Veggjald í Hvalfjarðargöng

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 17:54:32 (851)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[17:54]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson sagði, að hér er mikið sanngirnismál á ferðinni. Umræða um gjaldið í göngin hefur þess vegna orðið mikil og farið vaxandi. Það er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvers vegna menn hafa verið svo tregir í taumi við að lækka þetta gjald og koma til móts við möguleika til þess, sem vissulega eru til staðar.

Það er t.d. ljóst að ríkið tekur 14% í virðisaukaskatt af veggjaldi um göngin. Það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni fyrir menn þegar menn vita að samningurinn er því marki brenndur að ríkið eignast þetta umferðarmannvirki skuldlaust á 20 árum. Skyldi það ekki vera nóg fyrir ríkið, að fá þetta mikla og góða mannvirki skuldlaust í hendur eftir 20 ára rekstur ganganna?

Nei, það er ekki nóg. Menn vilja innheimta af þessu virðisaukaskatt og hafa a.m.k. fram að þessu ekki verið færir um að ná fram lækkunum á gjaldinu. Það verður að svara fyrir þetta við þessa umræðu. Mér finnst bera vel í veiði að hæstv. samgönguráðherra er hér í salnum og getur svarað spurningum um þessi efni. Ég átti á dagskrá þingsins í gær fyrirspurn til hans um sama efni. Ég býst við að fái ég góð svör við þeim spurningum sem ég ætlaði þar að leggja fram muni ég draga þá fyrirspurn til baka. Mér finnst sú umræða alveg eins geta farið fram hér og nú.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um hvenær kæmi til framkvæmda boðuð lækkun virðisaukaskatts á veggjald í Hvalfjarðargöngum og hvaða aðgerðir hæstv. ráðherra hefði í undirbúningi til að lækka gjaldið eða fella það niður. Yfirlýsingar hæstv. ráðherra um þetta liggja fyrir.

Hann sagði í svari við fyrirspurn frá mér 29. mars síðastliðinn, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er hins vegar ljóst að ég hef verið mikill áhugamaður um að Spölur lækkaði þetta gjald. Til viðbótar hef ég lýst því yfir að þegar gengið verður í að lækka virðisaukaskattinn falli gjaldið þar undir lægra þrepið eins og að er stefnt.“

Þessi yfirlýsing liggur fyrir frá hæstv. ráðherra. Hvar í ósköpunum er þessi hluti málsins staddur? Heldur Framsókn þessu máli kannski í gíslingu eða var ekki innstæða fyrir yfirlýsingu hæstv. ráðherra? Það er að mínu viti kominn tími til að standa við þessi orð og það fyrir nokkuð löngu.

Hæstv. forseti. Það kom fram í skýrslu nefndar sem hæstv. ráðherra samgöngumála skipaði að ýmsar leiðir aðrar væri hægt að fara til að lækka gjöld í göngin. Meðal annars mætti yfirtaka hamfaratryggingu og hryðjuverkaárásatryggingu sem eru á göngunum og fá þannig fram lækkun á gjaldinu fyrir að nota þau. Hefur hæstv. ráðherra uppi ráðagerðir um það og hvaða ráðagerðir eru það?

Það liggja fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðherra samgöngumála um að hann sé á móti yfirtöku ríkisins á hlutverki Spalar í Hvalfjarðargöngunum og þar með niðurfellingu veggjaldsins. Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvaða skoðun hefur hæstv. ráðherra á tillögu þeirri sem hér er til umræðu, um að fella niður veggjaldið í göngin? Getum við kannski gert okkur vonir um að sú tillaga sé fyrirboði stefnubreytingar? Hv. þm. Guðjón Guðmundsson er samflokksmaður hæstv. ráðherra svo að það er eðlilegt að menn spyrji um það.

Síðan hlýt ég að spyrja í öðru lagi út í niðurstöður stefnumörkunar um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja, þ.e. veggjöld, sem ráðherra sagði í vor að mundu liggja fyrir á þessu hausti.

Ráðherrann sagði nefnilega 5. desember í fyrra, í umræðum utan dagskrár, með leyfi forseta:

„Upp úr áramótum“ — þ.e. síðustu áramótum — „er að vænta tillagna frá starfshópi sem ég skipaði sem mun vinna að framtíðarstefnu í gjaldtöku vegna fjármögnunar samgöngumannvirkja. Ef við ætlum að halda áfram uppbyggingu samgöngukerfisins á landi með sama hraða og hingað til á næstu árum verðum við að halda opnum möguleikunum á sérstakri fjármögnun verkefna sem rúmast ekki í samgönguáætlun. Sundabraut og áformuð brúarmannvirki og jarðgöng væru dæmi um stór verkefni sem rúmast ekki með viðunandi hætti innan núverandi tekjumöguleika samgönguáætlunar og þess vegna er slík vinna í gangi. Því erum við að móta stefnu um gjaldtöku sem við munum kynna síðar á Alþingi.“

Hér talaði hæstv. ráðherra um Sundabraut. Svo vill til að Hvalfjarðargöng eru eina samgöngumannvirkið þar sem veggjald er greitt en yrði veggjald sett á Sundabraut þá yrðu menn tvisvar skattlagðir á leiðinni milli Vesturlands og höfuðborgarinnar. Samt er unnið að feiknadýrum framkvæmdum á Reykjanesbraut, svo dæmi sé tekið, en ekki hafa verið uppi áform um að taka þar veggjald og ekki heldur vegna jarðganga sem verið er að grafa og til stendur að grafa. Getur það verið framtíðin að þeir sem koma að norðan og vestan til höfuðborgarsvæðisins borgi en þeir sem koma að sunnan og austan borgi ekki? Að greitt verði í Hvalfjarðargöngin ein og ekki í önnur sambærileg samgöngumannvirki?

Hæstv. ráðherra svaraði annarri fyrirspurn frá mér sem hér segir, með leyfi forseta:

„Ég tek undir það með hv. þm. hve mikilvægt er að við mörkum klára stefnu hvað þetta varðar. Það er einmitt það sem unnið er að um þessar mundir eins og fram kom í svari mínu áðan. Þegar nauðsynlegri undirbúningsvinnu er lokið verður að sjálfsögðu hægt að kynna þá vinnu fyrir þinginu. Ég geri ráð fyrir að þá verði hægt að gera grein fyrir málinu gagnvart hv. samgöngunefnd.

Við þurfum að vanda okkur við þetta verk því að hér er um stórt mál að ræða. Ef við ætlum að taka upp gjaldtöku vegna notkunar á umferðarmannvirkjum verður eitt yfir alla að ganga. Það þarf þess vegna að undirbúa mjög vandlega og að því er unnið.“

Ég spyr: Hvað er að frétta af starfshópnum? Áramótin eru löngu liðin. Hverjar eru tillögur hópsins? Af hverju hefur hæstv. ráðherra ekki gert samgöngunefnd grein fyrir tillögunum eins og hann lofaði? Munu tillögurnar tryggja að eitt verði látið yfir alla ganga, eins og hæstv. ráðherra sagði?

Mér finnst alveg full ástæða til að spyrja þessara spurninga hérna. Fái ég viðunandi svör mun ég draga til baka fyrirspurn mína sem liggur fyrir á dagskrá þingsins.