Breytingar á stjórnarskrá

Þriðjudaginn 02. nóvember 2004, kl. 13:57:57 (894)


131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[13:57]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu sem þingmenn Samfylkingarinnar flytja um endurskoðun stjórnarskrár. Eins og fram kom á liðnu sumri og síðasta vori voru miklar umræður um að nauðsynlegt væri að breyta stjórnarskránni. Þær umræður hófust síðan á flug þegar hæstv. þáverandi forsætisráðherra flutti merkilega ræðu í tilefni af 100 ára afmæli heimastjórnar á málþingi í háskólanum. Ráðherrann sagði þá að það væri ætlan núverandi ríkisstjórnar, sem illu heilli situr enn þá, að ráðast í endurskoðun á stjórnarskránni. Hæstv. ráðherra gat þess jafnframt að það væri áform og vilji ríkisstjórnarinnar að sú endurskoðun lyti fyrst og fremst að I. og II. kafla stjórnarskrárinnar og tæki þar með einkum á skipan forseta embættisins og áhrifum og völdum forsetans. Þessu var lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Í kjölfar þeirra hörðu deilna sem urðu hér um fjölmiðla í vor og sumar voru þessi áform ítrekuð af hæstv. ríkisstjórn. Þá var jafnframt aftur og aftur vísað til ummæla sem m.a. ég og forustumenn annarra stjórnarandstöðuflokka áttum að hafa látið frá okkur fara um vilja okkar til þess að taka þátt í því að endurskoða stjórnarskrána, fyrst og fremst með það fyrir augum að fara í þessa kafla. Ég hef að vísu nokkrum sinnum leiðrétt þetta, bæði fyrir mína hönd og annarra pólitískra vandamanna, en ég vil í upphafi máls míns undirstrika að það hefur aldrei af hálfu Samfylkingarinnar verið tekið undir það að ráðast eigi í endurskoðun stjórnarskrárinnar fyrst og fremst til þess að huga að stöðu forsetans. Við höfum ítrekað sagt það og leggjum á það áherslu enn í dag að það séu mörg önnur atriði sem stjórnarskrá tengjast sem nauðsynlegt er að skoða.

Ég vil líka að gefnu tilefni, af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er fjarstaddur, rifja það upp að sá ágæti þingmaður, formaður VG, lagði sömu áherslu í blaðaviðtali þar sem þetta bar á góma. Það þingmál sem ég ræði hér og flyt fyrir hönd Samfylkingarinnar felur einmitt í sér þau stefnuatriði sem við í Samfylkingunni teljum að eigi að koma til álita þegar stjórnarskráin verður tekin til endurskoðunar.

Það skiptir líka ákaflega miklu máli að strax í upphafi sé lögð á það áhersla að endurskoðun stjórnarskrárinnar er mál sem varðar alla þjóðina, ekki bara okkur sem sitjum á hinu háa Alþingi, ekki ríkisstjórnina, heldur fyrst og fremst þjóðina, stjórnarskrárgjafann. Til hans hljótum við að leita um ráð og hugmyndir þegar kemur að því að endurskoða stjórnarskrána. Þess vegna er í tillögunni lögð rík áhersla á að sú nefnd sem hugsanlega verður skipuð til þess að endurskoða stjórnarskrána beiti sér fyrir málstefnum, málfundum og samræðu við þjóðina til að ná fram þessum hugmyndum. Þetta mál á ekki að loka inni í nefnd, þetta á að vera opin og lýðræðisleg umræða sem allir þegnar þjóðarinnar koma að. Við í Samfylkingunni ætlum okkur ekki þá dul að segja til um vilja þjóðarinnar í þessu efni. Við sem stjórnmálahreyfing höfum lagt fram ákveðin áhersluatriði sem við teljum að eigi að vera veganesti inn í umræðuna.

Í stuttu máli, herra forseti, ætla ég að gera grein fyrir þessum atriðum, í fyrsta lagi að rætt verði í stjórnarskrárnefnd með hvaða hætti megi tryggja sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Þetta hefur um langt skeið verið baráttumál jafnaðarmanna, raunar allt frá því að jafnaðarstefnan hófst til vegs snemma á síðustu öld. Í vaxandi mæli hefur verið lögð meiri áhersla á þetta tiltekna mál og sú áhersla hefur komið fram innan fleiri flokka en bara Samfylkingarinnar. Ég tel, herra forseti, að um þetta mál eigi að vera hægt að ná góðri samstöðu vegna þess að aðrar stjórnmálahreyfingar, t.d. Framsóknarflokkurinn, hafa reifað málið og gert um það samþykktir á fundum sínum. Það er að skapast breiður vilji til þess að í stjórnarskrá verði kveðið fast á um það að sameiginlegar auðlindir sem hægt er að sýna fram á að ekki eru helgaðar af einkaeignarrétti eigi að vera þjóðareign. Auðlindanefndin, sem allir flokkar áttu sæti í sem þá sátu á Alþingi og skilaði af sér árið 2000, skilgreindi þetta mjög ítarlega og ég segi fyrir hönd Samfylkingarinnar að við teljum að þeirri skilgreiningu eigi að fylgja. Með vissum hætti snertir uppruni þeirrar skilgreiningar okkur sem sitjum hér á þinginu vegna þess að það var litið til þess að árið 1928 skilgreindi þetta þing þjóðareign þegar sett voru lög um sameign þjóðarinnar á Þingvöllum sem núna er orðin að formlegum þjóðgarði.

Í öðru lagi teljum við einboðið að í stjórnarskrá verði sett ákvæði um það að tiltekinn hluti landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál. Þetta er eitt af því sem skiptir hvað mestu máli varðandi breytingar á stjórnarskránni og ég vil að gefnu tilefni, herra forseti, taka það alveg skýrt fram að ekki er hægt að leggja rétt forseta lýðveldisins til þess að synja lagafrumvarpi staðfestingar og skjóta því til þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu að jöfnu við þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hér er um rætt. Þetta tvennt er óskylt. Ég segi það að gefnu tilefni, það hefur komið fram af hálfu ýmissa talsmanna ríkisstjórnarinnar, m.a. í viðtölum við hæstv. forsætisráðherra, að hægt sé að gera einhvers konar skipti á málskotsrétti forseta lýðveldisins og farvegi sem stjórnarskrá tryggði fyrir tiltekinn minni hluta landsmanna að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo er ekki. Þarna er um að ræða tvö aðskilin og að mínu viti óskyld mál.

Við í Samfylkingunni erum almennt þeirrar skoðunar að í vaxandi mæli þurfi að skapa landsmönnum, bæði á vettvangi landsmála en líka innan sveitarfélaga, möguleika á því að hafa bein áhrif á ákvarðanir sem varða líf þeirra og umhverfi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar þó að ekki sé rétt að slá það í gadda í stjórnarskrá að með stækkun sveitarfélaga sem við í Samfylkingunni höfum barist fyrir skapist möguleikar til þess að flytja í vaxandi mæli viðameiri og flóknari verkefni yfir til sveitarfélaganna, framhaldsskólann, heilsugæslu, alla umönnun aldraðra o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar, og við erum þeirrar skoðunar að þegar þau skipti og skil hafa orðið í samfélaginu að það er búið að ná slíkum áfanga eigi með lögum að skapa skilyrði til þess að íbúarnir geti haft bein áhrif á stærstu ákvarðanir í þessum stóru málaflokkum, einkum skipulags-, umhverfis-, heilsugæslu- og skólamálum að ógleymdri umhverfisvernd. Þetta vil ég nefna hérna vegna þess að mér er það mál ákaflega hugleikið.

Við í Samfylkingunni höfum líka með hryggð í huga fylgst með því hvernig þrígreining ríkisvaldsins hefur orðið óljósari og hvernig krumla framkvæmdarvaldsins hefur í vaxandi mæli lagt sig og lukið yfir löggjafann og því miður líka seilst inn á svið dómsvaldsins — ég er þá auðvitað að vísa til skipunar hæstaréttardómara síðustu missirin. Við teljum að það verði að veita framkvæmdarvaldinu meira aðhald. Stjórnarskráin talar á tveimur stöðum um slíkt aðhald, hægt er að kjósa sérstakar nefndir samkvæmt 39. gr., og sömuleiðis minnir mig að í 26. eða 28. gr. geti þingnefndir tekið sér vald til þess að rannsaka mál og brjóta til mergjar. Það hafa nefndir stundum reynt að gera og við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að ná því fram að þingnefndir rannsaki tiltekin mál sem upp hafa komið. Það hefur ekki skilað miklum árangri og það hefur aldrei tekist, a.m.k. ekki í sögu lýðveldisins, að nýta ákvæði stjórnarskrárinnar til þess að setja upp sérstaka rannsóknarnefnd vegna þess að það þarf meiri hluta til þess. Ef lýðræðið á að virka og ef Alþingi á að geta haft eftirlit með framkvæmdarvaldinu verður að setja skýrt ákvæði í stjórnarskrána um þetta mál og við sem flytjum þessa tillögu teljum að eitt af því sem eigi að skoða við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé að tiltekinn minni hluti þingheims geti krafist þess að slík nefnd verði sett á laggir. Ég held að þetta muni skipta ákaflega miklu máli í framtíðinni til þess að löggjafinn, Alþingi, geti staðið undir þeirri eftirlits- og rannsóknarskyldu sem fjallað er um í stjórnarskránni.

Í þessari tillögu er sömuleiðis lagt til að mannréttindakaflinn sem við náðum svo ágætri samstöðu um að breyta 1994 verði endurskoðaður með það fyrir augum að ákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem við staðfestum taki gildi jafnskjótt og ríkisstjórn Íslands staðfestir þá með undirskrift viðeigandi ráðherra. Við teljum þetta þarft og brýnt og að þetta sé hluti af því að bæta réttarvernd íslenskra þegna.

Sömuleiðis vekjum við eftirtekt á nauðsyn þess, herra forseti, að hægt sé að breyta stjórnarskrá með svipuðum hætti og frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa gert þannig að hægt sé að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana og til samtaka sem vinna að friði og frelsi í viðskiptum millum þjóða. Í dag er ákvæði í stjórnarskrá sem heimilar ríkisstjórn og forseta að gera þetta. Það er hins vegar álitamál hvort ýmiss konar samningar þar sem við erum í reynd að afsala okkur með varanlegum hætti hluta af fullveldi okkar standist þetta ákvæði. Í vaxandi mæli hefur risið álitamál um að það standist stjórnarskrána að framselja vald gegnum alþjóðasamninga, hugsanlega í gegnum EES-samninginn.

Ég rifja það upp að þegar þingheimur samþykkti aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu komust menn að þeirri niðurstöðu eftir yfirferð vísra manna að þar værum við á gráu svæði. Samt sem áður var talið að þanþol stjórnarskrárinnar væri það mikið að það brysti ekki vegna þessa. Síðan hafa orðið viðamiklar breytingar á innra gangvirki Evrópusambandsins sem hafa leitt til þess að möguleikar okkar til að hafa áhrif á gerðir og tilskipanir þess hafa snöggtum minnkað. Þetta er kannski ekki farið að koma fram í daglegum samskiptum Íslands við Evrópusambandið, í gegnum samninginn um EES, en hitt liggur alveg ljóst fyrir að þau áhrif sem við töldum ásættanleg þá minnka smám saman og er jafnvel hægt að segja frá mánuði til mánaðar. Þetta gerir það að verkum að við þurfum líka að skoða breytingu af þessu tagi.

Í tillögunni er enn fremur lagt til að kannað verði hvort ekki sé tímabært í ljósi þjóðfélagsbreytinga að huga að breytingum á ákvæðum stjórnarskrár um samband ríkis og kirkju. Ég segi það ærlega, herra forseti, að þetta er umdeilt atriði. Það er umdeilt meðal þjóðarinnar hvort þarna eigi að skilja betur á milli. Það er umdeilt í flokkunum, t.d. í Samfylkingunni. Í okkar röðum er fólk sem er alfarið þeirrar skoðunar að svo eigi að gera. Aðrir eru á móti því. Ég er þeirrar skoðunar með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrárinnar um trúfrelsi að ekki sé hægt að segja að hér ríki formlegt og fullkomið trúfrelsi nema þarna sé skilið á milli. Það er mín skoðun. En ég tek það fram að sumir í mínum flokki eru annarrar skoðunar.

Tillögugreinin sem hérna liggur fyrir er ákaflega væg. Þar er einfaldlega verið að leggja til að hugað verði að því hvort tímabært sé að skoða þessar breytingar.

Herra forseti. Ég hef í allra stystu máli farið yfir þær almennu tillögur sem við í Samfylkingunni viljum leggja inn í umræðuna. Það eru tvær aðrar sem þyrfti að reifa betur, um afnám heimildar til bráðabirgðalaga og eins frekar um endurskoðun mannréttindakaflans, en það mun hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gera síðar í umræðunni og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar munu skýra betur og með meiri dýpt einstakar tillögugreinar sem hér eru.

Ég legg til, herra forseti, að tillögunni verði síðan vísað til sérstakrar nefndar um meðferð stjórnarskrár.