Hollustuhættir og mengunarvarnir

Þriðjudaginn 19. október 2004, kl. 14:27:47 (612)


131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[14:27]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7 frá 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir: Frumvarpið er samið í umhverfisráðuneytinu í samráði við Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í því er lagt til að hollustuháttaráð, sem nú starfar samkvæmt 17. gr. laganna, verði lagt niður í núverandi mynd og í stað þess verði skipuð þriggja manna samstarfsnefnd.

Hlutverk hollustuháttaráðs er samkvæmt núgildandi lögum að fjalla um þá þætti sem falla undir lögin og varða atvinnustarfsemi svo sem samhæfingu krafna og eftirlits. Enn fremur skal ráðherra leita álits ráðsins um þá þætti er varða atvinnustarfsemi svo sem lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár.

Ráðið hefur verið skipað níu mönnum, þ.e. fulltrúum frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, ASÍ, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa og landlæknisembættinu auk forstjóra Umhverfisstofnunar og formanni tilnefndum af ráðherra. Ráðið hefur starfað síðan 1998 og þykir reynslan af störfum þess ekki gefa tilefni til að halda því áfram í núverandi mynd.

Upphaflega var tilgangur ráðsins að skapa samráðsvettvang milli stjórnsýslunnar annars vegar og atvinnulífsins hins vegar um eftirlit og kröfur sem settar hafa verið á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Segja má að sú skipan hollustuháttaráðs sem verið hefur hafi ekki náð að fylgja því hlutverki eftir með markvissum hætti. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af störfum ráðsins er því lagt til að hlutverki þess og samsetningu verði breytt svo að um verði að ræða lögbundið samráðsferli sem snýr að stjórnvöldum annars vegar, þ.e. umhverfisráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og atvinnulífinu hins vegar, þ.e. Samtökum atvinnulífsins. Er gert ráð fyrir að hin nýja samráðsnefnd fjalli áfram um stefnumarkandi þætti er falla undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og varða atvinnustarfsemi. Að auki er lagt til að nefndin geti haft frumkvæði að því að taka upp slík mál við ráðherra og sveitarfélögin en hollustuverndarráði er ekki ætlað slíkt hlutverk samkvæmt núgildandi lögum. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til umhverfisnefndar.