Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 15:30:33 (815)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:30]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér nú á blankskóm en ekki gúmmískóm, en hv. þm. má nota þau orð um okkur unga fólkið í Framsóknarflokknum sem honum sýnist.

Ég vil halda hér einu til haga og þá kannski sérstaklega sem formaður iðnaðarnefndar. Ég rakti í máli mínu að mörg sveitarfélög og margir landshlutar glíma við mjög erfið vandamál. Ég rakti líka að núverandi ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún muni reyna að mæta þessum sveitarfélögum og þessum landsvæðum í þeim vandamálum. Það er alveg á hreinu að ég var ekki að draga upp neina glansmynd af byggðastefnu stjórnvalda. Ég gat þess sérstaklega í upphafi máls míns að ég yrði trúlega frekar á þeim nótunum að benda á það sem betur mætti fara og það gerði ég, en það er einfaldlega svo að það er ekki allt djöfullegt í byggðamálum okkar Íslendinga. Þannig er það ekki og verður vonandi ekki.