Þjóðgarður norðan Vatnajökuls

Miðvikudaginn 03. nóvember 2004, kl. 13:55:28 (939)


131. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2004.

Þjóðgarður norðan Vatnajökuls.

118. mál
[13:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að ríkisstjórnin skuli ætla að reyna að bjarga því sem bjargað verður af ómetanlegu landsvæði fyrir norðan Vatnajökul þegar búið er að reisa eina stærstu vatnsaflsvirkjun Evrópu, Kárahnjúkavirkjun.

Ég vil bara að það komi fram í tengslum við fyrirspurn hv. þm. Marðar Árnasonar að yfirlýsingar hæstv. umhverfisráðherra yfir þessu svæði sem hún telur í náttúrufarslegu tilliti vera einstakt á heimsvísu og eiga möguleika á að komast inn á heimsminjaskrá og mögulegum þjóðgarði á svæðinu norðan Vatnajökuls hvílir skuggi. Sá skuggi er óafmáanlegur, skuggi Kárahnjúkavirkjunar.

Það er tvískinnungur fólginn í því hjá stjórnvöldum að ætla sér að breiða yfir þau gífurlegu náttúruspjöll sem þarna eru framkvæmd með því að stofna þjóðgarð í kringum virkjun sem stendur eins og fleygur í hjarta væntanlegs garðs.