Veggjald í Hvalfjarðargöng

Fimmtudaginn 21. október 2004, kl. 18:43:16 (860)


131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:43]

Örlygur Hnefill Jónsson (Sf):

Herra forseti. Þingsályktunartillaga sú sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson mælir fyrir er allrar athygli verð. Málið varðar vissulega marga og er grunnsjónarmið umferðar um þjóðvegakerfið. Ljóst er að Hvalfjarðargöngin hafa valdið byltingu í samgöngum og þess njóta allir sem fara vestur, norður og austur um land. Ekki er minni ávinningurinn sem þessi mikla samgöngubót hefur haft á byggðaþróun. Það er rökstuðningur þess sem rætt var fyrr í dag, um skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra, að samgöngubætur eru gríðarlega mikið byggðamál og hæstv. samgönguráðherra, sem hér er, kom ítarlega inn á það mál.

Norðan Hvalfjarðar hafa áhrifin verið þau að byggð hefur eflst og við sjáum virka byggðastefnu vestur um og upp Borgarfjörð og mér finnst hún hafa náð alla leið upp að Bifröst. Þá er ógetið þess mikla fjárhagslega ávinnings sem göngin hafa haft á eignir fólks sem býr norðan Hvalfjarðar en hann er gríðarlegur.

Ég skildi ábendingar og varnaðarorð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lét falla. Auðvitað þarf að skoða þessi mál, en hv. þm. nefndi Eyrarsundsbrúna. Ég held að ákveðið vandamál með Eyrarsundsbrúna og gjaldtöku af henni sé að gjaldtakan er þannig að menn nota enn ferjukerfi þar. Þess vegna er þingsályktunartillagan sem hér er flutt þörf. Hér er talað um að leita leiða til lækkunar. Það er slæmt ef gjaldtakan er farin að hafa áhrif á að menn veigri sér við að flytja fyrirtæki norður fyrir Hvalfjörð. Þetta er hlutur sem þarf að skoða og því er þingsályktunartillagan gott innlegg í þá umræðu.