Veggjald í Hvalfjarðargöng

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 18:35:25 (859)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:35]

Jón Bjarnason (Vg):

Forseti. Hér hefur verið rætt um tillögu til þingsályktunar um veggjald í Hvalfjarðargöng sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson flytur. Þessi mál hafa verið rædd á undanförnum þingum og enn fremur liggur fyrir Alþingi fyrirspurn frá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um sama efni.

Ég hef ekki miklu að bæta við það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti, bæði um tilurð fjármögnunar og framkvæmdar Hvalfjarðarganganna og líka þau atriði sem er sjálfsagt, skylt og nauðsynlegt að endurskoða hvað viðvíkur gjaldtöku og upphæð þeirra gjalda.

Ég held að nauðsynlegt sé að halda því til haga að framkvæmdin fellur í eigu ríkisins eftir 20 ára notkun og verður þá með eðlilegum hætti hluti af samgöngumannvirkjum í eigu ríkisins.

Það er nauðsynlegt þegar þessi mál eru rædd að horfa á þau í stærra samhengi. Er þetta stefna eða eðlilegur þáttur í samgöngumannvirkjagerð í einstaka tilvikum að fara út í gjaldtöku? Eiga þær framkvæmdir að vera á vegum einkaaðila eða á vegum ríkisins? Ríkið getur alveg farið í ákveðnar framkvæmdir og tekið þá ákvörðun að innheimta hluta af þeim stofnkostnaði í formi gjaldtöku. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að vegaframkvæmdir eigi almennt að vera á ábyrgð ríkisins. Ríkið ætti að geta náð lánsfjármagni á hagkvæmari kjörum en einkaaðilar, þannig að þá hefur ríkið miklu frekar í hendi sér að stýra gjaldtökunni, ef hún er valin, hlutfalli hennar og lengd gjaldtökutímabilsins. Þetta þarf allt að ræða þegar málin eru skoðuð heildstætt sem verður að gera.

Varðandi upphæð veggjaldanna í Hvalfjarðargöng finnst mér alveg einboðið að skoðað sé hvort lækka megi þá gjaldtöku. Hvort ríkið eða hlutafélagið sem er rekstraraðili er að taka til sín óeðlilega háan hlut. Hvort lækka megi þau gjöld sem renna til ríkisins eins og virðisaukaskattinn eða trygginguna sem verður að greiða vegna öryggis í göngunum. Þarna er líka um háar upphæðir að ræða sem hafa áhrif á upphæð gjaldanna. Þetta átti að greiðast upp á 20 árum. Er eðlilegt að slík mannvirki séu greidd svo hratt upp að einungis fjórðungur úr kynslóð borgi það upp? Þetta má allt líka skoða finnst mér. Lánin sem á mannvirkjunum voru er hægt að ræða um, breytt lánskjör o.s.frv. Er hægt að greiða þau hraðar upp? Allt þetta verður að taka með í reikninginn þegar þetta er skoðað.

Að sjálfsögðu er stefnt að því að gjaldtakan sé sem allra lægst og ekki sé verið að innheimta hærri gjöld en nauðsynlegt er. Því er mikilvægt að fara í skoðun sem tekur mið af því að lækka gjöldin, dreifa þeim á notendur, láta fasta notendur greiða mun minna ef um gjaldtöku er að ræða, en aðra meira. Það er alveg sjálfsagt og ég styð eindregið að farið verði ofan í þessi mál svo að þetta valdi þeim notendum sem yrðu háðir að nota göngin sem minnstri byrði og notkunin komi þeim sem best. Ég styð það mál eindregið.

Ég get ekki annað en vikið aðeins að því sem stendur í greinargerð hjá hv. flutningsmanni þar sem honum dettur í hug að nota hugsanlegt söluverð Símans til þess að greiða niður stofnkostnaðinn við Hvalfjarðargöngin. Ég man umræðuna sem var þegar verið var að selja bankana, þá átti að gera allt fyrir söluandvirði bankanna. Það átti að byggja menningarhús, búa til veggöng, bara nefndu það, allt átti að gera fyrir andvirði af sölu bankanna. Þegar upp var staðið reyndist þetta ekki neitt sérstaklega há upphæð og hafði engin afdrifarík áhrif á framkvæmdir í landinu, síður en svo. Nú byrjar aftur sami söngurinn: Þið fáið ekki menningarhús á Vesturlandi, Norðurlandi eða hvar það er, nema Síminn verði seldur. Það á að búa til jarðgöng hér og jarðgöng þar fyrir andvirði Símans o.s.frv. Einnig á að greiða niður allar skuldir ríkisins fyrir andvirði Símans.

Mér finnst þetta vera mjög fátækleg umræða og rangt innlegg í umræðuna. Síminn skilar nú þegar 2,3 milljarða kr. arði á ári til ríkisins. Vita menn það? Og skilar 7–8 milljarða kr. hagnaði á ári sem er verulega há renta miðað við það fjármagn sem menn tala um að sé söluandvirði hans.

Í góðum málum og í góðum hug eiga menn ekki að blanda svona löguðu saman. Auk þess hélt ég að það væri stefna Sjálfstæðisflokksins, sem ég reyndar styð, að menn eigi ekki að blanda sértækum tekjustofnum of mikið inn. Við höfum það í vegáætluninni, en ríkissjóður er jú bara einn ríkissjóður, hann er ekki margir ríkissjóðir. Allt saman er þetta á einum stað.

Ég verð því að lýsa mig mjög andvígan því að menn tengi sölu Símans við einhverjar vegabætur. Styrk Símans og Símann á að nota til þess að efla fjarskiptakerfið. Ríkið á að eiga Símann sem skilar á þriðja milljarð kr. í arð á ári og á að nota hann til þess að efla fjarskiptin um land allt. Það held ég að við hljótum að gera verið sammála um.