkomulag gerði Framsóknarflokkurinn í örvæntingu kominn undir 10% í aðdraganda kosninga og Sjálfstæðisflokkurinn leyfði honum að gera þann samning vegna þess að samkvæmt skoðanakönnunum var stjórnarmeirihlutinn fallinn. Það er ástæðan fyrir eina sjálfviljuga framlaginu í lífeyrismálin á síðustu árum. Það er ekki gæska og góðsemi við þá sem minnst bera úr býtum í samfélaginu, heldur kosninganauð Framsóknarflokksins.

Þegar hér var lagt fram frumvarp í fyrra spurði ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvers vegna ekki væri gert ráð fyrir kostnaðinum að fullu við samkomulagið við Öryrkjabandalagið. Hæstv. heilbrigðisráðherra kom hér upp og sagði að hann gæti ekki efnt það að fullu á þessu ári, hann yrði að áfangaskipta efndunum. Þess vegna mundi vanta hálfan milljarð upp á að hann stæði við þetta að þessu sinni en hann mundi þó koma með síðari áfanga. Ég get játað það, virðulegur forseti, að ég snöggreiddist og sagði hæstv. ráðherra að maður áfangaskipti ekki æru sinni heldur ætti að standa við orð sín. Ég var nokkuð hugsi hvort ég hefði látið of þung orð falla. En viti menn: Hæstv. heilbrigðisráðherra kemur til þings ári síðar ekki með neinn síðari áfanga, og ekki nóg með það — nú kannast sá góði drengur ekki við að það sé neinn síðari áfangi. Nú heitir samkomulagið og samningurinn frá því í kosningunum viljayfirlýsing. Hjá hæstv. fjármálaráðherranum heitir það held ég fréttatilkynning.

Virðulegur forseti. Samkomulag sem ríkisstjórn Íslands gerir við þá íbúa í landinu sem við kröppust kjör búa á að virða. Það á að efna. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstjórn að bera fyrir sig fjölgun öryrkja. Hvers konar eiginlega hundalógík er það? Ef bændum fjölgar, eigum við þá ekki að efna samningana við bændur? Ef gömlu fólki fjölgar í landinu, eigum við þá ekki að efna samninga við gamla fólkið?

Mér sýnist raunar að ríkisstjórninni hugnist nú á sumum sviðum fjölgun, ekki fjölgun öryrkja en fjölgun sendiherra. Ekki stendur á ríkissjóði að standa undir henni. Það vantar 500 millj. kr. til að efna yfirlýsingarnar og heitin gagnvart örorkulífeyrisþegum í landinu eins og hæstv. heilbrigðisráðherra upplýsti við umræðurnar fyrir ári. Sama ríkisstjórn ætlar að byggja sendiherrabústað í Berlín á næsta ári fyrir 230 millj. kr. Hversu gamaldags getur ein valdapólitík orðið þar sem menn geta ekki efnt orð sín gagnvart þeim sem höllum fæti standa en geta svo ausið kvartmilljarði á sama tíma í snobbhús, í heimili fyrir einn embættismann í Berlín? Virðulegur forseti. Ég vil ekki gera lítið úr mikilvægi utanríkisþjónustunnar en þessi forgangsröðun segir meira en mörg orð um ríkisstjórn Íslands og afstöðu hennar til öryrkja í landinu.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Það hefur verið fjallað um fjölgun öryrkja sem einhvers konar útgjaldavandamál. Það er Hagfræðistofnun Háskólans sem á að rannsaka það mál fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég vissi ekki betur en fjölgun öryrkja væri heilbrigðisvandamál og að embætti landlæknis væri fullfært um að rannsaka orsakir þess og hafi raunar gert grein fyrir því með ýmsum hætti á undanförnum missirum. Það er raunar svo að rannsóknir á heilsufari þjóða sýna að mjög sterk tengsl eru á milli jöfnuðar í samfélaginu og heilsufars. Það hlýtur að vera stjórnvöldum nokkuð umhugsunarefni þegar öryrkjum fjölgar svo ört sem raun ber vitni hvað er verið að gera rangt, en það afsakar aldrei að menn efni ekki orð sín, samkomulag sitt við þá sem engan verkfallsrétt hafa, því þeir enga vinnu hafa. Orð skulu standa, virðulegur forseti.

Ég verð að segja að málflutningurinn um fjölgun öryrkja er heldur ekki alls kostar geðslegur því ekki er laust við að það sé af hálfu sumra a.m.k. verið að gefa í skyn að menn hafi eitthvert óhreint mjöl í pokahorninu. Hver sá sem fylgst hefur með breytingum á vinnumarkaði á síðustu árum, hvernig æ meiri kröfur eru gerðar til starfa, hvernig einfaldari störf í atvinnulífinu eru smátt og smátt að leggjast af og fyrir þá sem hafa fylgst með því hvernig hér hefur verið viðvarandi atvinnuleysi um talsverðan tíma sjá auðvitað í hendi sér að það er atvinnuástandið og ýmiss konar þættir í þróun samfélagsins sem hafa gert þetta að verkum. Það er áhyggjuefni og við eigum að ráðast að rótum þess vanda, t.d. með því að opna framhaldsskólana og háskólana fyrir þeim sem hafa dottið úr námi og þurfa að komast aftur inn til að mennta sig, en ekki með því að úthýsa þeim. Þannig eigum við að nálgast þau verkefni í heilbrigðis- og menntamálum þjóðarinnar en menn eiga að efna þá samninga sem þeir gera við öryrkja hvort sem þeir eru fleiri eða færri.