Fjáraukalög 2004

Fimmtudaginn 07. október 2004, kl. 11:25:56 (208)


131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[11:25]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur gert grein fyrir við framlagningu á frumvarpi til fjáraukalaga er slíku frumvarpi ætlað að taka fyrst og fremst til skyndilegra fjárbreytinga og ófyrirsjáanlegra nema þá að Alþingi taki það upp og afgreiði það með öðrum hætti.

Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til um 250 millj. kr. til framhaldsskólanna. Nú var það svo, herra forseti, og ég held að okkur öllum sé það minnisstætt að í umræðunni um fjárlög á sl. vetri var mikið rætt um framhaldsskólana og að fjármagn vantaði til þeirra. Við lásum hér upp bréf frá Félagi framhaldsskóla, frá stjórnendum, sem sögðu: Það er bara vanáætlað um allt að þúsund nemendur, menn nefndu þá 700–800 nemendur sem a.m.k. væri vanáætlað fyrir, þetta lá ljóst fyrir þá.

Þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Kolbrún Halldórsdóttir, flutti þá breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um að tekið yrði tillit til þessa fjölda þá þegar við fjárlagagerðina því að hann lægi hvort eð er fyrir. En það var þverskallast.

Hér stendur: Allt í einu fundist 1.100 nemendur umfram forsendur fjárlaga og nú er verið að taka tillit til þess.

Hefði ekki verið nær, hæstv. ráðherra, að taka þetta inn þegar allar upplýsingar lágu fyrir eða hvers vegna fundust þessir nemendur allt í einu nú en ekki í fyrrahaust þegar allar upplýsingar um þá lágu fyrir?