Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 11. nóvember 2004, kl. 17:49:25 (1361)


131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:49]

Pétur Bjarnason (Fl):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur nú lagt fram fyrstu skýrslu sína um utanríkismál. Um leið og ég óska honum heilla í starfi sínu ætla ég að ræða örfá atriði í skýrslu hans.

Skýrslan fjallar að verulegu leyti um störf forvera hans og samráð þessara hæstvirtu ráðherra um þjónkun við stefnu Bandaríkjamanna í Íraksstríðinu. Ég hefði viljað sjá skýrari merki um nýja og e.t.v. breytta stefnu á ýmsum öðrum sviðum hjá nýjum ráðherra. Ég kem síðar að þeim atriðum sem varða hernaðarstefnu íslenskra stjórnvalda. En ég ætla að byrja á að ræða síðustu orð skýrslunnar sem vekja mér nokkrar vonir um stefnubreytingu og aukið aðhald í utanríkisþjónustunni enda er þess mikil og brýn þörf.

Niðurlag ræðu hæstv. ráðherra hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Utanríkisþjónustan er óaðskiljanlegur þáttur í fullveldi Íslands og skiptir miklu að takist að nýta hana í þágu lands og þjóðar. Í þeim tilgangi hefur þjónustan verið efld á undanförnum árum. Það breytir því ekki að meta verður fjölda starfsmanna, staðsetningu sendiskrifstofa og framlög til verkefna erlendis í senn á grundvelli hagsmuna á hverjum tíma og með mesta mögulega hagræðingu í huga.“

Þessi niðurlagsorð skýrslunnar vekja vissulega vonir um breytt viðhorf til útþenslu utanríkisþjónustu þar sem kostnaður hefur keyrt úr hófi fram á undanförnum árum. Útgjöld utanríkisráðuneytis hafa nærfellt þrefaldast á undanförnum átta árum. Sendiráðum hefur fjölgað stöðugt þar sem saman fer óhóflegur stofnkostnaður og rekstrarkostnaður þessara sendiráða. Líklega er hækkun þessa kostnaðar við utanríkisþjónustuna mjög nærri því að vera sjö sinnum meiri en hækkun vísitölu neysluverðs á Íslandi á sama tíma. Það er erfitt að sjá fyrir sér réttlætingu á svo stórkostlegri hækkun á sama tíma og önnur ríki draga úr umsvifum sínum og kostnaði vegna sendiráða og nýta sér nýjustu tækni til þess að efla samskipti sín við aðrar þjóðir. Má t.d. nefna að Bretar eru að draga verulega úr starfsemi sendiráða sinna erlendis. Ég hef heyrt töluna 40 í því sambandi.

Danska ríkisstjórnin lagði fram áætlun á síðasta vetri um að leggja niður 130 stöður á næstu tveimur árum og jafnframt leita leiða til þess að lækka húsnæðiskostnað. Danir hafa þegar lagt niður á annan tug sendiráða og fækkað stöðugildum mjög verulega. Sendiráðum okkar hefur hins vegar fjölgað töluvert á undanförnum árum eins og ég hef þegar getið um og sum þeirra hafa verið verulega umdeild vegna óheyrilegs kostnaðar.

Við Íslendingar ættum að geta dregið einhvern lærdóm af þessum aðgerðum nágranna okkar. Við hljótum að geta markaðssett okkur og gætt hagsmuna þegna og viðskiptalífs með hagstæðari hætti en hér hefur verið gert á síðustu árum. Það er ekki réttlætanlegt að setja upp sendiráð með yfir hálfan milljarð í stofnkostnað og hundruð milljóna í rekstrarkostnað á ári til þess að byggja upp viðskiptahagsmuni eða á annan hátt treysta bönd okkar við umheiminn. Það hljóta að vera mun virkari leiðir til þess en að beina þeim viðskiptum í gegnum diplómataleiðina sem verður æ fjarlægari hinum raunverulega viðskiptaheimi með hverju árinu sem líður.

Virk dæmi úr hinni íslensku útrás efnahagslífsins ættu að sanna það betur en flest annað þar sem íslensk fyrirtæki hafa ötullega unnið sér sess á alþjóðlegum markaði og a.m.k. mörg þeirra án þess að hafa notið hinnar diplómatísku velvildar og fyrirgreiðslu. Þau hafa mörg hver komist þangað sem þau eru nú án þess að sendiráðin hafi eytt dýrmætu fjármagni sínu í öflun viðskiptasambanda fyrir þau.

Nú geri ég ekki lítið úr þeim áhrifum sem hægt er að hafa í gegnum utanríkisþjónustuna og vissulega hefur á hennar vegum og í samráði við hana verið staðið fyrir mjög mörgum athyglisverðum dagskrám og kynningu á Íslandi og íslenskum varningi. Hér þarf fyrst og fremst að gæta hófs og beita meira aðhaldi en verið hefur.

Ég vona að fyrrgreind tilvitnun boði stefnubreytingu í þessum efnum og bendi einnig á bls. 11 í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra. En hann sagði, með leyfi forseta:

„Þannig er til dæmis nauðsynlegt að tvíefla alla viðleitni til að kynna Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn. Í því skyni þarf utanríkisþjónustan að auka samstarf sitt við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og þau stjórnvöld sem fara með ferðamál.“

Samvinna ferðaþjónustu og utanríkisþjónustunnar er nauðsynleg og ég fagna aukningu hennar sem hér kemur fram. Þær áherslur verða til hagsbóta í starfi sendiráðanna.

Herra forseti. Því miður er ekki hægt að hæla mörgu fleiru í þessari skýrslu eða nefna neitt í henni sem gæti vakið vonir um breytingu á stuðningi okkar við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak. Hæstv. utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld séu nú sem fyrr á þeirri skoðun að rétt hafi verið að gera innrásina í Írak og enn er í skýrslunni hamrað á því að Írakar hafi haft gereyðingavopn undir höndum. Nú heitir það að vísu að almennt hafi verið uppi grunsemdir um slíkt. En það var nánast fullyrt á sínum tíma og hefur nú verið hrakið á alþjóðavettvangi að slíkar fullyrðingar hafi haft við rök að styðjast. Enn fremur er því lýst sem áhyggjuefni hve margir evrópskir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafi alið á andúð á Bandaríkjamönnum og Bandaríkjunum að undanförnu. Það er ekki eins og það sé án ástæðu. Bush og aðrir oddvitar stríðsrekstursins í Írak skiptu heiminum í svart og hvítt. Annaðhvort ertu með okkur eða þú ert á móti okkur, var boðskapurinn þá og það hefur lítið breyst. Þá tóku menn afstöðu og fátt hefur gerst til að milda afstöðu manna til aðgerða Bandaríkjamanna í Írak síðan.

Ein mikilvægasta ákvörðun í utanríkismálum sem Íslendingar hafa tekið er vafalaust innganga Íslands í varnarbandalag vestrænna ríkja, NATO, árið 1948. Þá settu Íslendingar eitt ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir aðildinni sem var að Ísland mundi aldrei taka beinan þátt í hernaðaraðgerðum, aldrei fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum. Að þessu skilyrði gengu aðrar þjóðir í bandalaginu umyrðalaust. Ríkisstjórnin braut þetta skilyrði með því að skipa Íslandi í bandalag hinna staðföstu þjóða sem stóðu að árásinni á Írak. Þáverandi hæstvirtir forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem síðan hafa haft stólaskipti tóku þessa afdrifaríku ákvörðun án nokkurs samráðs við Alþingi þrátt fyrir skyldu sína til samráðs við utanríkismálanefnd um öll meiri háttar utanríkismál.

Varla finnst nokkur maður hér á landi sem telur aðild okkar að hernaði í Írak til minni háttar utanríkismála. Hver var svo réttlætingin sem færð var fyrir þeirri kúvendingu á stefnu Íslendinga í utanríkismálum sem varð þegar ríkisstjórnin ákvað að styðja árásarstríðið á Írak? Hún var gereyðingarvopnin sem áttu að vera í Írak. En þau hafa hvergi fundist og staðhæfingar um tilvist þeirra reyndust úr lausu lofti gripnar. Vissulega vilja menn sjá að Írakar eignist frelsi og framtíðarvonir eins og hæstv. utanríkisráðherra gat um. En fátt bendir til þess, því miður, að slíkt sé á næstu grösum.

Að lokum vil ég fara örfáum orðum um starf íslensku friðargæsluliðanna.

Ég býst við að það sé rétt fullyrðing að þeir hafi unnið vel við erfiðar aðstæður. Hins vegar held ég að það slys sem varð nú nýverið þegar íslenskir friðargæsluliðar urðu fyrir árás við störf sín hafi opnað augu manna fyrir því hvert eðli starfa þeirra er og hversu mikil áhersla er lögð á hermennsku og vopnaburð í störfum þeirra. Það vekur vissulega upp spurningar um hermennsku á erlendri grund á vegum Íslendinga. Þessi atburður opnaði sýn á störf friðargæsluliðanna sem almenningur hér hafði ekki fyrir.

Fyrir rúmum 20 árum var ég á svokallaðri veraldarvakt um tveggja ára skeið. Þar voru þeir sem lokið höfðu námskeiði eða námskeiðum fyrir erindreka til hjálparstarfa erlendis. Óneitanlega hefur mikið breyst síðan þá. Þá var helsti vettvangur hjálparstarfs Íslendinga vanþróuð svæði, einkum í Afríku, og frekar var glímt við fáfræði, samgönguerfiðleika, vöntun á vistum, fjármagni og áhöldum heldur en að glímt væri við hryðjuverkamenn með alvæpni sem tilbúnir eru að láta lífið fyrir málstað sinn eins og nú er. Og þar er auðvitað mikill munur á aðstöðu miðað við það sem nú er. Ég viðurkenni það. Aldrei var reiknað með því á þessum tíma að hjálparstarfsmenn íslenskir gengju um með vopn eða hefðu þau undir höndum til þess að beita þeim í starfi sínu. Sá möguleiki var almennt ekki ræddur.

Ég viðurkenni breytt umhverfi frá þessum tíma en vara við því að upplýsingar eins og þær sem nú komu fram nýverið um íslensku friðargæsluliðana komi alþýðu manna hér á óvart eins og nú varð raunin. Það þarf að fara fram umræða um það að hvaða leyti við viljum standa að þessum hernaðarátökum og ákvörðun um það þarf að taka fyrir opnum tjöldum í stað þess að svona uppákomur afhjúpi allt annan veruleika en almenningur vissi af. Við þurfum að taka upp umræðu um hvort við viljum í raun að friðargæsluliðar okkar starfi sem hermenn, beri einkennisbúning hermanna og vopnist sem slíkir. Er það sönn ímynd okkar á erlendri grund? Er það í samræmi við þá ímynd sem við erum að reyna að byggja upp fyrir land og þjóð?