Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 07. október 2004, kl. 15:25:17 (240)


131. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2004.

Stéttarfélög og vinnudeilur.

5. mál
[15:25]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum. Þetta mál hefur verið flutt hér nokkrum sinnum áður, var flutt á 126., 127., 128. og 130. löggjafarþingi en varð eigi útrætt og er enn endurflutt hér.

Frumvarpið hefur það að markmiði að reyna að mynda þrýsting í vinnudeilum sem staðið hafa lengi og gera það að verkum að ákvæði um hækkun launa og önnur kjaraleg ákvæði sem standa til bóta og hafa náðst við lok kjaradeilunnar virki aftur fyrir sig. Ég held að þetta skýrist kannski best með því að ég lesi 1. gr. en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í stað 3. mgr. 5. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi en þó því aðeins að hann hafi verið undirritaður innan sex mánaða frá því að fyrri samningur féll úr gildi, enda sé ekki á annan veg samið, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungsþátttöku samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun.“

Síðan er um að ræða breytingar í næstu málsgrein sem ég vék að í upphafi máls míns en þær hljóða svona, með leyfi forseta:

„Séu kjarasamningar lausir lengur en sex mánuði skal upphafshækkun launaliða og önnur atriði sem bæta kjör launþega þegar kjarasamningur kemst á virka aftur til helmings þess tíma sem liðinn er án nýs kjarasamnings.“

Þetta þýðir, virðulegi forseti, að ef vinnudeila leystist eftir sex mánuði og tíu daga gerðist það sjálfkrafa samkvæmt þessum lagaákvæðum, yrði frumvarpið samþykkt, að upphafsákvæði í kjarasamningnum um hækkun launaliða og önnur kjaraleg atriði sem sneru beint að launþegum virkuðu sjálfvirkt aftur í tímann í þrjá mánuði. Hækkun og lagfæring á kjarasamningi sem sneri að því að bæta kjör launþega mundi sem sagt ekki virka frá undirskriftatíma eftir sex mánuðina heldur aftur fyrir sig og virka þrjá mánuði aftur í tímann, þ.e. helming þess tíma sem samningurinn væri þá búinn að vera laus. Launþegar fengju það þá bætt sjálfvirkt samkvæmt lögunum að kjaraleg atriði virkuðu þrjá mánuði aftur í tímann og um það þyrfti ekki sérstaklega að semja við atvinnurekendur.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Við hverja tvo mánuði sem bætast við án kjarasamnings færist gildistaka upphafshækkunar aftur um einn mánuð. Eftir tólf mánuði eða meira með lausa kjarasamninga gildir umsamin hækkun frá því að samningurinn féll úr gildi.“

Þetta segir, virðulegi forseti, að þegar tveir mánuðir bætast við sex mánaða tímabilið — það eru sem sagt orðnir átta mánuðir með lausan kjarasamning — eins og núna er t.d. orðið í sjómannadeilunni mundu þau atriði sem samið væri um þegar deilan leystist virka aftur fyrir sig, ekki aðeins í þrjá mánuði heldur einn mánuð til viðbótar. Ákvæðin yrðu þá afturvirk í fjóra mánuði. Ef svo illa tækist til að sú deila sem nú stendur yfir t.d. við sjómenn mundi ekki leysast fyrr en að 12 mánuðum liðnum yrði það sjálfvirkt að þau ákvæði sem kjarasamningurinn kvæði á um, þau ákvæði sem stæðu til kjaralegra bóta, mundu virka aftur fyrir sig frá því að kjarasamningurinn féll úr gildi.

Við getum velt því fyrir okkur, virðulegi forseti, hvaða áhrif þessi ákvæði gætu haft t.d. á núgildandi stöðu. Kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir, þ.e. kjarasamningar Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands — Vélstjórafélagið er með samning til 2005 og kjarasamningur Alþýðusambands Vestfjarða — hafa verið lausir frá 1. janúar eða í níu mánuði. Þar af leiðandi ef þetta hefði verið orðið að lögum væri þegar farið að telja á atvinnurekendur um að ákvæðin mundu virka aftur fyrir sig og væntanlega þá auka þrýsting í deilunni til þess að leysa hana.

Sama má segja um kennara sem núna hafa verið með lausa samninga frá 1. apríl eða í sex mánuði, að ef þetta ákvæði væri komið inn í lög yrði upphafsákvæðið þegar þeir semja, sem vonandi verður sem fyrst, til þess að upphafsákvæði samningsins mundu virka aftur fyrir sig sjálfvirkt í þrjá mánuði eins og deilan stendur nú. Það er kannski rétt að upplýsa það í þessari umræðu að í sjómannadeilunni hafa verið haldnir yfir 30 fundir og ég held ég viti það rétt að í kennaradeilunni hafa verið haldnir nærri 60 fundir, þ.e. í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaganna.

Þá getum við velt því fyrir okkur, virðulegi forseti, hvaða staða væri uppi ef þessi ákvæði sem hér er verið að mæla fyrir hefðu verið í löggjöfinni þegar í dag. Þá væri það þannig, t.d. í kjaradeilu kennara, að þegar hefði komið pressa á sveitarfélögin vegna þess að það sem væri að gerast í þeirri deilu nú væri þá það að bundið væri í lögum að samningar sem þeir næðu mundu verka aftur fyrir sig í þrjá mánuði miðað við stöðuna núna, að vera búnir að vera með lausa kjarasamninga í sex mánuði.

Þá gætum við spurt: Er líklegt að sveitarfélögin hefðu fallist á að fresta þeirri deilu í sumar, fresta viðræðum, ef þetta ákvæði hefði verið í vinnulöggjöfinni? Ég tel að það hefði verið mjög ólíklegt að sveitarfélögin hefðu viljað fresta viðræðum um talsverðan tíma í sumar, vitandi það að í vinnulöggjöfinni væri sjálfvirkt ákvæði um að dragist kjarasamningagerð lengur en sex mánuði þá virkuðu samningsákvæðin sem samið var um aftur fyrir sig sjálfvirkt í þrjá mánuði samkvæmt því sem þetta frumvarp mælir fyrir um.

Sama má auðvitað segja um útgerðarmenn innan LÍÚ að þeir hefðu staðið frammi fyrir því núna að öll ákvæði sem þeir koma til með að semja um þegar deilan leysist, sem vonandi verður sem fyrst, væru farin að virka sjálfvirkt aftur fyrir sig samkvæmt þeim breytingum sem hér er mælt fyrir um til fjögurra mánaða og væri núna að telja á seinni mánuðinn í öðru tímabilinu, sem þýddi að það mundi verka aftur fyrir sig enn frekar.

Ég tel því að eins og þetta frumvarp er hugsað, a.m.k. af minni hálfu, myndi það aukinn þrýsting í deilu sem er búin að standa í langan tíma, þ.e. lengur en sex mánuði, og náttúrlega áður en sex mánuðirnir telja sé mönnum það ljóst að enginn ávinningur verði af því að fresta gerð kjarasamninga svo lengi fram yfir sex mánuðina. Í stöðu sveitarfélaganna núna lægi það einfaldlega fyrir að þeir peningar sem sveitarfélögin hafa sparað, ef hægt er að orða það svo, á kjaradeilunni vegna þess að ósamið er um kjarabætur til kennara, sú pressa væri núna farin að snúast við og sneri í meira mæli að sveitarfélögunum og að lokum innan tólf mánaða, ef samningur hefði ekki komist á, væri enginn ávinningur að því fyrir sveitarfélögin að draga samningsgerð vegna þess að kostnaðurinn væri sjálfvirkt frá upphafsdegi þess að samningarnir féllu úr gildi.

Hugsunin í frumvarpinu er því eingöngu sú að inn í vinnulöggjöfina verði bætt ákvæðum sem geta orðið þess valdandi að kjarasamningar komist frekar á og það sé meira kappsmál hjá atvinnurekendum að reyna að leysa deilur innan sex mánaða en núna er í vinnulöggjöfinni, því að maður heyrir stundum í umræðunni að menn segja sem svo: Ja, hver mánuður sem við vinnum án þess að hafa farið í gerð kjarasamninga er auðvitað að spara atvinnugreininni, útgerðarmönnum ef við erum að tala um LÍÚ, eða sveitarfélögunum ef við erum að tala um kjaradeilu grunnskólakennara, ómældar fjárhæðir svo nemur einhverjum verulegum upphæðum eftir því hvernig samningarnir gera sig.

Það er því algerlega ljóst að mínu viti, virðulegi forseti, að eins og þetta mál er hugsað og sett hér fram tel ég að það mundi enn frekar þrýsta á um lausn kjarasamninga en nú er — og það er tilgangurinn með því að flytja þetta mál hér inn í sali Alþingis. Það má velta því fyrir sér hvað mundi gerast núna ef frumvarpið fengi fljóta afgreiðslu hér á þinginu miðað við þær deilur sem eru í gangi og viðsemjendur, í þessu tilviki LÍÚ og sveitarfélögin, sæju að innan tiltölulega skamms tíma gætu orðið að lögum þau ákvæði sem hér er verið að ræða um, hvort það setti ekki verulegan þrýsting á að reyna að leysa deiluna.

Um afgreiðsluna segir í 1. gr. svo, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að semja um annan upphafsgildistíma, nema því aðeins að launþegum verði greidd eingreiðsla sem telst jafngild í tekjum þeim afturvirku upphafshækkunum, eða áfangahækkunum á liðnum tíma án endurnýjunar kjarasamnings, sem lög þessi kveða á um.“

Þetta ákvæði er sett inn til þess að gera það auðveldara fyrir atvinnurekendur, bæði opinbera og fyrirtæki, að uppfylla þetta ákvæði því það kann auðvitað að vera snúið að reikna kjarabæturnar viku fyrir viku eða mánuð fyrir mánuð eða veiðiferð fyrir veiðiferð aftur í tímann og því fylgir talsverð vinna. Í þessari tillögu að lagagreininni er í raun og veru heimilað að semja um upphafshækkun sem teljist ásættanleg að mati samningsaðila, í þeim tilvikum sem við höfum núna verið að ræða og taka dæmi af, þ.e. sjómannasamtaka annars vegar og fulltrúa kennara hins vegar, þ.e. að samið sé um ákveðnar greiðslur sem þeir meti jafngilda því að samningurinn hefði virkað aftur fyrir sig í ákveðinn tíma, og heimilt sé að ljúka kjarasamningi með því lagi og það sé í rauninni eina undanþæga ákvæðið frá því að ákvæði 2. mgr. 1. gr. þessa frumvarps virki. Það má sem sagt semja sig frá upphafshækkununum enda meti menn það þá jafngilt.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð þátttöku. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í samningnum að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.“

Þarna er verið að marka það að hugsanlega sé hægt að semja um kjör innan fyrirtækis eða vinnustaðar, en auðvitað er líka verið að marka og ítreka það sem er í vinnulöggjöfinni í dag, að það séu stéttarfélög eða stéttasambönd launþega sem hafi gerð kjarasamninga á hendi eða þá einstök félög atvinnurekenda eða samtök þeirra sem hafi gerð kjarasamninga á hendi. Þetta hefur auðvitað verið hin viðtekna venja hér á landi til margra ára og hingað til a.m.k. verið um það nokkuð góð sátt.

En málum er hins vegar svo háttað nú í þjóðfélaginu að um þetta atriði er ekki sátt og er Sólbaksdeilan, sem svo hefur verið nefnd, gott dæmi um það. Mikill ágreiningur hefur verið um það mál og óhjákvæmilegt að taka það hér til nokkurrar umræðu úr því að við erum að fjalla um stéttarfélög, vinnudeilur og kjaradeilur o.s.frv., þá er nú varla hægt að vera hér í þessum ræðustól að ræða lög um stéttarfélög og vinnudeilur, og réttindi launþega og atvinnurekenda að því leyti til án þess að víkja að þessari Sólbaksdeilu sem mér finnst nú allsérstæð, ég verð að segja það, virðulegur forseti, mjög svo sérstæð.

Það vill nú svo til að ég stóð lengi í að gera kjarasamninga fyrir sjómenn og þekki talsvert til þess umhverfis þó að ég geti ekkert fullyrt um að eitthvað sé núna uppi í viðræðum sem ég þekki kannski ekki alveg út í hörgul, en ég veit vel að sjómannasamtökin hafa ekki hafnað því að leysa á félagslegum grundvelli í kjarasamningum breytingar á ákvæðum kjarasamninga, m.a. það sem snýr að fríum o.s.frv. En ég þykist hins vegar alveg fullviss um að stéttarsamtök sjómanna sem og önnur launþegasamtök í landinu séu ekki aldeilis tilbúin til þess að láta frá sér samningsréttinn með þeim gjörðum að það geti fylgt eftir sem núna er að gerast í þessu svokallaða Sólbaksmáli og hinn landsfrægi útgerðarmaður Guðmundur Kristjánsson stendur fyrir. Það er nú svo að menn getur auðvitað greint á um ýmislegt en ég tel að sú gerð sem núna er uppi varðandi Sólbakssamninginn sé alveg kolólögleg.

Það vill svo til að ég fékk þennan samning í hendurnar í gærkvöldi, virðulegi forseti, og langar að gera hann svolítið að umræðuefni hér. Þetta er talsverður umræðupunktur í stöðunni í þjóðfélaginu um stéttarfélög og vinnudeilur og haldnir um þetta Kastljóssþættir, m.a. í sjónvarpinu í gærkvöldi, þar sem mér fannst nú skorta á ýmislegt í rökræðunni. En í þessum kjarasamningi og það sem kannski harðast hefur verið deilt um er m.a. útfærsla fría, hafnarfría og uppgjörsmála, a.m.k. eins og ég skil samninginn, og það verður þá að hafa það þó að nútímaútgerðarmenn eins og Guðmundur Kristjánsson hafi einhvern annan skilning á þessu, en ég leyfi mér að skilja þetta þeim skilningi sem stendur í lögum og kjarasamningum og því sem ég hef kynnst af reynslu minni.

Í kjarasamningi þessum segir varðandi uppgjörstímabil — ég veit ekki hvort menn vita það almennt en það eru mörg, mörg ár, margir áratugir síðan samið var um að uppgjörstímabil á togurum væri hver veiðiferð. Ætli upphaf þeirrar deilu megi ekki rekja allt til 1958 í hinu stóra togaraverkfalli sem þá var, a.m.k. hluti af því.

Síðan hefur það verið þannig núna að í kjarasamningum fiskimanna eru ákvæði um að á togurum skuli hver veiðiferð gerð upp sérstaklega og það byggist auðvitað á þeirri hugsun að vinnutími í hverri veiðiferð er mjög misjafn, aflabrögð í hverri veiðiferð eru líka mjög misjöfn. Og af því að sjómenn eru með hlutaskiptakerfi og fá laun samkvæmt aflanum sem skip veiða annars vegar og hins vegar því verði sem fæst fyrir aflann, þá gefur það augaleið að menn hafa litið svo á að þegar vel fiskast þá njóta menn þess í magni og vonandi líka í verði vegna þess að meðferð aflans hefur batnað mikið á undanförnum árum. Ef hins vegar koma veiðiferðir þar sem illa fiskast hafa menn minna út úr þeim enda er þá vinnan oftast nær minni og allt upp í það að vera lítil ef menn þurfa mikið að eyða í keyrslur á milli veiðisvæða í leit að fiski með litlum árangri. Þekkt dæmi eru um að menn hafi farið einn og hálfan hring í kringum Ísland án þess að fá mikið af fiski og tekið í það nokkra daga og haft þá lítið kaup og jafnvel bara kauptryggingu út úr slíkum veiðiferðum þó á togara væru.

En í umræddum kjarasamningi er mjög sérstakt ákvæði sem er eiginlega að taka eigi, eins og ég skil kjarasamninginn, þessi ákvæði hreinlega úr sambandi, því að þar segir, með leyfi forseta:

„Sé skip á veiðum, þegar nýtt kauptryggingartímabil hefst, skal afli þeirrar veiðiferðar skiptast á milli tímabila á þann hátt, að afla skal skipta jafnt á hvern dag frá því að skipið fór á veiðar og þar til það kemur úr veiðiferð á ný.“

Einnig segir: „Hver almanaksmánuður er sérstakt kauptryggingartímabil. Hefji skip veiðar eftir 15. hvers mánaðar og nái aflahlutur ekki kauptryggingu við næstu mánaðamót, þá skulu þeir dagar teljast með kauptryggingartímabili næsta mánaðar á eftir.“

Einnig kemur fram að ef skip sigli með aflann á erlendan markað, fari í svokallaða söluferð, teljist hver veiðiferð sérstakt kauptryggingartímabil.

Auk þess segir: „Veiðiferðir utan efnahagslögsögu Íslands úr stofnum sem ekki eru íslenskir deilistofnar eru sérstakt kauptryggingartímabil og teljast því ekki til sama kauptryggingartímabils og aðrar veiðar skipsins.“

Það er því tekið á því þegar farið er út úr lögsögunni og ef farið er í söluferðir er hver veiðiferð gerð upp sérstaklega. En ég fæ ekki betur séð en verið sé að leggja það niður að gera upp hverja veiðiferð sem sérstakt uppgjörstímabil og sérstakt kauptryggingartímabil fyrir viðkomandi áhöfn í viðkomandi veiðiferð. Mér finnst það mikil afturför því þetta er atriði sem sjómannasamtökin börðust fyrir árum og áratugum saman og fengu í kjarasamninga sína fyrir mörgum árum að því er varðar togara. Ég er því ekki mjög hlynntur því að slíkt ákvæði geti gengið úr fortíðinni inn í nútímann. Veiðiferðir eru misjafnar og gefa misjafnan afla. Vinnutími er misjafn og miserfiður og fer eftir afköstum, aflamagni, veðurfari og öðru slíku. Mótuð var sú stefna fyrir löngu af sjómannasamtökum Íslands að sjómenn skyldu fá uppgjör miðað við vinnuframlag sitt að þessu leyti.

Eins og hér er verið að gera finnst mér vera svipað og ef sagt hefði verið við fólk í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur sem vinnur föstudaga, laugardaga og sunnudaga í verslun, jafnvel langt fram eftir kvöldi: Þið skuluð hafa jafnmikið kaup og þeir sem vinna mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga og vinna jafnvel styttri vinnutíma, þess vegna frá 10–19, þegar helgartíminn er kannski miklu lengri og þar að auki um helgi. Síðan væri þessu blandað saman í einn uppgjörspakka og allir fengju jafnt kaup hvernig sem þeir ynnu. Þetta held ég að sé mikil afturför, virðulegi forseti, og ég ætla að leyfa mér að fullyrða það í þessum ræðustól að þetta standist ekki lög. Þess vegna ætla ég að lesa upp úr sjómannaalmanaki. Sjómannalög, 32. gr., sem segir svo, með leyfi forseta:

„Mánaðarlega skal skipverja látið í té sundurliðað launauppgjör til hans nema kjarasamningar mæli fyrir um skemmri uppgjörsfrest.“

Það er einmitt þetta sem málið snýst um. Kjarasamningar sjómanna mæla fyrir um skemmri uppgjörsfrest og mæla fyrir um að hver veiðiferð skuli gerð upp sérstaklega og sem sérstakur túr og kauptryggingartímabil. Lagatextinn segir því alveg fyrir um það að hafi menn gert kjarasamninga á vegum heildarsamtaka um þetta eigi þeir að gilda.

Ég var að vitna í sjómannalögin, og hvers vegna var ég að vitna í þau? Vegna þess m.a. að sá kjarasamningur sem ég er með í höndunum vitnar víða í sjómannalögin, t.d. varðandi frítöku því í kjarasamningnum segir:

„Frídagar og frítaka.

Um önnur frí en hafnarfrí gilda almennar reglur sjómannalaga, nr. 35/1985.“

Ég hef hvergi séð í sjómannalögunum nokkurt ákvæði um það hvaða hafnarfrí menn eiga enda er það markað í kjarasamningi en ekki sjómannalögum. Það er algerlega klárt. Sjómannalögin segja ekkert um það hvort það á að vera einn frídagur á svona margra daga fresti, 30 tímar eftir hverja veiðiferð eða helgarfrí eða annað slíkt. Öll atriði sem heita frítaka varðandi einstakar veiðigreinar eru í kjarasamningum sjómanna og sjómannalögin vernda kjarasamninga sjómanna og stéttarfélögin vinnudeilur eðlilega.

Ég vildi gera þetta að umræðuefni því mér finnst eiginlega ekki hægt að ræða um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem í greinargerð er sérstaklega vikið að því hvað hafi gerst varðandi kjarasamninga sjómanna á fiskiskipum á tímabilinu 15. janúar 1985 til 31. desember 2003. Þar eru dregin fram samningslaus tímabil, gildistími kjarasamninga og hvenær lög hafi verið sett á sjómenn. Við vitum að síðustu lög sem voru sett voru um kjaradeilu sem var uppi vorið 2001, ef ég man rétt. Þá voru sett á sérstök lög á Alþingi og settur gerðardómur sem kvað upp úrskurð um ýmis atriði sem sneru að þeirri kjaradeilu.

Hingað til hefur löggjafinn oft verið tiltölulega stutt undan þegar sjómenn hafa þurft að beita verkfallsvopninu og ég vonast vissulega til þess að löggjafinn taki ekki að sér að leysa þá deilu sem sjómenn og útgerðarmenn eiga í núna. Nóg er komið eins og fram kemur í fylgiskjali með frumvarpi um samningslaus tímabil og lögbundin tímabil sem hafa fylgt lagasetningu frá Alþingi. Ég held að mikil þörf sé á því að sjómannasamtökin og LÍÚ semji um lausn kjarasamninganna og um þær breytingar sem menn vilja láta verða á kjarasamningunum.

Hins vegar er dálítið skondið að menn skuli vera í þeirri stöðu að rífast við útgerðarmann sem vill sérstaklega gera kjarasamning sem brýtur upp það kjarasamningaform sem gert hefur verið á undanförnum árum. Ég fæ ekki séð að það þjóni hagsmunum útgerðarmanna til framtíðar að vinna þannig að málum. Útgerðarmenn virðast einnig hafa komist að þeirri niðurstöðu því í kröfugerð Landssambands ísl. útvegsmanna sem lögð var fram gegn Sjómannasambandi Íslands árið 2000 sem var á undan þeirri deilu sem kom í Alþingi og voru sett lög á er m.a. ein krafa útgerðarmanna á hendur Sjómannasambandinu. Með leyfi forseta ætla ég að lesa þá kröfu, en þar segir um sérsamninga, grein 1.4.0:

„Sérsamningar útgerðarmanns við einstaka skipverja eða skipshafnir sem fara í bága við samning þennan, eru ógildir, enda hafi viðkomandi félag sjómanna og samtök útvegsmanna ekki samþykkt þá.”

Ég vek athygli á því að þetta er krafa LÍÚ gegn Sjómannasambandinu en ekki öfugt, vegna þess að heildarsamtök útvegsmanna höfðu þá skoðun að miðað við hvernig stéttarfélögin og stéttarsamböndin hafa það mörg hver í dag sé mjög óheppilegt að láta kjarasamninga þróast á þann veg að menn standi í deilum innan hvers fyrirtækis og hver um sig í deilum við útgerðarmann sinn o.s.frv. Við höfum reynt þetta í sambandi við fiskverðið og það hefur þurft að taka miklum breytingum og lagfæringum til að komast aftur frá því návígi sem var á milli áhafna og sjómanna.

Virðulegi forseti. Ég vildi draga þetta fram vegna þess að nauðsynlegt er að varpa ljósi á þá deilu sem er í gangi. Hún tengist því máli sem verið er að flytja. Ég ítreka það enn og aftur að ég er þeirrar skoðunar að ef frumvarpið hefði verið orðið að lögum hefðu kennarar t.d. varla með samþykki sveitarfélaganna í sumar fengið næði til að fresta kjarasamningagerð vikum saman.