Fjáraukalög 2004

Fimmtudaginn 07. október 2004, kl. 15:11:19 (233)


131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[15:11]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég átti eftir að svara hér áðan nokkrum atriðum sem fram komu í máli hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Sumum þeirra hef ég reyndar áður svarað vegna þess að þau tengdust því sem aðrir höfðu spurt um og sama er að segja um atriði sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti á. Þeir ræddu báðir um Ábyrgðasjóð launa og þær 300 millj. sem gert er ráð fyrir að bæta við þann sjóð með þessu frumvarpi. Það er vissulega áhyggjuefni hve mjög þessi sjóður stækkar. Hann kemur ekki til af góðu eins og við vitum en eins og lögin eru núna er ekki um annað að ræða en að framfylgja þeim.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson taldi rétt að staldra við varðandi þetta atriði og kanna hvort fyrirtæki ættu kannski frekar að kaupa sér tryggingu í þessu skyni en að ríkið tæki alla ábyrgðina. Mér finnst þetta athyglisverð hugmynd þó að ég hafi ekki skoðað hana áður. Mér finnst hugmyndin athyglisverð og ástæða til þess að velta henni fyrir sér.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson ræddi hér, eins og ég drap á áðan, um fjölgun lífeyrisþega og spurninguna um hvernig það mál er að þróast. Þar er um að ræða sex liði, þrír þeirra hækka og þrír lækka. Einn þeirra hækkar vegna þess að gert var ráð fyrir minni fjölda bótaþega á árinu 2004 en sú spá rættist ekki. Hv. þm. gerði það að umtalsefni. Gert var ráð fyrir því en nú er það ekki lengur. Það breyttist. Þetta er hins vegar mjög gott dæmi um það hvernig háar upphæðir geta velkst til og frá, hækkað og lækkað eftir því hver framvindan í viðkomandi málaflokkum verður, framvinda sem ekki er hægt að sjá fyrir.

Hv. þm. nefndi rannsóknaskipið Dröfn og spurninguna um að selja það. Ég viðurkenni að ég hef minna vit á slíkum málum en hann, þar á meðal hvaða hagræðing fylgir því að leggja því skipi eða selja það. Ég get ekki svarað því. Ég tel hins vegar að bak við þessa beiðni Hafrannsóknastofnunar liggi það að hún telji sig geta haft meira gagn af tækjum sem fá mætti fyrir andvirði skipsins en af skipinu sjálfu eins og nú er háttað. Dröfnin er orðin gamalt skip og kannski ekki alveg jafnfært í slaginn og áður var miðað við nýja rannsóknaskipið sem getur eflaust bætt við sig verkefnum.

Ég vil svo segja aðeins í lokin almennt um fjáraukalögin að hér hafa komið fram ákveðnar hugmyndir varðandi þau og fólk er að ræða þau eins og gengur og eðlilegt er. Það verður að hafa í huga að stór hluti af þessu sem við erum að fjalla um núna í fjáraukalögunum er ekki raunverulega nýjar fjárveitingar heldur eru þetta endurskoðaðar áætlanir, eins og ég hef verið að segja, þegar fyrir liggja betri upplýsingar. Atvinnuleysisbætur, lífeyristryggingarnar og margt, margt fleira, tekjuspáin auðvitað sem snýst um það að leggja hlutina bara fram á grundvelli nýjustu upplýsinga.

Einhver nefndi áðan, ég held að það hafi verið hv. þm. Jón Gunnarsson, að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins mundi skila 500 millj. kr. í arðgreiðslur umfram það sem áður hefur komið inn í fjárlögin. Það er rétt. Það þarf að taka það þá inn með formlegum hætti gegnum fjáraukalög vegna þess að þarna er um það að ræða að áfengisverslunin hefur skilað í ríkissjóð samkvæmt áætlunum öllu því sem hún átti að skila en hins vegar haft umframtekjur, að ég hygg einkum af tóbaki, sem þarna hafa safnast fyrir. Nú er eðlilegt að þær séu bara greiddar í ríkissjóð þó að það séu sem sagt rekstrartekjur frá stofnuninni en ekki skatturinn sem greiddur er með öðrum hætti við aðrar aðstæður, eins og við vitum í gegnum tollstjóraembættið.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta en þakka mönnum fyrir alveg ágæta umræðu. Eins og fyrr treysti ég því að það verði gott samstarf á milli ráðuneytis og fjárlaganefndar um úrvinnslu þessa frumvarps.